2019 | Birtingur útgáfufélag ehf | k.t. 620867-0129 | VSK.nr 11788 | Síðumúla 28 | Allur réttur áskilinn. Notkun á efni miðilsins er óheimil án samþykkis.

Tobba Marinós er nýr ritstjóri DV

Þorbjörg Marinósdóttir hefur verið ráðin nýr ritstjóri DV. Þorbjörg er fjölmiðlafræðingur að mennt og með mastersgráðu í verkefnastjórnun. Hún hefur einnig skrifað fjölda bóka, stýrt sjónvarpsþáttum, starfað í útvarpi og á fjölmiðlum svo sem Séð og Heyrt, SkjáEinum þar sem hún sat í framkvæmdastjórn og Morgunblaðinu.

„Ég hlakka til að takast á við að ritstýra DV og dv.is. Netmiðillinn ásamt undirmiðlunum er einn sá fjölsóttasti hér á landi og nú tekur við að laga þar til í efnisvali og efnistökum. Við viljum að hann sé léttur og skemmtilegur miðill sem segi harðar féttir í bland en sé umfram allt með vönduð efnistök. DV hefur undanfarið verið gefið út í pappír á föstudögum og því verður haldið áfram. Þar eru mikil tækifæri, að gefa út fjölbreytt helgarblað með fréttum í bland við vandað afþreyingarefni,“ segir Tobba í tilkynningu frá Torg, eiganda DV og dv.is.

Hún segir að ritstjórnarstefna DV verði nú löguð að ritstjórnarstefnu Torgs, sem felur óhjákvæmilega í sér nokkrar breytingar. „Þegar við höfum hrundið breytingunum í framkvæmd er vonin sú að fólk muni sjá breytt blað og breyttan vef með ferskum áherslum. Virðing fyrir viðmælendum er mikilvæg og við munum leggja áherslu á það,“ segir hún.

Líkt og Mannlíf greindi frá í gær var fjölda starfsmanna DV sagt upp í gær. Þeir sem boðið var að halda áfram störfum hafa nú flutt sig niður á Hafnartorg þar sem Fréttablaðið, Hringbraut og nú DV eru til húsa.

AUGLÝSING


Sjá einnig: Uppsagnir hjá DV – Nýr ritstjóri kynntur

Hlé verður nú gert á útgáfu DV í pappírsformi meðan unnið er að breytingum útlits og efnistaka og stefnt að útgáfu nýs og öflugra DV á allra næstunni. Ekkert hlé verður á starfsemi dv.is og undirvefja þess.

„Við erum afskaplega lukkuleg með að fá Þorbjörgu til liðs okkur hjá við Torgi. Hún er með víðtæka reynslu úr heimi fjölmiðla og hefur verið kraftmikill stjórnandi í fyrri störfum. Þá er hún með skýra sýn varðandi hvernig fjölmiðil Torg hefur hug á að gefa út undir merkjum DV. Við bjóðum hana hjartanlega velkomna til starfa,“ segir Jóhanna Helga Viðarsdóttir, forstjóri Torgs.

Lestu meira

Annað áhugavert efni

Nýjast á Mannlíf.is

Nýjast á Gestgjafanum