Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Lalli sjúkraliði lýsir starfinu fyrir Svanhildi Hólm: „Ég hef séð limlest fólk engjast af kvölum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Okkur blöskraði bara hér um helgina þegar Svanhildur var að tjá sig í Silfrinu. Við höfum bara verið að hlæja að þessu og spyrja yfirmennina hvernig við getum fengið þessar 800.000 kall. Og það hrista allir hausinn yfir þessu hér því þetta er ekki raunveruleikinn.“

Þetta sagði Lárus Páll Birgisson sjúkraliði á Landspítalanum í samtali við Mannlíf og átti þá við Svanhildi Hólm Valsdóttur sem sagði tilgangslaust að hækka laun hjúkrunarfræðinga.

Lárus, eða Lalli sjúkraliði eins og hann er oft kallaður, sendi Mannlífi tölvupóst þar sem hann lýsti því versta sem hann hafi upplifað þau 17 ár sem hann hefur unnið sem sjúkaliði á Landspítala Íslands. Þá lét hann einnig fylgja fjóra launaseðla sem sýna mánaðarkaup hans fyrir 100 prósent vinnu, eftir 17 ára starf. „Svona eru launin ef einhver er í vafa um það hver er að segja satt,“ sagði Lalli og bætti við að launaseðlarnir séu frá fyrstu fjórum mánuðum síðasta árs því það sé síðasta árið sem hann hefur verið í fullri vinnu. Segist hann vera á dagdeild þannig að það eru engar aukavaktir í boði.

Ein og sjá má á launaseðlum Lalla neðar í fréttinni má sjá að hann hefur verið að fá milli 333.000 til 350.000 þúsund krónur fyrir 100 prósent vinnu sem sjúkraliði við Landspítalann en hann segist ekki kvarta, þrátt fyrir lág laun.

„Ég er ekkert að kvarta voðalega mikið af því að ég á ekki neitt. Ég á ekki konu og börn, ég á ekki hús og bíl og ekki neitt. Sko, fyrir aumingja er þetta alveg fínt en ef þú ætlar að vera einhver gildur borgari í samfélaginu og eiga heimili og eitthvað svoleiðis þá virkar þetta ekki.“

Þess má geta að framfærsluviðmið einstaklings án barns er 202.414 kr. samkvæmt Umboðsmanni skuldara og er það án húsaleigu.

- Auglýsing -

Hér fyrir neðan má lesa lýsingu Lalla á verstu augnablikum vinnu hans á spítalanum:

Ég heiti Lárus og starfa sem sjúkraliði á Landspítalanum. Frá því ég hóf störf hef ég fengið á mig alla þá vessa sem mannslíkaminn framleiðir, blóð, þvag, saur osfr. Ég hef stungið mig á óhreinum nálum og er daglega innan um allar pestir sem ganga. Það hefur verið hrækt á mig oftar en einu sinni og ég hef verið kýldur, skallaður og kyrktur. Ég hef séð limlest fólk engjast af kvölum, skaðbrennd börn og heilaslettur leka á gólfið. Verst eru þó hljóðin, þau sitja í manni lengur en það sem maður sér og lyktin, lyktin af rotnandi holdi gleymist aldrei. Örvinglaðir foreldrar eftir barnmissi, sjálfsvíg og aðrir harmleikir.

Þetta hef ég allt séð og þurft að takast á við með því að bæla það niður svo ég geti haldið áfram að vinna. Í hvert skipti deyr lítill hluti af hjartanu og í dag er ég blessunalega kaldrifjaður eins og sönnum fagmönnum sæmir. Það þraukar enginn lengi þarna inni ef hann ætlar að taka svona hluti inn á sig til lengdar. Þetta er mannskemmandi helvíti en trixið er að skemma réttu tilfinningarnar svo hægt sé að halda áfram með næsta verkefni.  Ekki gráta fyrr en þú ert kominn heim.

- Auglýsing -

Allan tímann er maður svo meðvitaður um að ef ég fokka einhverju upp þá ber ég ábyrgð.  Allt frá litlum hlutum til manndráps af gáleysi og ég verð sóttur til saka ef verklagið er ekki eftir bókinni.  

Ég vildi bara sýna ykkur svart á hvítu hver 100% laun sjúkraliða á Landspítalanum eru eftir 17 ára starf á vígvellinum og læt nokkra launaseðla fylgja með. Þið fjölmiðlar hafið góðfúslegt leyfi mitt til að birta þessar launaupplýsingar ef þið teljið þetta skipta einhverju máli í umræðunni um kjaramál heilbrigðisstarfsfólks.“

Hér má svo sjá launaseðlana en ef smellt er á myndirnar stækka þær.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -