Segir aðkomuna í fjósinu í Skagafirði skelfilega: „Svo mikil eymd í augunum á dýrunum“

top augl

Uppljóstrarinn sem sendi ljósmyndir og myndskeið á Mannlíf, segir aðkomuna í fjósi búfénaðarins í Skagafirði sem Mannlíf sagði frá, fyrstur fjölmiðla í gær, hafa verið skelfilega.

„Ég fékk ábendingu fyrir nokkru síðan um slæma meðferð á nautgripum og ákvað bara að gera mér ferð norður í land,“ sagði heimildarmaður Mannlífs og hélt áfram. Fór hann í skjóli næturs á bóndabæinn og tók ljósmyndir og myndskeið sem Mannlíf hefur nú undir höndum. En hvernig var aðkoman? „Þarna voru gripir sem voru verulega vannærðir og sumir hverjir grindhoraðir. Og það er svo mikil eymd í þessu húsi. Svo mikil eymd í augunum á dýrunum. Þarna var allt í skít og drullu og alltof þröngt í stíunum hjá nautgripunum,“ sagði heimildarmaðurinn og bætti við að í húsinu hafi einnig verið fjöldi kinda sem hann hafi verulegar áhyggjur af.

Dýrin vaða mykju upp á hné.
Ljósmynd: aðsend

„Tíminn stoppar þarna, þetta er svo mikill hryllingur,“ segir heimildarmaðurinn og er mikið niður fyrir. „Og hryllingur er sá líka að þeir sem eiga að hugsa um velferð skepna, stofnun sem heitir Mast, hún er gjörsamlega vanhæf. Hún er búin að sanna það og sýna og þetta mál er bara skólabókardæmi um það.“

Enginn bóndi fer svona með dýrin sín

Segir heimildarmaðurinn ennfremur að málið snúist um það hvernig eftirlitsmenn hér á landi hagi sér „og hafa komist upp með það í mörg ár.“ Bætir hann við: „Þetta er þverbrotið, meðferðin á dýrunum og aðbúnaður. Þetta er til dæmis bara skemma sem var ekki hugsuð fyrir dýr. Gólfið er mold til dæmis. Þannig að allar reglur eru þverbrotnar. Og ég hermi þetta allt saman upp á Mast, þetta er á þeirra ábyrgð. Þetta er punkturinn yfir I-ið. Stofnunin er bara rúin trausti.“

Heimildamaðurinn segist núna vilja sjá Svandísi Svavarsdóttur matvælaráðherra stíga fram í þessu máli, því það sé grafalvarlegt.

Vildi heimildarmaðurinn einnig koma því á framfæri að ekki sé við alvöru bændur að sakast. „Enginn bóndi fer svona með dýrin sín. Þessi maður er eitthvað allt annað en bóndi.“

Að lokum vill heimildarmaðurinn spyrja tveggja spurninga: „Erum við neytendur að borða þetta kjöt? Tekur eitthvað sláturhús við þessum gripum?“

Hér fyrir neðan má sjá myndskeið úr fjósinu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni