Sólveig Anna Jónsdóttir skýtur bylmingsfast á utanríkisráðherra Íslands í nýrri Facebook-færslu og segir hann hafa „engan áhuga á þeim börnum, konum og mönnum sem að myrt eru“ á Gaza um þessar mundir.
Verkalýðsforinginn Sólveig Anna Jónsdóttir talar um grein eftir Þórdísi Kolbrúnu Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra, sem birtist í helgarútgáfu Morgunblaðsins. Skýtur hún fast á Þórdísi vegna þess að hún minnist ekki einu orði á þjáningu Gazabúa: „Í helgarútgáfu Morgunblaðsins er grein eftir utanríkisráðherra Íslands, Þórdísi Kolbrúnu R. Gylfadóttur. Minnist hún á þjáningar fólksins á Gaza sem að ísraelski herinn murkar lífið úr? Nei, það gerir hún svo sannarlega ekki. Hún hefur engan áhuga á þeim börnum, konum og mönnum sem að myrt eru þar. Hún hvorki sér þau né heyrir. Enda vinnur hún við að senda þau skilaboð til Bandarikjanna nótt sem nýtan dag að Ísland hafi ekki sjálfstæða utanríkisstefnu, sé aðeins leppur bandarískra stjórnvalda. Ekkert annað skiptir máli.“
Sólveig telur svo upp allt það sem hún segir að skipti ekki Þórdísi máli: „Þjóðarmorð framið á fólki sem hefur enga undakomuleið, endalausar fregnir af myrtum börnum, börn að svelta í hel, börn að deyja vegna þess að sprengjur framleiddar í Bandaríkjunum og Þýskalandi hafa sprengt gat á höfuð þeirra og ekkert er hægt að gera vegna þess að ísraelski herinn hefur sprengt næstum alla spítala og þeir sem eftir standa geta ekki starfað vegna þess að ísraelsk stjórnvöld, með stuðningi Bandaríkjanna og sameinaðra evrópskara valdasjúkra siðvillinga, koma í veg fyrir að hægt sé að koma sjúkragögnum inn á Gaza;
ekkert af þessu skiptir Þórdísi Kolbrúnu neinu máli. Utanríkisráðherra Íslands lætur einfaldlega eins og þetta sé ekki að eiga sér stað.“
Að lokum segir verkalýðsforinginn að ástandið sem fólk sé að upplifa nú sé sjúkt og að nú sé fólk statt í „hruni siðmenningarinnar“.