Fimmtudagur 10. október, 2024
1.6 C
Reykjavik

Sigríður dýralæknir „algjörlega ósammála“ MAST: „Þarna eru dýr sem þjást“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, dýralæknir er „algjörlega ósammála“ setts yfirdýralæknis hjá Matvælastofnun, sem segir ástandið á kindunum í Þverárhlíð sé ýkt.

Þorvaldur H. Þórðarson, settur yfirdýralæknir hjá MAST sagði í fréttum í gær að stofnunin hafi farið fram á að gerðar verði talsverðar umbætur á sauðfjárbúskapi bóndabæjarins Höfða í Borgarfirði en hann telji ástandið ekki eins slæmt og fólk hefur haldið fram. Segir hann það ýkt.

Steinunn Árnadóttir, sem hefur haft sig hvað mest í frammi í málinu, fór ásamt dýralækninum Sigríði Ingu Sigurjónsdóttur í Þverárhlíð og skoðuðu aðstæður kindanna og voru báðar sammála um að ástandið sé grafalvarlegt.

„Ég mátti til að skoða aðstæður í Þverárhlíð eftir að hafa hlustað á settan yfirdýralækni í hádegisfréttum Bylgjunnar,“ segir Steinunn í Facebook-færslu frá því í gærkvöldi. Og heldur áfram: „Kom þetta meðal annars fram hjá settum yfirdýralækni:

„Við teljum að við séum að sinna skyldum okkar að fullu“
„Ástandið ekki eins slæmt og menn vilja vera láta“
„Fé sem sýna skallamerki eru ekki merki um veikindi“

„Ekki mikið um vanhöld eða hor á fé“.“

En Steinunn tók þó eftir nokkrum breytingum á ferð sinni um svæðið:

- Auglýsing -
„Breytingar sem ég sá að eitt kar var komið nýtt og rann þar alveg ,,heilnæmt vatn“ (sjá af heimasíðu Mast)
Búið er að merkja einhver lömb.

En myndirnar tala sínu máli sem endra nær. Ég hafði dýralækni með mér í för og var hún í miklu uppnámi að sjá þessar aðstæður.“

Þá segir Steinunn að hópur af kindum sé kominn á næstu bæi og jarðir og að nágrannarnir hafi ekki undan að keyra þeim til heim.

„Kindurnar eru komnar í hópum á næstu bæi og jarðir. Nágrannar hafa ekki undan að keyra heim eða tilsegja umkomulaust, illa hirt fé úr þessari Hryllingssögu.

Nýfætt lamb í vegkantinum með móður sinni. Ekkert fóður nálægt. Lítið lamb án móður jarmaði án afláts. Eigandinn var beðinn af dýralækninum að sinna þessu lambi. Það bar ekki árangur. Þrjátíu hrafnar voru nokkuð glaðir í svifi yfir kræsingar. Það má kannski segja að Hryllingsbúið sé alveg sérstaklega hrafnvænt.“

- Auglýsing -
Kind sem yfirdýralæknir MAST segir í lagi með.
Ljósmynd: Steinunn Árnadóttir

Að lokum segir Steinunn að kindurnar frá bænum séu ekki 300 eins og eigandinn sagði í fréttum Bylgjunnar, heldur mun fleiri.

„Ég var beðin sérstaklega að það kæmi fram að fórnarlömbin í þessari Hryllingssögu eru ekki 300 eins og eigandinn laug til um í fréttum Bylgjunnar. Talan er ca 760 stk. Það er þetta með lygina!“

Ljótt að sjá.
Ljósmynd: Steinunn Árnadóttir

Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, dýralæknirinn sem fór með Steinunni í Þverárhlíð í gær, skrifaði einnig Facebook-færslu þar sem hún segist „Algjörlega ósammála“ setts yfirdýralæknis hjá MAST, um að ástandið sé ýkt:

„Í dag sá ég ömurlega búskaparhætti, þar sem dýr þjást. Skýtið að settur yfirdýralæknir finnist þetta ástand ýkt. Ég er algjörlega ósammála honum. Þarna eru dýr sem þjást. Eins ömurlegt og það hljómar. Lítið lamb ný fætt. Blautt. 2. gráðu loft hiti. Þrjátíu hrafnar sveimandi yfir umkomulausu dýrunum. Sigríður Inga Sigurjónsdóttir, dýralæknir.“

Mannlíf ræddi við Sigríði Ingu og spurði hana nánar út í færsluna. Sigríður stendur við færsluna og segir: „Það er búið að vera að bera úti. Í gær var eitt lítið lamb þarna, nýfætt og ennþá blautt og það voru um fimm gráður en útaf vindkælingunni var um tveggja gráður hiti. Og svo var annað lamb þarna sem hafði orðið viðskila við móður sína og það þarf auðvitað að finna út úr því en það var enginn að gera það. Og þetta lamb bara jarmaði þarna og á þriðja tug hrafna vafrandi þarna yfir. Það var eitt lokað af í girðingu og enginn að hugsa um þetta lamb. Mér finnst þetta mjög sorglegt.“

Umkomulaust lamb.
Ljósmynd: Steinunn Árnadóttir

Þá nefndi Sigríður annað dæmi: „Ég tók sérstaklega eftir einu. Það var kind þarna sem var með tvö lömb, sem litu vel út en hún var bara á fullu að bíta gras því það er svo lítið gras komið og hún hafði varla undan að éta því það er svo lítið sem hún fær í einu. En ég get svo sem ekkert vitað hvernig holdarfarið á henni var en þetta eru mjög óvenjulegar aðstæður.“

Mannlíf spurði Sigríði nánar út í orð yfirdýralæknisins sem sagði ástandið ýkt af fólki. „Ég er ekki sammála því að það sé allt í lagi. Ég er ekki sammála því, væntanlega. Og ef þeir eru með eitthvað í ferli þá geta þeir bara verið með það en ég get ekki séð að einhver sé að fylgjast með þessu. Hvernig geturðu fylgst með ám úti um allar trissur í burði? Allir mínir bændur eru með kindurnar í húsi og þegar þær eru búnar að bera og það er komið gott veður, þá fara þær út og allt í fínu lagi.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -