Miðvikudagur 17. apríl, 2024
5.1 C
Reykjavik

Matti segir sjálfsást mikilvæga: „Verðum að minnka þörf á viðurkenningu í gegnum samfélagsmiðla“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Matti Ósvald heilsufræðingur og markþjálfi fann ástríðuna eftir að hafa lent í slysi sem olli því að hann var rúmliggjandi mánuðum saman aðeins 19 ára gamall. Matti, sem er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar, segir að sitt stærsta högg hafi á margan hátt endað sem hans stærsta blessun:

,,Ég hef alla tíð haft áhuga á að vita hvernig fólk virkar og hvaðan við komum. Alveg frá því að ég var barn var ég að lesa bækur af forvitni um alls kyns málefni. En svo er það í raun og veru slys eða alvarleg meiðsli sem verða til þess að ég fer alla leið í að skoða heildræna heilsu og leiðir til að hámarka sjálfan sig. Ég var að spila körfubolta 19 ára gamall og fæ ofan á mig annan leikmann og svo vakna ég bara einn morguninn í vinkil og get ekki gengið eða gert eðlilega hluti. Ég gat ekki farið á salernið og leið eins og ég væri með rýting í bakinu. Til að gera langa sögu stutta þá fór ég til 3 sérfræðinga og þeir sögðu mér á endanum að ég ætti ekki að gera mér miklar vonir um að stunda aftur íþróttir. Það eina sem ég gæti gert væri að liggja í rúminu í mánuð og sjá hvort að líkaminn geti gert eitthvað til að laga þetta. Það var auðvitað rosalegt sjokk fyrir ungan íþróttastrák að fá þessar fréttir. En ég sé núna að líf mitt tók í raun nýja stefnu eftir þetta. Ég þurfti að kafa djúpt og lesa mér til um allt sem til var um heilsu til að koma mér aftur til baka. Það var 12 mánaða tímabil þar sem ég þurfti að taka hvíld frá skóla og öllu og var í raun meira og minna rúmfastur. En ég komst á endanum út úr þessu tímabili og spila meira að segja ennþá körfubolta í dag,” segir Matti, sem segir að eftir þetta tímabil hafi hann einsett sér að verða maðurinn sem hann hefði þurft á að halda þegar hann meiddist:

,,Ég ákvað að fara í nám í heildrænni heilsufræði í Kaliforníu í fjögur ár og smám saman varð ég eins konar þerapisti sem var samt fyrir utan hið hefðbundna heilbrigðiskerfi. Fólk er orðið mun móttækilegra fyrir þessum hlutum í dag, en á þessum tíma sáu margir allt sem var fyrir utan kerfið sem einhverja vitleysu. En ég ákvað að fara þessa leið og vildi gera það vel og leggja mig allan fram.”

Matti hefur í gegnum árin unnið með mikinn fjölda fólks, sem heilsufræðingur, markþjálfi og nuddari og er því með góða mynd af því sem helst plagar fólk í nútímanum:

,,Auðvitað eru þessir hefðbundnu hlutir eins og streita, slæmt matarræði, hreyfingarleysi og of lítill svefn að hafa slæm áhrif. En svo eru líka aðrir hlutir sem hafa mikil áhrif. Þessi stanslausi samanburður er klárlega eitt af því sem er að valda fólki hve mestri vanlíðan. Við erum stanslaust að bera okkur saman við glansmyndir af öðrum og það býr til niðurrif. Í staðinn ættum við að einbeita okkur á að horfa inn og átta okkur á því góða í okkur sjálfum. Í raun er samanburður á margan hátt rótin að sorg. Það þurfa ekkert allir að hugleiða eða þess háttar, en bara finna leiðir til að bæta sjálfsvirði sitt. Það er mjög margt gott og skemmtilegt við samfélagsmiðlana og símana, en við verðum að minnka þennan stanslausa samanburð og þörf á viðurkenningu í gegnum samfélagsmiðla. Það mun aldrei skila okkur varanlegri hamingju. Ég held að það sé orðin mikil þörf á að fólk læri að elska sjálft sig og það er á margan hátt fyrsta skrefið í að bæta aðra hluti. Sá sem á í brjáluðu ástarsambandi við sjálfan sig mun vilja hlúa vel að sér.”

Matti hefur mikið skoðað karlmennsku og er með mjög ákveðnar hugmyndir um hvað þarf að gerast þegar kemur að karlmennsku nútímans:

- Auglýsing -

,,Við þurfum á hvoru öðru að halda konur og karlar. Fyrir mér er næsta skref í karlmennsku að hlusta á hvað konur eru að biðja um. Þær geta auðvitað ekki ákveðið hvernig á að vera karlmaður og eiga ekki að fá að gera það. En í mínum huga er skýrt hvað þær eru að biðja um frá okkur og það er fyrst og fremst öryggi. Getum við byrjað að þróa nýja karlmennsku, þar sem konum líður öruggum og byrjað þar. Það þýðir ekki að við eigum að vera meðvirkir og leyfa þeim að vaða yfir okkur. Ný karlmennska er alls ekki að fara í bleikan bol og segjast vera feministi. Það er skuggaorka bæði í karlorku og kvenorku og við eigum ekki að festast í að skoða bara skuggana í karlorkunni, en við karlmenn þurfum að leyfa kvenorkunni að komast í gegn. Og konum verður að líða öruggum nálægt okkur og þær verða að treysta okkur. Flestir karlmenn hafa aldrei þurft að hugsa um það að geta ekki gengið um göturnar án þess að vera með augu í hnakkanum eða óttast um öryggi sitt.”

Matti segir í þættinum frá því þegar hann upplifði óvart sína eigin jarðaför og hvernig það hafði mikil áhrif á hugarfar hans og breytti honum varanlega:

,,Dauðinn er langbesti kennarinn okkar, af því að hann tekur af borðinu allt sem ekki skiptir máli. Það var í jarðarförinni hjá afa mínum og alnafna, Matta Ósvald, sem ég varð fyrir magnaðri reynslu sem hjálpaði mér að skilja þetta fyrir alvöru. Afi var orðinn 98 ára gamall þegar hann fór og var kraftmikill maður og mikil fyrirmynd. Ég labbaði inn í kirkjuna eftir kistulagninguna til að hugga lítinn strák sem var grátandi þegar athöfnin var búin. Ég var að segja honum að afi hafi í raun verið sáttur við að fara þegar mér er litið upp og ég sé hvíta kistu, Keflavíkurmerkið og merki Víkings í Ólafsvík og svo nafnið mitt á öllum krönsunum. Mér brá í 3-4 sekúndur, en svo kom yfir mig mikill friður. Ég áttaði mig á því að svona yrði þetta einn daginn fyrir mig og sá í raun mína eigin jarðarför. Það var eins og ég fengi gríðarlega sterk skilaboð um að það eina sem skipti máli væri hvernig ég ætlaði að lifa þangað til að dagurinn kæmi þar sem nafnið mitt yrði aftur á sama stað í kirkjunni og minn dagur væri kominn. Þegar það gerist mun fólk halda áfram að fara í búðina og kaupa kaffi daginn eftir. Það er mikilvægt að horfast í augu við það að dauðinn mun banka upp á einn daginn og þá mun lífið halda áfram hjá hinum. Ég verð ævinlega þakklátur fyrir að hafa fengið að upplifa þetta og sjá þetta svona skýrt.”

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -