Þriðjudagur 3. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Röddin vöðvi sálarinnar: „Heilaði sig af áfallastreituröskun í gegnum hljóðin“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Röddin vöðvi sálarinnar“ er tilvitnun í Alfred Wolfsohn og segir, að mínu mati, allt sem segja þarf um eðli raddarinnar og hvernig við nálgumst hana. Þess vegna ákvað ég nota þessa tilvitnun sem yfirheiti á þeim námskeiðum sem ég býð upp á í tengslum við röddina. Hvort sem ég er að þjálfa leikara eða aðra sem nota röddina sem atvinnutæki, í miðlun og til að verða betri í samskiptum yfirleitt.“ Þetta segir Þórey Sigþórsdóttir, leikari, leikstjóri og raddþjálfi.

Mannlíf heyrði í Þóreyju til að fræðast betur um raddnámskeiðið. Námskeiðið heitir Röddin – Vöðvi sálarinnar og er fyrir þá sem nota röddina sem atvinnutæki eða vilja styrkja röddina og öðlast öryggi í að tala fyrir framan fólk á fyrirlestrum, fundum eða í persónulegum samskiptum.

Hljóð úr deyjandi mönnum ásóttu hann

Þórey notast við raddþjálfunaraðferðir Nadine George og æfingar sem Þjóðverjinn Alfred Wolfsohn þróaði. Hann var söngvari og sem ungur maður neyddist hann til að taka þátt í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann varð aldrei samur. Eftir þá reynslu ásóttu hljóðin úr deyjandi mönnum hann og hann fór að hugsa að ef hljóðin í deyjandi líkömum væru svona mögnuð, hvað þá með hljóðin í heilbrigðum líkama? Hann fór að rannsaka möguleika raddarinnar og það má segja að hann hafi heilað sig af áfallastreituröskun í gegnum hljóðin með aðferðum sem hann þróaði í kjölfarið.  

Frá vinstri: Þórey, Ros Steen, prófessor emerita við Royal Conservatoire of Scotland, einn helsti raddsérfræðingur Skotlands, og Nadine George. Í Glasgow í júlí 2019 á ráðstefnu raddkennara sem kenna Nadine George Voice Work. Ljósmynd: selfie

Margir bíða eftir því að vinna með henni

Þetta er einyrkjafyrirtæki hjá mér, en ég hef verið að vinna með aðferð Nadine George síðan 1996 þegar ég kynntist henni á námskeiði fyrir unga leikara í Danmörku. Nadine er bresk en hún hefur kennt mikið í norrænum leiklistarskólum. Árið 1999 tók ég þátt í fyrsta alþjóðlega námskeiðinu hennar í London.

Eftir það skipulagði ég árlega með henni námskeið, hér á Íslandi, fyrir leikara í samvinnu við Borgarleikhúsið, Þjóðleikhúsið og FÍL allt til ársins 2008 þegar hrunið kom. Það var ekki fyrr en 2019 sem við gátum fengið Nadine til landsins aftur og svo skall Covid-19 á, en nú bind ég vonir við að ég geti skipulagt námskeið með henni á Íslandi nú í ár. Ég veit að það bíða margir eftir tækifæri til að vinna með henni.

Á þessum tíma fór ég að kenna þessa aðferð sjálf, bæði í Listaháskóla Íslands og í  Kvikmyndaskóla Íslands á leikarabraut, og er sú eina á Íslandi sem hef réttindi til að kenna þessa aðferð. Ég kenni líka á námskeiðum sem ég skipulegg sjálf og sérsníð að þörfum viðskiptavina minna.

- Auglýsing -

Tilfinningin er mjög valdeflandi

Þórey með námskeið á Þingeyri „Röddin sem atvinnutæki.” Lósmyndari: Ásgeir Helgi Þrastarson

Þórey segir að reynslusögur nemenda hennar séu margar og það sé svo sannarlega gefandi að heyra þær, vitandi að hún sé að koma af stað bylgjuhreyfingu sem hafi djúpstæð áhrif á líf fólks til hins betra. 

Allir upplifa þá mögnuðu tilfinningu að finna að rödd þeirra er miklu stærri en þeir áttu von á og sú tilfinning ein og sér er strax mjög valdeflandi.“

Hún segir að það sé gott að skoða dæmisögur til að setja hlutina í samhengi;

- Auglýsing -

Kona sem var á karllægum vinnustað þar sem hún upplifði að ekki væri á hana hlustað fann mikla umbreytingu þegar hún fór að mæta til leiks frá öðrum stað í sjálfri sér, með nýja orku og nærveru sem skilaði sér í því að  atvinnurekandinn fór að taka inn nærveru hennar og hlusta á hana á nýjan hátt.

Það eru lífsgæði að finna það, að maður hefur rödd á vinnustað og á hana er hlustað. Þetta snýst ekki bara um röddina, þú mætir líka öðruvísi til leiks, með sterkari nærveru og rödd.“

Kona sem var að ganga í gegnum skilnað fann að hún gat í fyrsta sinn tjáð sig við manninn sinn án þess að missa röddina út af kökknum í hálsinum.

Þetta gladdi mig sérstaklega að heyra. Það er stórt skref í lífi hvers og eins og ákveðin lífsgæði að geta staðið fyrir máli sínu og tilfinningum í persónulegum samskiptum ekki síst við erfiðar aðstæður eins og skilnað.“

Karlmaður sem var bara ansi góður í því að halda fyrirlestra, en þurfti þegar kórónuveiran datt inn að færa þá alla yfir á netið og fékk sjokk þegar hann þurfti að horfa á sig, náði miklum árangri í því að skerpa færni sína í netfyrirlestrum þar sem þú sem fyrirlesari hefur ekki áhorfendur til að næra þig með viðbrögðum þínum.

Eitt er að hafa öryggið til að tala, hitt er að ná nýjum hæðum í framsetningunni og því að byggja upp meðvitund, fínpússa raddbeitingu og frásagnarstíl. Vera fær um að nýta sér ólíka miðla og nálgun í því að setja fram efni.“

Fræðimaður sem hafði haldið fyrirlestra í gegnum árin náði að öðlast meðvitund og dýpka færni sína mikið. Auk þess fann hún hvernig hún gat tengt á milli persónulega lífsins og fagsins. Hvort tveggja hafði áhrif í báðar áttir.

Hún skynjaði hvernig hún gæti dýpkað færni sína og orðið meira authentic eða ekta, sem fyrirlesari. Á sama tíma uppgötvaði hún hvernig það að hafa ekki rödd í persónulega lífinu hafði komið niður á nánum samskiptum hennar í gegnum lífið. Jafnvel komið niður á henni sem fyrirlesara. Hún áttaði sig á samhenginu og gat unnið með að breyta því.

Doktorsnemi sem hafði eytt miklum tíma, fjármunum og orku í að mennta sig ákvað að taka góðan tíma í að þjálfa fyrirlestratækni sína svo hún gæti flutt vörnina stresslaus og notið þess. Sú vinna skilaði sér og hún toppaði á réttum tíma, í vörninni sjálfri.

Æfingar sem opna á flæðið og hafa áhrif á atvinnutækifæri

Ég er sannfærð um að það hefur haft áhrif á þau atvinnutækifæri sem henni buðust strax í kjölfarið. A.m.k. ekki skemmt fyrir. Ég er alltaf dálítið hissa á því hversu hlutfallslega fræðimenn virðast eyða litlum tíma í að þjálfa framsetningu efnisins miðað við efnisöflun.

Ég er sjálf með meistaragráðu í menningarmiðlun frá Háskóla Íslands og vann lokaverkefni mitt undir handleiðslu Eggert Bernharðssonar sagnfræðings, sem setti á fót það nám. Blessuð sé minning þess frábæra kennara og menningarmiðlara. Hugmyndafræðin í því námi snýst einmitt um að koma öllum þessum fræðum yfir á mannamál svo við hin fáum að njóta.

Það kom líka skemmtilega á óvart þegar grafískur hönnuður sem kom á námskeið hjá mér sagði mér að „eftir hvert skipti hefði hún farið á kaffihús og skissað á fullu því hún hefði verið svo innblásin eftir tímann“, því þessar æfingar hjálpa til við að opna inn í flæðið og sköpunargleðina. Þær hafa stundum verið nýttar í tengslum við ritsmiðjur í skapandi skrifum.

Raddþjálfunin breytti lífi mínu

Það breytti lífi mínu að kynnast raddþjálfunaraðferð Nadine George. Ég fann áhrifin strax sem leikkona, röddin opnaðist inn í nýjar víddir og sú þróun tekur engan enda.

Ég gleymi ekki augnablikinu þegar ég heyrði söguna af Alfred Wolfsohn á mínu fyrsta námskeiði með Nadine. Ég fékk gæsahúð og það kveikti alveg nýja hugsun hjá mér varðandi röddina. Þessi tilvitnun og hugmyndafræði situr enn sterkt í mér.

Smám saman fór ég líka að nýta mér þessar æfingar í að takast á við áföll í lífi mínu. Umbreytingin sem ég upplifði á sjálfri mér sem leikkona og manneskja varð til þess að ég vildi að aðrir fengju tækifæri til að upplifa það.“

Þórey með námskeið á Þingeyri „Röddin sem atvinnutæki.” Lósmyndari: Ásgeir Helgi Þrastarson

Röddin tengd því hvernig við upplifum okkur

Þórey segir að aðaláherslan sé lögð á að líkamstengja röddina, stækka og styrkja hljómbotn hennar. Þannig að þú lærir að þekkja og skynja möguleika raddarinnar og að hún svari þér í samræmi við þær aðstæður sem þú ert að nota hana í. Að þú getir notað hana meðvitað og hún lendi ekki bara einhvers staðar. Þegar röddin er vel tengd þá verður öll textavinna lífrænni og tengdari persónulegri tjáningu. Ekki eins mikil hætta á að maður verði tilgerðarlegur. Það má segja að þessi vinna stytti leiðina í sterka og áhrifaríka textameðferð og frásagnartækni.

Það stórkostlega er að þegar þú ferð að þjálfa röddina, þá upplifir þú svo margar jákvæðar aukaverkanir sem nýtast þér sem manneskja. Þegar maður hugsar um það, þá er röddin  svo persónuleg og tengd því hvernig við upplifum okkur. Svo stór hluti af sjálfsmynd okkar. Við erum í raun að kjarna okkur því grunnurinn að góðri raddbeitingu er öndun. Það hafa mörg fræðiritin verið skrifuð um jákvæð áhrif djúpöndunar, t.d. á kvíða, að það væri alveg efni í aðra grein. Þannig að raddþjálfun stuðlar að vellíðan, fyrir utan það að byggja upp færni í frásagnartækni.“

Hreinsa og opna orkustöðvarnar

Þórey að kenna í Yogavin jógamiðstöð í Reykjavík

Þá segir Þórey að æfingarnar séu einfaldar sem hún segir að sé frábært, en með ástundun er alltaf farið dýpra.

Ég byggi kjarnann í minni þjálfun á æfingum Nadine. Auðvitað tek ég ýmislegt með mér sem ég lærði frá mínum góða raddkennara í Leiklistarskóla Íslands, Hilde Helgason, og minni reynslu úr leikhúsinu.

Ég hef innleitt meiri orkuvinnu í raddvinnuna, hreinsa og opna orkustöðvarnar og nýti mér hugleiðslu. Sumar æfingarnar frá Nadine eru hálfgerð hugleiðsla í hreyfingu líka. Þetta nám hefur hjálpað mér að fara dýpra og skerpa innsæi mitt sem kennari og listamaður. Svo þetta er allt saman mjög praktískt og styður hvert annað.

Hverjir leita aðallega til þín?

„Til mín koma aðallega leikarar, leiðsögumenn, kennarar af öllu tagi og fólk sem þarf að standa fyrir máli sínu í sínu starfi.

Nú nýlega var ég að kenna námskeið hjá Mennta- og starfsþróunarsetri lögreglunnar, sem var frábært af því að þau gera sér grein fyrir því að röddin er eitt magnaðasta valdbeitingartæki sem lögreglan hefur. Eins er mikilvægt að geta kjarnað sig til að halda dómgreindinni í lagi við erfiðar aðstæður fyrir fólk í svo krefjandi starfi. Það er þekkt að við of mikla streitu fer dómgreindin og þá eru viðbrögðin ekki alltaf ásættanleg.

Margar æfingarnar eru frábærar til að vinna úr streitu. Í raddþjálfun ertu stöðugt að vinna með rétt spennujafnvægi og þá þarftu að læra hvenær og hvar þú styður við í líkamanum og hvernig þú slakar á á réttum stöðum. Sú tækni kemur sér vel alltaf vel þegar við verðum fyrir miklu áreiti.

Ég hef líka verið með námskeið fyrir stofnanir sem sinna safnamiðlun, fjölmiðla, starfsmenn Alþingis svo eitthvað sé nefnt. Mér finnst ótrúlega skemmtilegt að kynnast fólki á svo ólíkum sviðum og komast að því að kjarninn í því sem við þurfum að takast á við í lífinu sem manneskjur er iðulega sá sami. Röddin er magnað atvinnutæki og ekki síður heilunartæki ef við nálgumst hana á þann hátt sem ég hef fengið að kynnast og þróa í gegnum mína frábæru kennara.

Þórey er með námskeið enn þá er hægt að skrá sig hér.
Heimasíða: thoreysigthors.com

Hægt er að skoða Facebook-síðu hennar hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -