Þriðjudagur 21. maí, 2024
4.8 C
Reykjavik

Lokuðu á Dóru leikstjóra eftir spurningar um fjármálin: „Pressan að fara á Selfoss var mjög mikil“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Leikstjóri Áramótaskaupsins 2022, Dóra Jóhannsdóttir átti í mestu erfiðleikum með að vinna að Skaupinu vegna samskiptaörðugleika við framleiðanda og aðstoðarleikstjóra, þá Eið Birgisson og Hjört Grétarsson en þeir hættu skyndilega að tala við hana.

Heimildin sagði frá erfiðleikum við gerð Áramótaskaupsins í frétt í gær. Þar er vitnað í skýrslu sem Dóra Jóhannsdóttir leikstjóri þess sendi á Ríkissjónvarpið þann 17. desember en þar kvartar hún meðal annars yfir afar erfiðum samskiptum við framleiðendur og aðstoðarleikstjóra Skaupsins.

Selfoss-pressan

Samkvæmt skýrslunni, sem Mannlíf hefur einnig undir höndum, var mikil pressa á að taka atriði fyrir Skaupið upp á Selfossi. Ásamt Sigurjóni Kjartanssyni er eigandi að framleiðslufyrirtækinu S800, fyrirtækið Sigtún sem byggði og á Nýja miðbæinn á Selfossi. Aðaleigandi Sigtúns er útgerðarmaðurinn Kristján Vilhelmsson í Samherja, einn auðugasti maður Íslands. Í skýrslu Dóru kemur fram að pressan á að taka upp atriði á Selfossi hafi verið mjög mikil frá fyrst degi en hún óskaði síendurtekið eftir því að þangað yrði ekki farið til að spara tökutíma.

„Pressan að fara á Selfoss var mjög mikil frá fyrsta degi. Ekkert var hlustað á síendurteknar óskir leikstjóra um að fara ekki þangað í tökur og finna frekar aðrar lausnir á spítalarými til að missa ekki dýrmætan tökutíma í ferðalög. Af einungis 8 tökudögum eru 2-3 tímar í óþarfa ferðalög mjög dýr. Það væri hægt að taka upp 1-2 sketsja á þeim tíma eða gefa sér betri tíma í hina,“ skrifar Dóra í skýrslunni.

Er Sigurjón Kjartansson, einn framleiðenda, var inntur eftir því í nóvember hvort einhver útisena hafi verið tekin upp á Selfossi neitaði hann því. Síðar kom þó í ljós að eitt atriði sem hann lék sjálfur í, hafi verið tekið upp utandyra á Selfossi en þar sést í Ölfusárbrúna. Sagði Sigurjón í samtali við Heimildina að honum hefði yfirsést að nefna það atriði í nóvember: „Þetta er smá bútur sem tilheyrir öðrum skets og það sést ekkert að þetta sé á Selfossi.“

- Auglýsing -

Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri Sjónvarps hafði ekkert út á vilja framleiðenda til að taka Skaupið upp að hluta til á Selfossi er Heimildin spurði hann: „Nei, þarna á í hlut framleiðslufyrirtæki sem staðsett er á Selfossi. Rétt eins og framleiðslufyrirtæki sem staðsett eru á höfuðborgarsvæðinu hafa tilhneigingu til að framleiða sitt efni á höfuðborgarsvæðinu þá þarf ekki að koma á óvart að það vilji framleiða sitt efni á Selfossi. Annars fór ekki fram neitt samtal sérstaklega um hvar Skaupið yrði tekið upp. Það er eitt af því sem við rýnum við lokayfirferð, hvort sem er Skaupsins eða annars efnis sem framleitt er fyrir okkur, hvort eitthvað sé óvenjulegt við val á tökustöðum.“

Klippt á samskiptin

Í skýrslunni segir Dóra að er henni hafi orðið ljóst eftir að frétt Stundarinnar kom út um eignarhaldið, að eigendur Nýja-miðbæjarins á Selfossi væru eigendur S800 framleiðslufyrirtækisins ásamt Sigurjóni, hafi hún áttað sig á „Selfoss-pressunni“. Hafi hún í kjölfarið rætt við á því frá Eið Birgisson, meðframleiðanda og óskað eftir skýringum á því, vöruinnsetningum og hvers vegna hún hefði ekki fengið að sjá fjárhagsáætlun Skaupsins, sem venjan sé en hún hafði ítrekað beðið um það.

- Auglýsing -

Sagðist hún hafa upplifað sem svo að Eiður hafi brugðist við með því að fara í mikla vörn er hún óskaði eftir skýringunum og hafa talað við hana af „miklum dónaskap.“ Segir hún að Sigurjón hafi verið viðstaddur samtalið en ekki hafa gripið inn í en beðið hana afsökunar eftir samtalið.

Eftir samtalið við Eið klipptu bæði hann og aðstoðarleikstjóri Skaupsins, Hjörtur Grétarsson á samskiptin við Dóru og varð Sigurjón einhvers konar milliliður eða sendiboði milli þeirra. Í skýrslunni segir: „Framleiðandi og aðstoðarleikstjóri hætta samskiptum við leikstjóra þrátt fyrir að tökur á lokalagi og pikkup tökur væru eftir, eftir að Stundin birti fréttir um eignarhald S800 og tökur á Selfossi og leikstjóri fór að spyrja framleiðsluna um budget, spons í mynd og pressuna á að fara til Selfoss.“ Segir Dóra í skýrslunni að Sigurjón hafi útskýrt fyrir henni að mennirnir hefðu hætt samskiptum við hana því þeim hafi þótt svo erfitt að vinna með henni en fullyrt er í skýrslunni að það hafi aldrei borið á góma áður og að Sigurjón hafi ekki sagst hafa upplifað það sjálfur. Þar til þetta kom upp hafi hún einungis fengið hrós frá þeim og öðrum í starfsliðinu. „Hún var aldrei ein í samskiptum við þá, hvorki í síma né persónu og því eru vitni úr crew-inu að öllum þeirra samskiptum sem geta líklega ekki staðfest sögu þeirra,“ segir í skýrslunni.

Af þessum sökum sagði Dóra að álagið á hana og aðra starfsmenn hafi orðið mjög mikið: „Gríðarlegt álag varð á leikstjóra og aðra þegar Eiður og Hjörtur hætta skyndilega samskiptum en halda samt áfram að vinna að framleiðslunni og flækti það og truflaði mjög og gerði vinnuna mjög erfiða og bjó til mikla óþarfa streitu og óöryggi í þeim tökum sem þá voru eftir: lokalag með mörgum flytjendum sem var mjög flókið að skipuleggja og pikköpp tökur þar sem henni var sagt að vera einungis að vera í samskiptum við Sigurjón sem var erlendis og svaraði skilaboðum seint og svaraði aldrei símtölum.

Dóra segir ennfremur að hún upplifi að framleiðslan hafi hagað sér mjög óeðlilega gagnvart henni: „Leikstjóri upplifir að framleiðslan hafi hagað sér mjög óeðlilega gagnvart henni og hafi ætlað að koma sér undan að þurfa að svara óþægilegum spurningum hennar með því að mála hana upp sem erfiða í samskiptum á seinustu metrum verkefnisins. Ekkert hafði verið minnst á erfið samskipti áður en leikstjóri hafði beðið um samtöl um hvað gæti betur farið og alltaf fengið jákvæð viðbrögð.

 

 

 

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -