Fimmtudagur 16. maí, 2024
7.8 C
Reykjavik

Læknar tóku ekki mark á Kolbrúnu: „Það var enginn að grípa mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Kolbrún Sverrisdóttir hefur gengið í gegnum ýmislegt á lífsleiðinni. Hún missti sambýlismann sinn í sjóslysi árið 1996 og fórst faðir hennar einnig í sama slysi. Eftir slysið varð Kolbrún landsþekkt fyrir baráttu sína fyrir réttindum sjómanna og var meðal annars valin kona ársins 1999 af tímaritinu Nýju Lífi. Undanfarin sex ár hefur hún hins vegar glímt við lungnasjúkdóm en fékk ekki rétta greiningu fyrr en árið 2022. Kolbrún segir frá þessu í tímaritinu Lungu, fréttablaði Lungnasamtakanna.

„Eftir á að hyggja hef ég verið farin að finna fyrir þessu án þess að gera mér grein fyrir hvers kyns væri. Ég reykti í þrjátíu ár, frá því ég var unglingur og þangað til ég var fjörtíu og fimm ára og eru því að verða átján ár frá því ég hætti. Það umhugsunarverða er að fyrir um fimm til sex árum fór ég að fá mjög mikla verki fyrir brjóstið og í bakið. Ef ég fann lykt af grasi fannst mér ég alveg vera að kafna og var mjög viðkvæm fyrir alls konar lykt. Ég mæddist mikið, var alltaf hnerrandi og tók andköf ef ég fann eins og eitthvað skylli á lungunum.“

Á þessum tíma fór Kolbrún reglulega til læknis til að reyna fá skýringu á málunum. Hún var greind með gróðurofnæmi, kulnun eða stoðverki en var í raun aldrei rannsökuð. Hélt þetta áfram þar til hún missti allt þrek eitt kvöld áður en hún átti að mæta til vinnu. Hafði hún ekki þrek eða orku til að opna útidyrnar. Varð svo að hún lá í veikindum yfir helgina. Mánudaginn eftir helgina reyndi hún að fá tíma hjá lækni en gat aðeins fengið slíkan tíma ef hún hitti hjúkrunarfræðing fyrst.

„Það tókst loksins og hún tók af mér blóðprufu þar sem kom í ljós að ég var með einhverja sýkingu. Þá fékk ég að tala við lækninn sem setti mig á lyf við lungnabólgu. Ég fór heim og tók lyfið og ætlaði svo bara að mæta í vinnuna þegar ég væri orðin hressari.“

Lyfin höfðu þó ekki þau áhrif sem Kolbrún vonaðist eftir og hún ákvað að taka málin í eigin hendur. „Það var enginn að grípa mig í þessum aðstæðum. Ég hafði verulegar áhyggjur af veikindum mínum og sá fram á að ég myndi sennilega ekki fá þá þjónustu sem ég þyrfti heima. Ég var hvorki sett í myndatöku né blásturspróf, það var ekkert verið að spandera í það.“

Eftir að hafa fengið tíma hjá lungnalækni með miklum erfiðleikum var Kolbrún greind með lungnabilun á lokastigi og hefði aðeins 25 prósent lungnastyrk. Lungnalæknir Kolbrúnar sótti um endurhæfingu fyrir hana á Reykjalundi en í millitíðinni fékk hún svo veirusýkingu og loksins COVID.

Eins og gefur að skilja er Kolbrún ósátt við þá læknisaðstoð sem hún fékk þau ár sem hún leitaði sér læknisaðstoðar og var ranglega greind. „Ég skrifaði fráfarandi forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og lét hann vita af þessari óánægju. Ég nefndi að í það minnsta hefði mátt taka af mér mynd. Þá hefði þessi þétting í lunganu sést. Í öðru lagi finnst mér alveg galið að í öll þessi ár sem ég hef komið til læknisins með mikla öndunarerfiðleika hafi ég ekki einu sinni verið sett í blásturspróf. Það kostar nú ekki mikið og hefði ekki sett stofnunina á hliðina,“ en í svarbréfi til Kolbrúnar var sagt að ekkert óeðlilegt hafi verið við afgreiðslu á hennar máli en þó hefði mátt taka lungnamynd.

Kolbrún kallar eftir því að læknar hlusti betur á fólk þegar það kemur til þeirra. „Ef það kemur til þín miðaldra kona, skaltu taka mark á því sem hún segir og skoðaðu hana. Ekki afgreiða hana sem móðursjúka, með stoðverki, gróðurofnæmi, eða kulnun!“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -