Í dag var minningarsjóður um Arnar Gunnarsson, kennar og handknattleiksþjálfara stofnaður en Arnar lést 3. mars árið 2023.
Samkvæmt Akureyri.net eru það systkini Arnars sem standa að stofnuninni en á þessum degi fyrir ári síðan fannst Arnar látinn í fjöruborðinu við Fitjabraut í Reykjanesbæ.
„Við erum bæði stolt og hrærð á þessum degi þegar minningarsjóðurinn um Adda bróður er stofnaður, honum til heiðurs og höldum við þannig minningunni, um góðan dreng og hans störf í þágu handboltans, á lofti,“ segir Samúel Ívar Árnason, bróðir Arnars, í tilkynningu.
Í tilkynningunni kemur fram að sjóðnum sé ætlað að styðja við unga og efnilega handboltaiðkendur sem stefna hátt, sem og að auka fræðslu til foreldra og forráðamanna barna í íþróttum. Þá á sjóðurinn sömuleiðis að heiðra minningu Arnars.
Hægt er að leggja inn frjáls framlög á reikning hjá Sparisjóði Höfðhverfinga þar sem Arnar var viðskiptavinur um árabil.
- Minningarsjóður um Adda – 1187 – 05 – 255000
- Kennitala: 6503241450