Föstudagur 26. apríl, 2024
6.1 C
Reykjavik

Lögreglan fagnar fækkun opinna kynferðisbrota: „Við erum ekki hætt“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögreglan á Höfuðborgarsvæðinu sendi fréttatilkynningu frá sér þar sem fram kemur að tekið hafi að vinna á uppsöfnuðum málafölda kynferðisbrota með auknu fjármagni og fjölgun starfsfólks. Þannig hafi tekist að hraða vinnslu kynferðisbrota hjá LRH.

Tekist hefur að vinna töluvert niður uppsafnaðan málafjölda hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu (LRH) með fjölgun starfsfólks og breyttum vinnubrögðum. Opnum kynferðisbrotamálum á ákærusviði og í kynferðisbrotadeild LRH hefur fækkað um 37 prósent á undanförnum mánuðum eftir að embættið hlaut sérstaka fjárveitingu til að styrkja rannsókn og saksókn kynferðisbrota. Til marks um þetta þá voru 401 opin mál hjá embættinu þann 1. september sl. en 17. janúar sl. voru þau komin niður í 253 og fækkaði því um 148. Embættinu barst á sama tíma nokkur fjöldi nýrra mála en í heild lauk rannsókn alls 239 kynferðisbrotamála á þessu fjögurra og hálfs mánaða tímabili.

Ráðist hefur verið í ýmsar aðrar aðgerðir til að flýta meðferð kynferðisbrota. Verkferlar embættisins voru endurskoðaðir með það að markmiði að auka málshraða við rannsóknir brotanna. Þá var samvinna kynferðisbrotadeildar og tölvurannsóknardeildar aukin og bætt til að stytta rannsóknartíma rafrænna gagna sem tengjast kynferðisbrotum og einnig var stoðþjónusta frá þjónustudeild embættisins aukin. Þar að auki var útbúið stjórnborð þar sem fylgst er með fjölda mála og framvindu þeirra hjá kynferðisbrotadeild og ákærusviði.

Þetta eru framfaraskref við meðferð kynferðisbrota hjá embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu og standa vonir til að afgreiðsla mála sem hafa því miður verið of lengi í kerfinu, með tilheyrandi áhrifum á brotaþola, verði flýtt eins og kostur er.

„Það er ánægjulegt að sjá þennan góða árangur sem náðst hefur á skömmum tíma. Við erum ekki hætt og munum halda áfram að leita leiða til að stytta málsmeðferðartíma kynferðisbrota á sama tíma og við tryggjum gæði rannsókna. Auknar fjárveitingar hafa skipt sköpum og þá skiptir máli að við erum að mæla árangurinn jafnóðum sem hjálpar okkur að fylgjast með því ef það verða til flöskuhálsar en það eru fjölmargir sem koma að meðferð þessara mála hjá embættinu. Það er og hefur verið markmið okkar að bæta enn frekar þjónustu lögreglu í þessum mikilvæga málaflokki,“ sagði Halla Bergþóra Björnsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -