Maður reyndi að lokka barn upp í bíl á Akureyri í gær, samkvæmt foreldrum barnsins.
Akureyri.net segir frá færslu foreldra ungrar stúlku sem birtist á Facebook-síðu Giljahverfis á Akureyri en þar segja þau að maður hafi reynt að lokka dóttur þeirra í bíl sinn en lögreglu var gert viðvart.
Færslan er nafnlaus en hljóðar eftirfarandi:
„Nú rétt áðan lenti tíu ára dóttir mín í því á leið á fimleikaæfingu í Giljaskóla að maður á nokkuð stórum hvítum bíl með dökkum rúðum (svartklæddur og með svarta húfu) fer úr bílnum sínum við gangbraut í Merkigili og reynir að fá hana upp í bílinn og segist ætla að bjóða henni far en hún nær að hlaupa í burtu. Mögulega er hann ekki enn á sveimi í Giljahverfi en endilega hafið varan á og biðjið börnin ykkar um að fara varlega.“