Þriðjudagur 23. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Segir engan orkuskort í landinu: „Þessi aðferð er vel þekkt …hún er kölluð túrbínutrixið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Marinó G. Njálsson segir að enginn orkuskortur sé í landinu, þvert á það sem ráðamenn hafa sagt að undanförnu. Segir hann að of mörgum hafi verið lofað óskerðanlegri orku.

Marinó G. Njálsson, ráðgjafi og sérfræðingur í áhættustjórnun, öryggismálum og persónuvernd, sem og fyrrum formaður Hagsmunasamtök Heimilanna, heldur því fram í Facebook-færslu að í raun sé enginn orkuskortur á landinu, þrátt fyrir tal um slíkt.

Færslan hefst svo: „Mikið er kvartað yfir erfiðu ástandi á raforkumarkaði. Sagt er að orkuskortur sé í landinu, en eins og ég sé þetta, þá hefur of mörgum verið lofuð orka sem ekki er framleiðslugeta fyrir í lélegu vatnsári. Í góðum vatnsárunum á síðasta áratug hafa seljendur raforku látið freistast að selja meiri raforku í því trausti að aldrei komi slæm vatnsár. Stundum hefur virkjunum verið fjölgað og þannig hægt að auka framboðið. Svo koma slæm vatnsár og þá kemur í ljós að búið er að selja of mörgum örugga raforku. Það kemur því ekkert við hve virkjunum hefur verið (eða verður) fjölgað mikið, slæm ár eru slæm ár. Ekki verður hægt að tryggja meira rafmagn frá nýrri virkjun en afkastageta hennar er í slæmu ári.“ Og Marinó heldur áfram: „Ég er alveg handviss um að Landsvirkjun veit þetta. Þess vegna er hún með eina verðskrá fyrir forgangsorku og aðra fyrir afgangsorku (skerðanlega orku). Mér virðist hins vegar, að hluti af afgangsorkunni hafi verið seld sem óskerðanleg orka, þó hún sé það ekki. Í lélegu ári er ekki hægt að pína fram nægan grasvöxt á túni, alveg sama hvað maður gerir. Eins er með vatnsföllin, sé ekki farið gætilega með það vatn sem rennur í lónin, þá lækkar yfirborð þeirra hraðar en þörf er á.“

Með færslunni birti hann mynd sem hann birti einnig í haust, eftir að hann benti á að vatnsbúskapur sumarsins hafi verið lélegur og að mögulega stefndi í skerðingar. „Á myndinni sést, að yfirborðsstaða Þórisvatns var í lok september í haust svipuð (fjólublá lína hægri endi) eða jafnvel lakari en fyrir tveimur árum (blá lína vinstri endi), þegar síðast var gripið til skerðinga. Vandinn er ekki orkuskortur, heldur að of mörgum var lofuð óskerðanleg orka, þó framleiðendur gætu ekki lofað þeirri orku í lélegum vatnsárum. Alveg eins og að bóndinn fær ekki eins væna dilka þegar gróðurfar er lélegt.“

Þórisvatn

Segir Marinó að allir framleiðendur raforku með vatnsafli viti að sveiflur séu í vatnsbúskap og að öruggt framleiðslustig sé ekki til, þó reikna megi með einhverju lágmarki. Segir hann alveg sama hve mikið virkjunum fjölgar, það eina sem gerist sé að sveiflurna verða hjá fleiri virkjunum. „Vandi okkar í dag er í sjálfu sér ekki raforkuskortur, heldur að búið er að lofa of mörgum að fá orkuna afhenta til sín. Við erum að selja rafmagn til aðila sem ættu ekki að fá það nema í meðalgóðum og góðum vatnsárum. Þegar Landsvirkjun áttaði sig á því, að afkoma sumarsins yrði líklega ekki nógu góð (sem var, skv. myndinni, ca. 1. júní), þá átti fyrirtækið strax að gera áætlanir að draga úr afhendingu á skerðanlegri raforku og sú skerðing átti að byrja meðan enn var verið að fylla á Þórisvatn og áður en miðlun úr lóninu hófst. Myndin sýnir að líklega var byrjað að miðla úr Þórisvatni í ágúst og yfirborð þess lækkaði verulega fram til 1. október.“

Þá segir Marinó að Landsvirkjun hafi komið sér í klemmu. „Það er rangt að tengja það tvennt saman, að ekki sé hægt að verða við allri eftirspurn og að það sé orkuskortur. Landsvirkjun hefur í mjög mörg ár (fyrir utan veturinn 2021-2022) búið við góðan og mjög góðan vatnsbúskap og því geta framleitt mikið af umframorku. Þ.e. orku sem er umfram það sem er nokkurn veginn öruggt að fyrirtækið geti að lágmarki afhent í lélegu vatnsári. En lélega vatnsárið er viðmiðið. Að Landsvirkjun sé búin að koma sér í þá klemmu, að geta hugsanlega ekki afhent allt það rafmagn sem fyrirtækið er búið að selja, hvort heldur til stórnotenda eða endursöluaðila, sem forgangsorku, er ekki því að kenna, að það skorti virkjanir, heldur að fyrirtækið of mat framleiðslugetu virkjanna sinna í lélegu vatnsári eða vanmat hve slæm vatnsárin gætu orðið.“

- Auglýsing -

Segir hann að boginn hafi einfaldlega verið spenntur of hátt, „of mörgum lofuð raforka, sem ekki var öruggt að hægt væri að afhenda.“ Að lokum segir Marinó að aðferðin sé þekkt undir nafninu „túrbínutrixið.“

„Þessi aðferð er vel þekkt. Hefur verið notuð í áratugi og á sér meira að segja sérstakt nafn. Hún er kölluð túrbínutrixið og felst í því að fá leyfi fyrir eina túrbínu í virkjun, byggja virkjunina þannig að pláss sé fyrir fleiri, selja meiri raforku en ein túrbína ræður við og segja svo að það sé algjör fásinna að setja ekki niður fleiri túrbínur fyrst það sé hægt. Í þetta sinn er „túrbínutrixið“ byggt á því að selja meiri raforku en kerfið ræður við í lélegum vatnsárum og segja það valda tjóni að reisa ekki fleiri virkjanir.

„Túrbínutrixin“ hafa verið nýtt um allt þjóðfélag hin síðari ár. Sérstaklega í byggingariðnaðinum. Sumum finnst þetta alveg svakalega sniðugt og aðrir falla fyrir þessu kylliflatir. Innan raforkugeirans verður haldið áfram að beita „túrbínutrixinu“ alveg þar til síðasta virkjanlega sprænan hefur verið virkjuð, nema þetta rugl verði stoppað. Kunni framleiðendur og söluaðilar raforku ekki fótum sínum forráð, þá gerir það ekkert annað en að sanna, að rammaáætlun er nauðsynleg og hugsanlega þurfum við stíft leyfiskerfi vegna sölu á raforku ofan á hana. Þar sem söluaðila þurfa að fá leyfi frá opinberri stofnun fyrir hverjum einasta viðskiptavini sem söluaðilinn tekur í viðskipti. Frekar en slíkt leyfiskerfi myndi ég kjósa að söluaðilar kunni fótum sínum forráð.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -