Þriðjudagur 3. desember, 2024
2.8 C
Reykjavik

Sigga varð fræg á einni nóttu: „Þetta voru alls konar kjaftasögur sem voru bara rugl“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Guðnadóttir, Sigga Guðna, sótti frá unga aldri samkomur í Fíladelfíu og síðar Krossinum og segir að bænin sé það sterkasta í lífi sínu. Skólafélagar lögðu hana í einelti þar sem hún gekk í pilsum eins og aðrar stúlkur og konur sem tilheyrðu Krossinum. Tónlistin er henni í blóð borin og með laginu Freedom með Jet Black Joe sem hún söng sló lagið og hún í gegn og það tók á að vera þekkt og kjaftasögurnar grasseruðu. Í dag er Sigga mikil fjölskyldukona sem vinnur sem fasteignasali og nýtur þess að syngja. Hún hefur fundið sína rödd í fleiri en einum skilningi.

Freedom og kjaftasögurnar

Hana dreymdi um að syngja og hún fór að syngja.

„Ég er búin að vera að syngja frá því ég var krakki í kirkjunni. Ég var á sínum tíma í kristnu bandi sem hét Júda, ég söng í undankeppni Eurovision, í Landslaginu og vann einu sinni Hemma Gunn-söngvakeppni.

Páll Rósinkranz er sonur einnar systur minnar og hann bjó hjá mér á sínum tíma í heilt ár. Við erum nær í aldri heldur en ég og mamma hans. Hann var þá í hljómsveitinni Jet Black Joe og voru þeir í hljómsveitinni einhvern tímann að semja inni í stofu og ég sagði í gríni að mig myndi langa til að syngja þetta lag. Svo endaði á því að einn þeirra hringdi svo í mig og sagði að þeir ætluðu að láta mig syngja lagið.“

Það var lagið Freedom sem sló í gegn.

- Auglýsing -

„Ég var aldrei í Jet Black Joe. Ég söng bara þetta eina lag með þeim en þegar þeir voru að spila þá kom ég fram með þeim og söng reyndar fleiri lög.“

Hún segir tónlistarferilinn vera svolítið stopulan. „Ég söng með Jet Black Joe á tímabili og svo stofnaði ég mitt eigið band sem hét Rask. Það band lifði ekki lengi og upp frá því flosnaði svolítið upp úr söngkonuferlinum. Ég fór líka að takast á við mál. Svo hafði ég ofboðslega lítið sjálfstraust á þessum tíma út af þessu máli og fleira, ég fann að ég hafði aldrei neina trú á að ég gæti náð árangri og ég ætti skilið að blómstra.

Ég skildi líka við minn fyrrverandi og einhvern veginn fór allt öðruvísi en ég hafði ætlað mér. Ég eiginlega lokaði mig einhvern veginn svolítið af. Svo kynntist ég núverandi manninum mínum, eignaðist barn og fékk tvær stelpur með honum í kaupbæti.“

- Auglýsing -

Sigga gaf út sólódisk árið 2010 og á þeim diski var til dæmis lagið Shame sem hún samdi sjálf og er um skömmina sem fylgdi henni lengi vel. „Þá var akkúrat í gangi fyrrnefnt mál þannig að ég gat aldrei fylgt þeim diski eftir. Þá tók við rosaleg sjálfsvinna og alls konar dómsmál og sjálfstraust mitt brotnaði algjörlega niður á þessu tímabili. Ég er búin að vinna mikið í þeim málum og búin að vinna mikla sjálfsvinnu; að komast út úr þessari skömm og lélegu sjálfstrausti. Ég hef verið að vinna í því síðastliðin 10 ár eða svo.“

Svo var það annar diskur árið 2020. „Það var akkúrat í Covid þannig að ég gat ekki heldur fylgt honum eftir. En ég hef verið að syngja mikið eins og á Goslokahátíðinni  í Vestmannaeyjum og um sjómannadagshelgina í ár. Svo hef ég verið að syngja með Skonrokk-hópnum sem er samansafn af fleiri frábærum söngvurum og tónlistarmönnum. Og vonandi er ég að fara að gera fleiri hluti á næstunni með meira sjálfstraust. Ég hef sungið í alls konar veislum svo sem í brúðkaupum og svo hef ég sungið í jarðarförum. Það er ekki skráð hljómsveit sem ég kem fram með en það er yfirleitt sama fólkið sem spilar með mér.“

Hvað vill Sigga segja um röddina?

„Ég held ég sé fyrst og fremst rokksöngkona. Ég er örugglega fín í mörgu en rokkið hefur fylgt mér og kannski út af því að ég átti svo vinsælt lag með Jet Black Joe. Þetta lag hefur fylgt mér í gegnum tíðina og ég myndi segja að ég væri fyrst og fremst rokksöngkona með „country popp-ívafi“. Ég held að það sem einkenni mig sé kannski krafturinn. Ég held að ég sé með þannig rödd að þú heyrir hver er að syngja þegar ég syng. Ég vona allavega að ég sé ekki að herma eftir öðrum. Ég held ég hafi fundið mína rödd. Það er svo auðvelt að herma eftir einhverri annarri góðri söngkonu. Það er svo auðvelt að fara þá leið af því að það er öruggt. En ég held að það skipti máli fyrir allar söngkonur og söngvara að finna sína rödd. Ég held að einkennin séu krafturinn og vonandi einlægni. Það skiptir mig allavega máli að vera einlæg í því sem ég syng. Ég er kannski ekki besta söngkona í heimi og ekki tæknilegasta söngkona í heimi en þegar ég syng þá legg ég hjartað í það. “

Hún segir það hafa verið skrýtið að hafa orðið þekkt.

„Allt í einu á einni nóttu var ég orðin rosa þekkt. Lagið, Freedom, fór á vinsældalista og var lengi og ég finn að jafnvel krakkar sem voru ekki fæddir þegar þetta lag kom út þekkja það. Lagið hefur lifað mjög vel. Ég hef nú stundum grínast með það að ég sé mjög þekkt en það viti mjög fáir af því.

Það sem ég upplifði varðandi það að vera þekkt var bæði jákvætt og neikvætt. Ég kynntist góðu fólki í gegnum þetta en líka var ég að heyra kjaftasögur um mig sem voru ekki sannar; Það var ekki góð tilfinning og sérstaklega þar sem ég var með brotið sjálfstraust og þess vegna tók ég þetta rosalega inn á mig. Það er öðruvísi þegar maður er sjálfsöruggur sem ég var alls ekki á þessum tíma. Í dag er mér nokkurn veginn sama af því að ég er búin að vinna helling í mér. Það er enginn sem lifir mínu lífi og enginn sem gengur í mínum skóm nema ég.“

Hún segist til dæmis hafa heyrt kjaftasögur um að hún væri í neyslu. „Ég prufaði aldrei dóp. Aldrei nokkurn tímann. Þetta voru alls konar kjaftasögur sem voru bara rugl.“

Hægt er að lesa allt viðtalið með því að smella hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -