Laugardagur 27. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Sigríður sár yfir örlögum móður sinnar: „Kerfið gerði allt til þess að svipta hana stolti og reisn“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sigríður Björk Jónsdóttir skrifaði átakalega færslu á Facebook-síðu sinni í dag. Þar fer hún yfir úrræðaleysi sem móðir hennar, Ólína Elísabet Jónsdóttir mætti hvarvetna í kerfinu á Íslandi, bæði í húsnæðiskerfinu og heilbrigðis. Gaf hún Mannlíf góðfúslegt leyfi til að birta færsluna enda eigi inntakið erindi við alla.

„Mig langar að segja smá sögu. Sögu af konu sem ég þekkti. Sögu sem ég hef fengið skrýtin viðbrögð við því það er eins og fólk sjái ekkert rangt við þessa atburði og meðferð. Og setur alla ábyrgð á konuna og að hún hafi skapað sér þetta sjálf.“ Þannig byrjar færsla Sigríðar. Rekur hún svo raunir móður sinnar á leigumarkaðnum.

„Árið 2008 fluttist hún til Sandgerðis. Eftir að hafa verið á leigumarkaðnum síðan “89. En áður en hún fluttist til Sandgerðis þá hafði hún búið frá árinu 2003 í Hveragerði, Ölfusborgum, Eyrarbakka, Hveragerði og tveir flutningar í Þorlákshöfn. Í Sandgerði fékk hún hrörlegt hús en undi sér vel hún hafði þá alla vegana heimili. Árið 2017 var húsið selt og hún var búin reglulega í nokkur ár talað við bæjarskrifstofunar um að sækja um húsnæði á þeirra vegum því húsið sem hún bjó í hafi verið á sölu svo lengi og ekkert húsnæði að finna í bæjarfélaginu. Niðurstaðan var sú að bæjarskrifstofan benti henni á tjaldsvæðið í Sandgerði en buðu henni ekki tjald. Systir hennar lánaði henni tjaldvagn svo hún gæti þó allavega haldið á sér hita.. Hún lagði vagninum ekki langt frá hreinlætisaðstöðunni því hún átti erfitt með gang í raun erfitt með flestar hreyfingar. S.s. vefjagigt, slitgigt o.fl. Jú hún var drykkfelld að því var ekki af henni skafið en stóð alltaf í skilum og skuldaði engum og gekk vel um það sem henni var treyst fyrir.

Ólína í tjaldvagninum

Þarna bjó hún allt sumarið með köttinn sinn eða í um tvo og ½ mánuð. Á vegum bæjarins kom félagsráðgjafi endrum eins til að athuga með hana .Hún var með spilastokkinn sinn til að spá og leggja kapal einnig tölvu og notaði hana í að spila Solitaire. Bróðir minn fór með þetta í fréttamiðlana en það skilaði engu. Og enn gerði bæjarfélagið ekkert.“

Þurfti móðir Sigríðar sjálf að borga fyrir dvölina á tjaldstæðinu en á köflum lifði hún á núðlum sem ferðamenn skildu eftir.

„Sjálf þurfti hún að borga veru sína á tjaldsvæðinu og stundum var góðæri því að túristarnir skildu oft eftir hálffullar flöskur sumar reyndar fullar af eðalvíni áður en þeir fóru í flug. Hún lifði stundum á núðlum sem skilið var eftir og ég segi það satt að hún drýgði þær stundum með hundasúrum. Í endaðan ágúst kom svo loks félagsráðgjafinn að nú væri komin lausn. Til þeirra hafi komið maður sem vorkenndi þessari konu á tjaldsvæðinu og vildi endilega leigja henni íbúð. Ja ekkert annað í boði og tjaldsvæðinu var verið að loka þannig að hún verður að þiggja þessa íbúð. Íbúðin var á 160.000 engin gólfefni, illa hægt að kynda, raka saggarlygt og skemmdir. Opnanleg fög í ólagi, engin baðherbergisvaskur né spegill og bilað salerni, Auk þess var hún full af húsgögnum eiganda sem var að spara sjálfum sér kostnað við leigu á geymslu. Hún kom ekki öllu sínu fyrir en vildi ekki kvarta af ótta við að missa íbúðina. Þarna bjó hún í ár og heilsu hennar hrakaði. 2018 er komið til hennar og henni tilkynnt að nú sé búið að finna henni húsnæði sem væri alveg nýtt og henni hafi verið úthlutað. Jú nýreist gámahýsið niður við grjótgarðana, tröppur með engu handriði útihurð sem opnast út og stundum þurfti að fara út um eldhúsgluggann ef mikið rok var eða snjókoma. Þarna var rampur smíðaður úr timbri sem var flughált var í rigningu og í frosti. Hún var alsæl. Aðallega út af því að þessi staðsetning minnti hana á æskuslóðir við sjávarnið og fuglalíf. Heilsu hennar hrakaði enn meir og hafði hún samband við bæjarskrifstofur hvort hægt væri að gera aðgengið betra, snúa útihurð, setja handrið á tröppur og stöng innan í sturtuna til að styðja sig við og stilla hitann á sturtunni því ógjörningur að stilla hitann því að vatnið sem kom úr sturtuhaus var 60 gráður og ef rétt hitastig náðist þá mátti ekkert reka sig í blöndunartækin því þau voru ekki stillanleg nema eftir hönd undir vatnsflaumnum. Það tók marga mánuði að fá þetta í gegn, þetta þurfti að fara i ferli hjá áhaldahúsi og þaðan í nefndir og svo í samþykktarferli.“

- Auglýsing -

Árið 2019 greindist móðir Sigríðar með tvö óskurðhæf mein og þurfti hún að kljást við heilbrigðiskerfið í framhaldinu.

„Í maí 2019 greinist hún með tvö óskurðhæf mein og þar lá leiðin í lyfjameðferð á krabbameinsdeild Landspítalans. Henni leið vel þar og vel hugsað um hana og alsæl með félagsskapinn. Henni var tjáð að nú væri komin tími á flutning og það á sjúkrahúsið í Keflavík. En hún sagðist alls ekki vilja fara þangað því þar hafi hún alla tíð fengið litla, lélega eða enga þjónustu. Hálftíma seinna koma sjúkraflutningamenn og færa hana yfir í annað rúm og fékk hún 10 mínútur til að taka saman allt hennar hafurtask. Ekki var gefið tækifæri til þess að ræða við einn né neinn því hún mjög ósátt þennan snögga ráðahag.

Hún fer suðreftir en útskrifar sig daginn eftir gegn læknisráði vegna vanlíðunar á sjúkrahúsinu. Úr þessu þarf hún að sækja áframhaldandi lyfjameðferð á Landspítalanum 1x í viku og koma sér sjálf fram og til baka. Bæði var hún bíllaus og hreyfigeta engin, bundin við hjólastól og strætó útilokaður. Hún bregður á það ráð að hringja á sjúkrabíl til þess að komast fram og til baka en það þýddi 16.000 ferðin fram og til baka. Og sjúkratryggingar taka ekki þátt í þeim kostnaði og endaði það með því að henni var tjáð að hún gæti ekki notað sjúkrabíl sem leigubifreið.

- Auglýsing -
Ólína á tjaldstæðinu

Nú var hún algjörlega upp á aðra komin. hún þurfti að leita til nágranna eða annara sem gátu komið henni á milli og það sem stóð helst í vegi var hennar stolt og uppgjöfin að þurfa að biðja um hjálp og missa reisn. Því varð úr að hún missti úr nokkrar lyfjagjafir. Svo var ákveðið að hætta lyfjameðferð vegna þess að hún mætti svo stopult. Þetta var í ágúst 2019. Henni er boðið heimilishjálp, heimahjúkrun og matur í hádeginu. En hún var engan vegin fær um að bjarga sér sjálf á sterkum lyfjum sötrandi bjór ofan í þau og aðstoða þurfti hana við allar daglegar þarfir. Hvorki heimilishjálp né heimahjúkrun voru með reglulegt eftirlit og henni er ekki sinnt eftir þörfum. Í nóvember er meinið búið að dreifa sér um allan líkamann og við reynum að sækja um hvíldarinnlögn en ekkert gerist í þeim málum engin að aðstoða hana með umsóknarferlið og raun ef litið er til baka þá voru ekki upplýsingar um hvar ætti að sækja um og við hvern við ætti að tala. Hún ákvað að leggjast í kör og var látin febrúar 2020.“

Að lokum segist hún mjög reið og sorgmædd yfir örlögum móður sinnar, því hún hafi ekki átt neitt af þessu skilið.

„Þetta er Ísland í hnotskurn. Ég á erfitt með að ræða þessa hluti og er ekki mikið að tjá mig um þá því þetta er og var mamma mín. Eina sem hún barðist við alla ævi var fá að halda stolti og reisn. En Íslenska kerfið gerði allt til þess að svipta hana því. Og ég veit að fleiri hafa hlotið sömu örlög þar á meðal faðir minn er lést 2007 þá 52ja ára en mamma var 63ja.
Ég er mjög reið, sorgmædd og meir yfir örlögum hennar. Þótt okkar samband hafi ekki verið upp á það besta en það er allt annar kapítuli. Hún átti ekkert af þessu skilið og var löngu búin að gefast upp enda búin að tala um í 20 ár að hún væri búin að fá nóg og hafi átt skemmtilegt líf en væri bara orðin svo þreytt. Hún var “bara” eins og sagt var, ráðskona flakkandi um allar sveitir. Og þurfti að láta bjóða sér ýmislegt svo við þrjú gætum verið undir sama þaki.

Hún fékk aðeins þrjú ár í skóla eða til 12 ára aldurs (landslög brotin) því hún var yngst af 11 systkinum, foreldrarnir aldraðir kotbændur þar sem synirnir fengu skólagöngu en dæturnar áttu að giftast. Hún var víðlesin. Í einangrunni las hún allt sem hún komst yfir og var eini krakkinn eftir í sveitinni því allur hreppurinn var farinn í skóla í öðrum sveitarfélögum. Hún var þekkt fyrir orðasnilli sína og stálmynni og hennar íþrótt var að gera aðra kjaftstopp. Hvorki dómari né prestur hefðu átt roð í hana því betur kunni hún biblíuna en höfundar hennar sjálfir. Merkilegt nokk, því hún kenndi sig við hann svarta sjálfan og galdraseyð.“Ólína fæddist í Stóru Ávík á Ströndum árið 1955 en lést 2020.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -