Fimmtudagur 5. desember, 2024
-0.2 C
Reykjavik

Sólveig Anna segir Hörð segja ósatt

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Sólveig Anna, formaður Eflingar, segir Hörð Ægisson, ritstjóra Markaðarins, segja ósatt í leiðara hans í Fréttablaðinu í dag. Í leiðaranum skrifar Hörður um mál Icelandair og þátttöku lífeyrissjóðanna í endurskipulagningu félagsins.

„Í árásar-leiðara dagsins í Fréttablaðinu segir Hörður Ægisson í mikilli vanstillingu sinni ósatt,“ segir Sólveig Anna og segir eftirfarandi fullyrðingu hans ranga.

„Ákvörðun lífeyrissjóðanna, sem komu síðast að endurreisn Icelandair fyrir hartnær áratug, að leggja félaginu til aukið fjármagn, getur aðeins verið tekin á viðskiptalegum forsendum með arðsemismarkmið að leiðarljósi.“

Segir Sólveig Anna flesta lífeyrissjóði hafa sett sér siðferðileg markmið í fjárfestingum, og vísar í stefnu Gildis, þar segir meðal annars að með ábyrgum fjárfestingum er átt við að litið sé til umhverfismála, félagslegra málefna og stjórnarhátta í fjárfestingum.

„Semsagt að sérstaklega sé gætt að því að ákvarðanir séu ekki aðeins teknar á „viðskiptalegum forsendum með arðsemismarkmið að leiðarljósi“ eins og hinn ídeólógíski öfgamaður og leiðarahöfundur fullyrðir, heldur að gætt sé að því að ekki sé unnin skaði á því sem skiptir mannfólk verulegu máli (flest okkar í það minnsta): Umhverfinu sem við lifum í, samfélagi því sem við byggjum hvert með öðru og því hvernig fyrirtækjum er stjórnað,“ segir Sólveig Anna.

Segir hún að öllum ætti að vera augljóst að ef Gildi ætlar að geta staðið við sín eigin grunngildi hefði sjóðurinn ekki getað tekið þátt í hlutafjárútboði Icelandair, eftir lögbrot forsvarsmanna fyrirtækisins þegar flugfreyjum var sagt upp störfum í miðri vinnudeilu.

- Auglýsing -

„Það getur ekki annað verið en að Hörður þekki þessi siðferðilegu viðmið og gildi lífeyrissjóðanna. Ég tel sennilegt að hann sé með fullyrðingu sinni aðeins að afhjúpa það sem honum raunverulega finnst: Siðferðileg gildi og viðmið í kapítalismanum eru aðeins sett til að friða almenning sem enn trúir því að siðferði sé mögulega einhvers virði. Þegar allt gengur sæmilega í „frjálsu markaðshagkerfi“ er í lagi að spila með og taka undir barnalegt þvaðrið en þegar að því kemur að stjórarnir þurfa að fá aðgang að lífeyri vinnuaflsins á ögurstundu veit Hörður að það fyrsta sem fýkur út um gluggann eru siðferðileg viðmið og „grunngildi,“ segir Sólveig Anna.

Ofstækisfull herferð íslenskrar auðstéttar

Sólveig Anna segir að ljóst sé að nota eigi COVID-19 til að stjórna vinnuaflinu.

- Auglýsing -

„Ofstækisfull herferð íslenskrar auðstéttar og útsendara hennar gegn því fólki sem kjörið hefur verið til að leiða verkalýðsfélög og árásir á þau lög eru ríkja á Íslandi um stéttarfélög og vinnudeilur er með algjörum ólíkindum. Ljóst er að nú skal nota Covid-19 og hið efnahagslega uppnám sem fylgir faraldrinum til að keyra í gegn Thatcher-íska óra um tótal stjórn á vinnuaflinu,“ segir Sólveig Anna og bætir við að menn trúi því að versti óvinurinn sé vinnuaflið:

„Um leið og við horfum á hvernig sjúk hugmyndafræði nýfrjálshyggjunnar liggur eins og ógeðslega mara á Bandaríkjunum og Bretlandi, „flaggskipum kapítalismans,“ og leggur þar heilsu og hagsæld í rúst er engan bilbug á talsmönnum hinnar eitruðu hugmyndafræði á Íslandi að finna. Hér ræður veruleikafirringin ríkjum og menn trúa því að þeirra versti óvinur sé vinnuaflið sem skapar auðinn sem gerir þeim og félögum þeirra kleyft að lifa eins og blóm í eggi. Enn sannast hið fornkveðna: Kúgarinn hatar þá kúguðu meira en þeir hann.“

Grunngildin

Sólveig Anna nefnir að grunngildin séu ekki þau sömu hjá vinnuaflinu og auðmagnseigendum, hjá þeim fyrri skipti þau siðferðilegu máli, meðan gildi kapítalismans ráði öllu hjá þeim seinni.

„Þegar kreppan kemur og bankar á glugga auðmagns-eigendanna eru aðeins ein grunngildi sem skipta máli og það eru hin ísköldu gildi kapítalismans. Í veröld Harðar er þetta eins augljóst og hugsast getur og því á hann erfitt með að skilja að fyrir aðra, t.d. vinnandi fólk, skipta önnur gildi meira máli. Þau sem stundum eru köllum siðferðileg og jafnvel grunngildi: Að öruggt sé að ekki sé aðeins litið til „viðskiptalegra forsenda með arðsemismarkmið að leiðarljósi“. Vegna þess að veröld þar sem þau sjónarmið ráða ein för er algjörlega óbærileg fyrir mannfólk. Ég veit að við erum í það minnsta ansi mörg sammála um það.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -