Föstudagur 14. júní, 2024
10.8 C
Reykjavik

Kolbrún: „Kynferðisbrotamál sem eru kærð fara ekki fyrir dóm – málsmeðferðatími of langur“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Við vitum hvaða áhrif svona mál hafa á andlega líðan brotaþola og vægi sálfræðivottorða er orðið meira en það var. Þá hefur lögreglan fengið meiri þjálfun í yfirheyrslutækni og skýrslutöku. Verklagið miðar allt því að upplýsa þessi mál betur og vægi óbeinna sönnunarganga er alltaf að aukast. En í grunninn er megin reglan sú að ákæruvaldið þarf að sanna sök sem er hafið yfir allan vafa, annars fáum við ekki sakfellingu.“

Þetta segir Kolbrún Benediktsdóttir, varahéraðssaksóknari, en hún fer með rannsókn og saksókn ýmissa brota á stigi héraðsdóms, þar með talin kynferðisbrot. Í viðtali við UN Women á Íslandi ræðir Kolbrún jafnrétti, íslenska dómskerfið og hvernig unnið er að því að gera kerfið „manneskjulegra“ fyrir þolendur kynferðisofbeldis.

Lögin hafi verið samin af körlum

Kolbrún var spurð að því hvort að hegningarlögin beri hag kvenna fyrir brjósti þar sem þau voru skrifuð af körlum? Munu konur hljóta réttlæti ef farið er dómsleiðina?

„Ég skil þessa gagnrýni. Sagan hefur sýnt okkur að margt í lagarammanum er komið til ára sinna. Þetta eru í grunninn gömul lög sem voru skrifuð af körlum á tíma þegar karlar voru fyrst og fremst löggjafinn. En þetta er alltaf að breytast. Sá hluti hegningarlaganna sem hefur sætt hvað mestum breytingum á síðustu árum er einmitt kynferðisbrotakaflinn. Þetta er sá málaflokkur sem hefur verið í hvað mestri þróun vegna baráttu femínista og umræðunnar um jafnrétti.

Nauðgunarákvæðinu var breytt mjög mikið árið 2007 og það var prófessor Ragnheiður Bragadóttir sem samdi þau lög. Við erum líka komin með nýtt samþykkishugtak núna og það eru konur sem koma að því. Það er því kannski ekki hægt að halda því fram að lögin eins og þau leggi sig séu samin af körlum, því margt hefur breyst þar,“ útskýrir Kolbrún.

- Auglýsing -

Hún segist þó geta tekið undir þau sjónarmið að kerfið sé ekki alltaf hliðhollt þolendum þegar kemur að kynferðisbrotamálum.

„En þar hefur líka margt áunnist og margar jákvæðar breytingar átt sér stað til að gera kerfið manneskjulegra. Það er þó alltaf spurning hvort það hafi verið gengið nógu langt í þeim efnum.“

Stór hluti kynferðisbrotamála sem kærð eru til lögreglu fara ekki fyrir dóm. Til þess að einstaklingur sé fundinn sekur fyrir brot og dæmdur í fangelsi, þarf ákæruvaldið að sanna svo hafið sé yfir allan skynsamlegan vafa að einstaklingurinn hafi framið brotið. Að sögn Kolbrúnar hefur aukin þekking í málaflokknum haft í för með sér ýmsar úrbætur, t.d. hvað varðar sönnunarmat.

- Auglýsing -

Bið hefur áhrif á líf fólks og sönnunarstöðuna

„Málsmeðferðartíminn er alltof langur. Ekki bara hjá dómstólum sjálfum heldur hjá kerfinu í heild. Kynferðisbrotamál eru fyrst rannsökuð hjá lögreglu, svo koma þau til ákæruvaldsins og sum þeirra fara svo áfram til dómstóla. Allir sem vinna innan kerfisins verða að vera meðvitaðir um það að fyrir brotaþola skiptir engu máli hvort að drátturinn í málsmeðferðinni liggi hjá lögreglu, ákæruvaldinu eða dómstólum. Bið hefur ekki aðeins áhrif á líf fólks heldur líka á sönnunarstöðuna. Kynferðisbrotamál byggja að miklu leyti á minni vitna og það verður verra eftir því sem líður lengur frá broti,“ útskýrir Kolbrún.

Ákveðin refsipólitík

Samtalið berst næst að fangelsisdómum fyrir kynferðisbrot, sem sumum finnst ekki endurspegla alvarleika brotanna.

„Refsiramminn í kynferðisbrotum er nokkuð víður lágmarksrefsingin er eitt ár og hámarkið er sextán ár. Miðað við önnur Norðurlönd eru refsingar fyrir nauðganir á Íslandi í hærri kantinum. Það sem fólk hefur helst verið að gagnrýna er hvar ákveðin mál lenda innan þessa ramma. Þetta er ákveðin refsipólitík: Hvað er hæfileg refsing og hvað er það ekki?
Það er ýmislegt sem þarf að huga að þegar refsing er ákvörðuð.

Í kynferðisbrotamáli gegn barni eru það ekki alltaf hagsmunir brotaþola að gerandi fái sem þyngsta refsingu því það eru oft mjög erfiðar tilfinningar í slíkum málum. Þarna ertu með barn og það er oft pabbi eða afi sem brýtur á því og brotaþoli vill ekki endilega að gerandinn fari í fangelsi í tuttugu ár heldur vill að brotið hætti og að gerandi fái hjálp. Í svona málum, sérstaklega þegar brotaþoli er kominn á unglingsaldur, er það þetta sem brotaþola finnst oft erfiðast í öllu ferlinu, að einhver þeim nákominn þurfi að fara í fangelsi í mörg ár.

Í stað þess að lengja dóma mundi ég frekar vilja sjá betri stuðning við gerendur í kynferðisbrotamálum og að þeir fái hjálp til þess að komast út úr þessari óæskilegu hegðun. Ég er ekki endilega viss um að við yrðum betur sett ef fólk sæti lengri tíma í fangelsi. En það er bara mín persónulega skoðun.“

„Margt af því sem eru hindranir, eru hindranir sem við höfum búið til og er auðvelt að breyta einfaldlega með því að hugsa hlutina öðruvísi.“

Hún segir mestu máli skipta að kerfið sé nægilega sveigjanlegt til að geta tekið tillit til þarfa hvers og eins.

„En fyrst og fremst þurfum við sem störfum innan kerfisins meiri fræðslu um þessi mál. Það þarf að koma á nýrri hugsun hjá fólki gagnvart fötluðum. Við höfum svo lengi skilgreint þann fatlaða út frá ófötluðum, en hugsunin í dag er meira sú að fötlun er samblanda af því sem er „að“ og hömlurnar sem samfélagið setur þér út frá því. Fyrir manneskju í hjólastól er hjólastóllinn ekki endilega hindrunin, heldur það að ætla að heimsækja vinkonu sem býr á fjórðu hæð í lyftulausu húsi. Margt af því sem eru hindranir, eru hindranir sem við höfum búið til og er auðvelt að breyta einfaldlega með því að hugsa hlutina öðruvísi.“

Stjórn UN WOMEN á Íslandi

 

Hægt er að horfa á viðtalið við Kolbrúnu hér

 

Heimildir:

UN Women á Íslandi. 2021, 5 nóvember. Kynslóð jafnréttis: Kynferðisbrotkaflinn tekið breytingum vegna baráttu femínista. Reykjavík. Ísland.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -