Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Sigga var aðeins sex ára þegar pabbi hennar dó: „Það var rosalegt högg fyrir fjölskylduna“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Guðnadóttir, Sigga Guðna, sótti frá unga aldri samkomur í Fíladelfíu og síðar Krossinum og segir að bænin sé það sterkasta í lífi sínu. Skólafélagar lögðu hana í einelti þar sem hún gekk í pilsum eins og aðrar stúlkur og konur sem tilheyrðu Krossinum. Tónlistin er henni í blóð borin og með laginu Freedom með Jet Black Joe sem hún söng sló lagið og hún í gegn og það tók á að vera þekkt og kjaftasögurnar grasseruðu. Í dag er Sigga mikil fjölskyldukona sem vinnur sem fasteignasali og nýtur þess að syngja. Hún hefur fundið sína rödd í fleiri en einum skilningi.

Sigríður Guðnadóttir, Sigga Guðna, fæddist og ólst upp í Hafnarfirði og er yngst átta systkina og þar af er ein hálfsystir sem er elst.

„Ég átti rosalega góða æsku og á bara góðar minningar frá því ég ólst upp. Pabbi og mamma voru með sælgætisgerð sem hét Valsa og var mamma heimavinnandi. Hún var lærður kennari en fór að hugsa um börn og bú. Pabbi dó þegar ég var sex ára. Það var rosalegt högg fyrir fjölskylduna. Hann var mikill pabbi og hélt vel utan um allt og allt í einu þurfti mamma að fara að vinna úti, en hún seldi verksmiðjuna, og þurfti hún oftast að vera í fleiri en einu starfi til þesss að halda þessu öllu gangandi enda með fimm börn heima þegar pabbi dó. Mamma var duglegasta, öflugastsa og kærleikríkasta kona sem ég hef nokkurn tíma hitt á minni ævi og stóð hún sig eins og hetja við að halda öllu gangandi. Aldrei skorti okkur neitt.“

Sigga er spurð um sorgina. Sorg lítillar stelpu.

„Ég held ég hafi ekki gert mér grein fyrir sorginni þá en ég gerði mér grein fyrir henni seinna í lífinu. Ég vann aldrei úr því þegar pabbi dó og fór kannski að treysta á fólk sem var ekki treystandi. Karlímyndir í mínu lífi brugðust mér af því að ég var að reyna að leita að þessari pabbaímynd, öryggi, þegar ég var krakki. Og ég finn að ég er ennþá svolítið að díla við það; það er ekkert langt síðan ég fór í rauninni að díla við þessa sorg. Það eru kannski 10 – 12 ár síðan og ég finn það alveg að þetta er mesta sjokk sem barn getur orðið fyrir. Ég var mikil pabbastelpa og allt í einu hvarf ein mikilvægasta manneskja úr lífi mínu og maður situr eftir með tómleikann. Til að vinna í svona sorg þarf að feisa það og í mínu tilfelli hef ég verið að vinna í því með Guðs hjálp og góðra manna. Það hefur hjálpað mér að vera trúuð.“

Hún segist hafa upplifað höfnunartilfinningu í gegnum tíðina og tengir það við föðurmissinn. „Ég held ég hafi upplifað alls konar höfnunartilfiningar í gegnum lífið á svolítið sterkari hátt heldur en þeir sem hafa ekki upplifað missi svona ungir.“

- Auglýsing -

Hún fór ekki í jarðarförina.

„Ég var ofboðslega mikil skotta og það gustaði af mér þannig að mér var ekki treyst til þess að fara í jarðarförina. Ég var mjög aktívt barn.“

Hún talaði um að karlímyndir í lífinu hafi brugðist sér.

- Auglýsing -

„Barn var að leita að viðurkenningu hjá karlímyndum. Þá varð maður uppáþrengjandi. Það er enginn sem getur fyllt skarð pabba manns sem deyr. Ég leitaði eftir öryggi hjá körlum í fjölskyldunni sem þeir gátu ekki veitt mér. Það voru allir yndislegir við mig en það var ekkert skarð fyllt, enda gat það enginn. Litla stelpan var bara að öskra á athygli. Ég held ég hafi oft farið yfir strikið með athyglissýkina á þessum tíma. Ég er með athyglissýki í dag en er meira „down to earth“,“ segir Sigga og hlær.

Hana fór snemma að dreyma um að verða söngkona eða fjölmiðlakona.

„Ég held að hluti af því að vilja verða söngkona tengist föðurmissinum af því að mér fannst gott að fá athyglina og að fólk væri að hrósa mér. „Vá hvað þú syngur vel.“ Maður var alltaf að leita eftir viðurkenningu. Ég hef oft hugsað um hvort þessi þörf fyrir athygli sé hluti af því.“

Hægt er að lesa allt viðtalið með því að smella hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -