Fimmtudagur 20. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Lárus er fjölelskandi í opnu hjónabandi: „Ég held að þetta hafi bætt hjónabandið ef eitthvað er“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Fjölástir, eða „polyamory“ á ensku, er tegund af sambandsformi þar sem meginatriðið er að fólk á í einhvers konar rómantískum samböndum við fleiri en einn einstakling í einu. Í almennu tali er sagt að fólk sé „pólý“, en poly er stytting á „polyamorous“, sem hefur verið þýtt sem fjölelskandi á íslensku.

Mannlíf ræddi við mann sem er fjölelskandi. Hann og eiginkona hans eru í pólýhjónabandi. Þau búa saman, eiga börn og hefðbundið fjölskyldulíf, en fara svo bæði á stefnumót utan hjónabandsins og eiga kærustur/kærasta eftir atvikum. Maðurinn, sem kaus að segja frá reynslu sinni undir nafnleynd, er að nálgast fimmtugt.

Þau hjónin hafa verið gift í fimmtán ár, en ákváðu að opna hjónaband sitt fyrir tæplega þremur árum.

Maðurinn verður hér kallaður Lárus.

Viðtalið í heild sinni má nálgast í nýju helgarblaði Mannlífs.

 

- Auglýsing -

Kynlíf hluti af pakkanum en ekki aðalatriði

„Held að grunnurinn í opnum hjónaböndum sé að þú elskar viðkomandi það mikið að þú vilt að hinn aðilinn njóti sín, hvort sem það er með þér eða öðrum,“ segir Lárus.

„Stundum þurfum við að ýta á hvort annað að drífa okkur af stað á stefnumótið. Þá er samviskan eitthvað að naga okkur, þó svo að við hlökkum til stefnumótsins.

Það að skilja hinn aðilann eftir heima með börnin getur vakið samviskupúkann þó svo að við vitum að sá sem er að fara út muni njóta þess og að sá aðili sem verður eftir heima muni fara út eitthvert annað kvöld.

- Auglýsing -

Það hefur reyndar komið fyrir að við höfum fengið pössun og farið út á sama tíma en á deit hvort með sínum aðilanum. Það er góð tilfinning þegar við erum bæði að njóta í stað þess að annar aðilinn sé heima.

Reyndar, þó svo að við séum gift, þá notum við oft það orðfæri að konan mín sé kærasta mín og ég kærasti hennar. Mér finnst spennandi tilhugsun að eiga tvær kærustur, búa með einni, sem ég geri, og hitta svo aðra reglulega. Ég myndi samt ekki fara í tvöfalt heimilishald með tilheyrandi flækjustigum, ég sé það ekki fyrir mér.

Frá upphafi hef ég viljað tengingu, það er nauðsynlegt fyrir mig. Ég hef aldrei getað einnar nætur gaman þar sem þar er ekki alvöru tenging til staðar. Ég hef þó gert það í örfá skipti á yngri árum.

Ég vil sem sagt deit, spjall, tengingu og svoleiðis. Ég hef voða gaman af áhugaverðu spjalli um hitt og þetta. Kynlíf er hluti af pakkanum en það er ekki aðalatriðið, þó svo að ég sé og hafi alltaf verið mikil kynvera. Það er líka staðreynd að þar sem góð tenging er til staðar verður kynlífið betra og þróast með tímanum.

Það er talsvert um pólý hér á landi, líklega meira en fólk grunar, held að þetta sé smám saman að koma upp á yfirborðið. Þetta er samt sem áður ekki viðurkennt, svo að maður fer varlega til að nánasta fjölskylda frétti ekki af þessu, til dæmis börnin.

Þar fyrir utan er mér alveg sama hverjir vita af þessu hjá okkur, ég er ekkert að fela þetta, til dæmis þegar ég fer á deit. Ef ég rekst á einhvern sem ég þekki þegar ég er á stefnumóti þá er það bara þannig.

Ég er rólegur að eðlisfari og ég held að fólk sem þekkir mig myndi aldrei gruna að ég væri pólý. Ég hef ekki sagt vinum mínum frá þessu, en konan mín hefur sagt nokkrum af sínum vinkonum frá.“

 

Fyrirkomulagið gerði hjónin nánari

Lárus segir að það sé gaman að finna spennuna sem fylgi nýjabruminu þegar byrjað er að hitta nýtt fólk eftir svo langan tíma í sambandi með sömu manneskjunni.

Hann segir að eðlilega eigi hversdagurinn svolítið til að taka yfir í langtímasamböndum með tilheyrandi verkefnum og þá eigi spennan það til að glatast. Það sé hins vegar gaman að finna fyrir þessu nýjabrumi sem óhjákvæmilega fylgir fjölástum – og sjá maka sinn njóta sín og finna fyrir spennu á sama hátt.

Hann segir fyrirkomulagið hafa gert þau hjónin enn nánari og skapað meiri spennu og fjölbreytileika í þeirra eigin sambandi og samlífi.

Algengir fordómar gagnvart þessu sambandsfyrirkomulagi eru á þann veg að ef fólk í hjónabandi vilji prófa það, hljóti það að þýða að hjónabandið sé dauðadæmt og aðeins tímaspursmál hvenær það endi. Lárus skilur að sumir gætu séð þetta á þann veg, en að það sé alls ekki upplifun hans og eiginkonu hans.

„Ég held að þetta hafi bara bætt hjónabandið ef eitthvað er. Frekar en hitt. Við vorum samt mjög fín áður. En kannski þegar þú ert að fara á stefnumót, eða bara að fara út að hitta einhvern hóp af fólki, og hefur gaman, þá kemurðu í góðu skapi til baka.“

Lárus segir einnig að áhrifin á kynlíf þeirra hjóna hafi verið góð.

„Þegar þú prófar eitthvað með annarri manneskju sem þú hefur ekki gert áður og kemur svo til baka, þá kannski tekurðu það með þér, meðvitað eða ómeðvitað, inn í svefnherbergið heima hjá þér. Þegar þú ert búinn að vera með sama aðila í kannski fimmtán ár, þá verður stundum erfitt að koma með eitthvað nýtt. Það er bara mannlegt. Það er gaman að geta víkkað sjóndeildarhringinn.“

 

Vill frekar hitta fólk sem er líka í öðru sambandi

Lárus segir að í tilfelli þeirra hjóna sé það þannig að þeirra hjónaband og fjölskyldulíf hafi forgang.

„Sumir sem eru pólý vilja hafa allt og alla jafna – að ekkert samband trompi annað. En í okkar tilfelli er þetta svona. Það yrði alltaf þannig og við sjáum ekkert annað fyrir okkur. Þess vegna er til dæmis sniðugt að vera að hitta annað fólk sem er líka í öðru sambandi fyrir. Af því að ef ég er að hitta konu sem er einhleyp, eða sem er til dæmis með börnin sín aðra hverja viku, þá er ekki alveg sami skilningurinn.

Þá á ég að vera með henni þessa viku þegar hún er barnlaus. Það er eitthvað sem maður getur kannski bara ekkert uppfyllt.

En þetta er auðvitað alveg eðlilegt. Segjum að einhleyp kona fari að hitta mann sem henni líkar við. Þá vill hún auðvitað bara vera með honum og að hann sé til staðar.

Þá er betra fyrir fólk eins og mig og konuna mína að vera með fólki sem er líka í sambandi, því þá hittist fólk bara þegar það hefur tíma og þá er líka skilningur til staðar. Skilningur á því að þú sért með börnin og fjölskylduna í forgangi, til dæmis. Það er ekki hægt að hoppa bara burt hvenær sem er.“

 

Láta alltaf vita – samskipti og traust skiptir öllu

Lárus þekkir þetta af eigin reynslu, því hann hefur bæði verið með fólki sem er í öðru pólý-sambandi fyrir og fólki sem er einhleypt.

„Þegar þú ert með manneskju sem er einhleyp þá færðu meira samviskubit. Það er allavega mín reynsla. Þú veist að manneskjan er ein og vill eyða tíma með þér, en þú getur bara ekki gefið allan þann tíma – þú getur ekki verið alls staðar.“

Hann segir það afar misjafnt hvort og hvaða reglur fólk sé með þegar kemur að pólý-samböndum. Í hans tilfelli eru reglurnar ekki margar, en það er þó ein sem þeim hjónunum þyki mikilvæg.

„Við látum alltaf vita fyrirfram. Ég fer ekki bara á deit núna og segi henni ekki frá því, eða segi henni seinna. Ég er til dæmis að fara annað kvöld og sagði henni frá því fyrir nokkrum dögum og hún sagði mér að hún ætlaði að fara eftir nokkra daga.

Þannig að maður veit af því fyrirfram. Ég veit hvern hún er að fara að hitta og hún veit hvern ég er að fara að hitta. Jafnvel þótt við ættum ekki börn, þá myndi ég alltaf vilja segja henni frá fyrirfram. Annars fyndist mér vanta eitthvað upp á samskiptin.“

 

Þú hefur frelsi en velur að koma aftur heim

Lárus segir samskipti þeirra hjóna alltaf hafa verið opin og góð. Sömuleiðis ríki mikið traust á milli þeirra.

„Annars gengi þetta ekkert. Annars væri svo mikið óöryggi og maður væri alltaf að hugsa hvort makinn væri að fara að yfirgefa mann fyrir hina aðilana. Það er í rauninni afbrýðisemin, að vera hræddur um að missa einhvern. Afbrýðisemin getur í rauninni bara verið til staðar ef það er einhver ótti.“

Hann segir að það þurfi vissulega að ræða það ef annað þeirra verði ástfangið af annarri manneskju, en hann telur að þó að fólk stjórni ekki tilfinningum sínum þá komist með tímanum ákveðið jafnvægi á svona sambandsform.

„Ég held að þessir hlutir komist í jafnvægi. Við fórum geyst í byrjun, en svo róaðist þetta og það komst jafnvægi á hlutina.

Ég held líka að ef þú ert að fá að fara út og horfa í kringum þig, hitta annað fólk og fara á stefnumót, þá verðirðu bara enn ánægðari með það sem þú átt heima. Það er allavega mín reynsla. Þér finnst þú hafa frelsi, en þú kýst að koma heim til makans.

Þú ert að velja makann þinn þótt það sé frjálsræði – þú ert ekki tilneyddur.

Þess vegna finnst mér líka betra að hitta fólk sem er pólý og líka í öðru sambandi fyrir. Því þeim líður þá gjarnan eins.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -