Mánudagur 17. júní, 2024
7.8 C
Reykjavik

Ótrúleg nótt fyrir norðan: Sauð upp úr á Sjallanum: Hnífamaður á Siglufirði: Ungur drengur stal bíl

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Lögreglan á Norðurlandi virðist hafa átt talsvert verri nótt en lögreglan í Reykjavík. Í það minnsta ef dagbækur umdæmanna eru bornar saman. Auk þess hefur lögreglan á Norðurlandi ekki lagt í vana sinn að birta dagbækur opinberlega, þar til nú.

Það er áberandi að lögreglan fyrir norðan skrifar í öðrum stíl en sú í Reykjavík. Sú norðlenska er talsvert ítarlegri og sagt frá atvikum á mannamáli. Ólíkt í Reykjavík þar fáorður, knappur og nánast vélrænn stíll virðist ríkjandi.

Málin sem lögregla fyrir norðan tókst á við í nótt og í gærkvöldi voru fjölbreytt og krefjandi. Fyrsta dæmið um það hljóðar svo:

„Um kl. 20:30 í gærkvöldi fékk lögregla tilkynningu um mögulega vímaðan ökumann á ferðinni þar sem maðurinn hafði einnig veist að konu og síðan ekið í burtu eftir það. Lögreglumenn sáu bifreiðina, gáfu stöðvunarmerki sem ökumaður sinnti ekki og ók áfram á miklum hraða og skapaði með aksturslagi sínu mikla hættu og viðhafði vítaverðan akstur mót einstefnu og yfir umferðareyjar. Eftir nokkurra mínútna eftirför sem endaði við iðnaðarbíl í bænum, stökk maðurinn út úr bifreiðinni en náðist skömmu síðar og var handtekinn og færður á lögreglustöð og síðan vistaður í fangageymslum v. rannsóknar málsins.“

Rétt fyrir miðnætti barst svo tilkynning um alvarlegt slys í Fjallabyggð. „Lögreglan í Fjallabyggð fékk tilkynningu um kl. 23:30 í gærkvöldi um slys þar sem kona hafði fallið um fjóra metra af bakka og niður í fjöru við Hauganes. Betur fór en á horfðist og konan lítið slösuð. Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna slyssins en afboðaðar stuttu síðar þegar ljóst þótti að hægt var að koma konunni til aðstoðar frá landi en mögulega var talið að sækja þyrfti hana í fjöruna, frá sjó,“ lýstir norðlenska lögreglan.

Á sama tíma á Siglufirði þurfti að handtaka óðan mann með hníf. „Rétt eftir miðnætti var maður handtekinn á Siglufirði en hann hafði verið tilkynntur með ógnandi tilburði og sagðist vera vopnaður hnífi. Sérsveit RLS á Akureyri var kölluð út vegna mannsins og hélt af stað á vettvang en stuttu síðar náðu lögreglumenn á Siglufirði að handtaka hann án vandkvæða og var hann færður á lögreglustöðina á Akureyri og vistaður þar.“

- Auglýsing -

Svo voru margir ofurölvi á Akureyri og til vandræða. „Lögregla á Akureyri fékk tilkynningu um ölvun og ágreining á tjaldsvæðinu við Hamra, um kl. 02:30 og fóru á vettvang og náðist að leysa þann ágreining milli aðila án þess að fjarlægja þyrfti fólk eða setja í fangageymslur,“ segir í dagbókinni.

Klukkan þrjú sauð svo upp úr á Sjallanum. „Um kl. 03:00 var tilkynnt um ógnandi framkomu gestar í Sjallanum gegn dyraverði. Það mál leystist á staðnum. Lögregla ók nokkrum ofurölvi einstaklingum heim á leið sem höfðu fengið sér heldur mikið ,,neðan í því“ og voru orðnir frekar lasnir af þeim sökum,“ lýsir lögregla.

Stuttu síðar þurfti að róa sauðdrukkinn mann á sjúkrahúsinu. „Lögregla fékk um kl. 04:00 beiðni frá bráðamóttöku sjúkrahússins á Akureyri vegna manns sem þar var óstýrilátur. Sá hafði verið fluttur þangað af lögreglu stuttu áður vegna ástands. Það leystist með samvinnu lögreglu og heilbrigðisstarfsmanna.“

- Auglýsing -

Einnig réðust margir menn á einn við Götubarinn. Heppnin var þó með honum og slapp hann vel miðað við aðstæður. „Einhver hiti var í mönnum við Götubarinn í Hafnarstræti um kl. 04:00 og veittust þar nokkrir menn að einum sem tókst að koma sér í skjól á veitingastaðnum og biðja um aðstoð. Maðurinn var fluttur á bráðamóttöku SAk.“

Síðasta verkefni næturnar var svo að eiga við ungan óþekktarorm. „Tilkynnt var um ungan dreng á ferðinni á bifreið sem hann hafði tekið í óleyfi snemma í morgun en þegar lögregla kom á staðinn hafði hann skilað bifreiðinni til eiganda síns óskemmdri. Verður háttalag hans tilkynnt barnaverndaryfirvöldum.“

Hér fyrir neðan má svo til samanburðar lesa lýsingu Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu á því sem gerðist í miðbænum í nótt.

„Tveir ökumenn stöðvaðir grunaðir um ölvun við akstur. Hefðbundið ferli hjá lögreglu.

Ökumaður stöðvaður grunaður um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Hefðbundið ferli hjá lögreglu.

Tilkynnt um að maður hafði dottið á rafskútu í hverfi 104. Minniháttar meiðsl en maðurinn mjög ölvaður.

Tilkynnt um vopnað rán í hverfi 105 en þarf hafði maður rænt síma af konu og ógnað henni með hníf. Hann handtekinn og vistaður fangageymsu lögreglu í þágu rannsóknar máls.

Ökumaður stöðvaður í akstri án gildra ökuréttinda. Sektaður.

Tilkynnt um ölvaðan ógnandi mann á tjaldsvæðinu í Laugardal. Lögregla á vettvang og fannst maðurinn ekki.

Tilkynnt um hópslagsmál í miðbænum. Einn gisti fangageymslu lögreglu.

Tilkynnt um aðila í flogakasti í miðbænum. Fluttur á slysadeild til aðhlynningar.

Tilkynnt um ofurölvi aðila í miðbænum. Honum ekið heim til sín en hann gat ekki gengið sjálfur vegna ölvunar og hafði kastað upp yfir sig.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -