Föstudagur 26. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Tolli Morthens og Qing: „Vertu ljós og það lýsir“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Góður ilmur af ilmolíum og tei tekur á móti blaðakonu Mannlífs í húsi Heilsudrekans í Skeifunni þar sem við höfðum mælt okkur mót. Róandi kínversk tónlist ómar og við blasir listagalleríið, fullt af kínversku postulíni.

Gestgjafar eru Tolli Morthens, einn af nemendum Drekans, og Dong Qing Guan, oftast kölluð Qing, eigandi Heilsudrekans. Qing er yfirveguð í fasi þar sem hún leiðir blaðakonu í gegnum galleríið og inn í salinn, þar sem æfingarnar fara fram. Qing útbjó undursamlegt te, sem borið var fram í litlum postulínsbolla. Við setjumst á púða við lágt langborð í salnum, hvert við sinn enda borðsins. Teið var án efa eitt það bragðbesta sem blaðakona hefur smakkað.

Upplifunin var eins og að stíga örstutt inn í annan menningarheim þar sem öll skilningarvit voru virkjuð.

Heilsulindin er í hornhúsi í Skeifunni, staðsett innst inn í götu af raðhúsum. Það var mikil tilhlökkun að hitta Qing, eiganda lindarinnar og fá að kynnast töfrum Drekans.

Heilsudrekinn hefur marga fastagesti og einn af þeim er Tolli Morthens sem hefur stundað æfingar hjá Heilsudrekanum til fjölda ára. Hann hitti okkur Qing í heilsulindinni þar sem við fórum yfir heimspekina, kínverskar lækningahefðir og austurlensk æfingakerfi.

- Auglýsing -

Best geymda leyndarmál Reykjavíkur

Tolli Morthens myndlistarmaður.

Tolli byrjar á því að útskýra að Heilsudrekinn sé: „eitt best geymda leyndarmál Reykjavíkur.“ Það er augljóst hvað hann er búinn að vinna mikið í sér og kafa djúpt ofan í þessi fræði. Það er nánast hægt að þreifa á orkunni sem myndast hefur þegar samræður hefjast.

„Vertu ljós og það lýsir. Ég hef aldrei verið með neinn áróður gegn mínu fólki, en svona smá saman pikka þau upp þessi fræði. Vertu fyrirmynd,“ segir hann.

„Það er svo gott að eldast með þessari aðferð en ásamt andlega þættinum, þá er verið að taka á sömu orkukerfunum. Þetta eru allt viðráðanlegar æfingar á öllum stigum, meira að segja þegar maður er orðinn 110 ára.

- Auglýsing -

Svo hjálpar það mikið að allar æfingarnar eru teknar frá grunni,“ segir Tolli.

Við æfum stress, við æfum kvíða og við æfum neikvæðar tilfinningar

„Það er eitt sem við gleymum og það er að við æfum stress, við æfum kvíða og við æfum neikvæðar tilfinningar ómeðvitað á hverjum degi. Vegna þess að hugurinn er alltaf að eltast við athyglina, þá er athyglin mikið meira á erfiðum tilfinningum, sem er eðli heilans.

Heilinn er fyrst og fremst með það hlutverk að hjálpa okkur frá sársauka og hættu, sem þýðir að við erum alltaf að næra það – við erum alltaf með erfiðar hugsanir. Og þar af leiðandi erum við alltaf upptekin við að forðast þessar hugsanir. Qigong og tai chi vinna með allar orkustöðvarnar og megin núvitundaræfingar eins og öndun, hugann, líkamsvitundina og rýmið.

Þegar þú þjálfar þetta þá kemstu út úr sjálfstýringunni. Hvernig tökumst við á við það að vera með heila eins og við erum með. Kínverjar koma með þessa heimspeki úr daoisma.  Þetta flæðir þaðan og þróast hér og þar og er svo komið hingað til Íslands. Þetta er ekki einhver dulspeki. Það þarf að læra þetta og það þarf að iðka þetta. Það flotta við Heilsudrekann er að hér get ég iðkað þessar æfingar í sérstakri miðstöð sem er alltaf til staðar og með þennan háa gæðastuðul.

Ég hugsa svo upphátt: af hverju notum við ekki meira þessa heimspeki hérna heima og inn í fyrirtæki? Væri hægt að nota þessar aðferðir í byrjun í dags? Það eru til mörg þúsund rannsóknir sem sýna hversu vel qigong og núvitundaræfingar vinna með líkamann í heild sinni,“ segir Tolli.

Qing talar um að hún leggi áherslu á það við nemendur sína að nota þessa tækni út í lífið og svarar Tolli því þannig, sem nemandi í þessum fræðum.

„Af því að mesti krafturinn kemur úr ástinni, ef maður ætlar að flæða verður maður að vera tengdur inn í þessa orku. Því þar er mesta orkan. Þegar þú nærð orku upp úr engu þá ertu algjört „power“. Maður er alltaf að lenda í árekstrum, en ef maður hefur þetta lögmál og fer að læra þetta þá hættir lífið að vera svona erfitt og dramatískt.“

Mörg þúsund ára gömul vísindi

Heimspeki Heilsudrekans er að maðurinn sé samofinn náttúrunni. Hugmyndin er unnin út frá aldagamalli kínverskri hefð og er Heilsulindin sú eina á Norðurlöndunum sem sérhæfir sig í þessari heimspeki.

Kínversk læknavísindi eru mörg þúsund ára gömul, þar sem heimurinn, maðurinn og jörðin eru sem eitt og sveiflast líkamar okkar eins og árstíðir. Qing byggir æfingaplanið út frá árstíðunum og leggur mikla áherslu á andlega heilsu. Hún segist vilja skoða heildarmyndina og þá skiptir mataræðið líka mjög miklu máli.

„Unga kynslóðin er meðvitaðri, en þegar ég var að opna Heilsudrekann var ekki mikið um þessar pælingar. Ungt fólk er að skoða alla þætti og vill sameina andlegu þættina meira heilsurútínu sinni,“ segir Qing.

Qing hefur unnið að þessum fræðum í 20 ár og hefur séð hvað gigtarvandamál eru algeng hér á landi. Hún telur að það geti meðal annars stafað af veðurfarinu sem við búum við, en líka út af mataræðinu. Þegar hún kom til landsins fyrir 30 árum var ekki mikið úrval af grænmeti og ávöxtum, en það hefur mikið breyst – henni og okkur sem búum á Íslandi, til mikillar ánægju.

Kvíði – þunglyndi – gigt – þyngdarstjórnun

Qing kom til Íslands frá Kína fyrir 30 árum eða árið 1991, og hóf strax undirbúning Heilsudrekans. Drekinn var í smíðum í átta ár og var svo loks opnaður 1999. Qing talaði um að hún hefði viljað virða fyrir sér íslenska lifnaðarhætti og hvernig Íslendingar væru til heilsu, á meðan hún þróaði heilsulindina. Hún tók sér tíma til að kanna landslagið en hún vildi sjá hvort að það væri svigrúm og áhugi á Íslandi fyrir fornan kínverskan heilsulífsstíl og hvernig hún gæti mótað hann að íslenskum hætti. Átta árum síðar var Heilsudrekinn opnaður.

Til Heilsudrekans kemur fólk aðallega með vandamál sem tengjast kvíða, þunglyndi, gigt eða vegna þyngdarstjórnunar. En líka til að viðhalda hreysti.

Tolli segist fljótlega hafa kynnt sér heilsulindina hjá Qing eftir að hann frétti af henni.

„Maður finnur að þetta eru allt hugleiðsluhreyfingar. Með bardagalistinni kynnist maður möguleikum líkamans og sér hversu stutt er á milli þess að vera harður og fara út í mýktina.“

Tolli nýtir sér þessa tækni í listmálun sinni, en hann segist vera svolítið „oriental“ í sínum stíl. Qing segist einmitt taka eftir feng shui í listinni hans og segir hann það akkúrat vera málið.

„Ég æfi TAI CHI allavega þrisvar í viku og kynntist Heilsudrekanum í kringum 2000. Fyrir það hafði ég stundað karate og taikwondo. Ég var búinn að fylgjast með þessu og langaði að læra kung fu, en endaði á því að fara í tai chi og qigong.“

Qing tekur undir með Tolla og telur best að meta hvern einstakling fyrir sig og sjá hvaða meðferð hentar hverjum og einum. Við séum öll ólík en þess vegna henti ólíkar aðferðir hverjum og einum. Hún segir að Drekinn: „sé eins og skip á sjónum, stundum þarf ég að takast á við mikinn öldugang en á öðrum tímum er lygnara.“

Í Heilsudrekanum er hægt að fá heilsumeðferðir. Hún kannar hjá hverjum og einum hverjir séu helstu streitupunktarnir og sér hvar spennan hefur myndað stíflu svo hægt sé að vinna úr því og losa um stífluna.

„Sumir vilja djöflast í ræktinni vegna eymsla hér og þar í líkamanum. En ef þessi hegðun er skoðuð út frá kínverskri heimspeki, þá er eins og fólk sé í ræktinni án þess að hafa höfuðið með. Margt af því fólki sem kemur til mín er með eymsli eða óþægindi í líkamanum sem kemur út frá andlegu meini, þess vegna er mikilvægast að byrja þar.“

Alls konar fólk kemur til hennar, allt frá 4 ára til 90 ára, bæði Íslendingar og fólk frá öðrum löndum. Hjá henni eru fastakúnnar til 20 ára og umhverfið alþjóðlegt. Í byrjun komu aðallega Íslendingar sem höfðu búið erlendis og höfðu kynnst þessari tækni þar.

Qing leggur mikla áherslu á að nemendur hennar nýti tæknina í sínu daglega lífi. Noti aðferðirnar úr tai chi og skynji vindinn og rigninguna, en hreyfingum tai chi má líkja við vindinn, segir hún.

Hvað stendur Heilsudrekinn fyrir?

Qing segist enn þá vera að þróa heilsuaðferðirnar út frá dao-heimspekinni, sem er gömul kínversk heimspeki. Leiðarljós Heilsudrekans er að aðstoða fólk að ná betri heilsu og þjálfa hugann og líkamann með mildi og samkennd. Aðalmálið er að fólk njóti sín og finni fyrir hamingju og gleði í æfingunum.

Qing setur saman áætlun og meðferðir sem eru einstaklingsmiðaðar með það markmið að öðlast betri heilsu.

Hjá heilsulindinni eru hópar að æfa kung fu sem hafa keppt erlendis á alþjóðlegum mótum og segist Qing vera óendanlega þakklát fyrir góðan árangur hópsins. Þau hafa margoft hlotið verðlaun fyrir sína frammistöðu og jafnvel unnið gullverðlaun. Það sem styrkir enn betur heilsulindina er tengingin við alþjóðlega skóla í Kína þar sem þau fá allar nýjustu upplýsingarnar um heilsu og hreyfingu.

Kostir hins smáa, veika og mjúka

Heimspekin sem Qing notast við í heilsulindinni byggir á daoisma. Í daoisma er það þannig að í stað þess að hampa hinu stóra, sterka, harða og karlmannlega (yang) eru kostir hins smáa, veika, mjúka og kvenlega (yin) dregnir fram og hampað. Að maðurinn sé í flæði með öllu.

Heilsudrekinn hefur verið í samstarfi við Qigong og Wu Shu, alþjóðleg sambönd og segist uppfæra sína heilsulind í takt við nýjustu rannsóknir. Frá Drekanum koma líka keppendur sem hafa náð mjög góðum árangri í keppnum í kung fu og qigong á erlendum vettvangi, en þær byggjast á hefðbundnum kínverskum bardagaíþróttum sem eiga sér aldagamla sögu.

Í Drekanum er kennt kung fu fyrir krakka, en það er talið hjálpa þeim sem eiga erfitt með að einbeita sér.  Með kung fu er unnið að því að byggja krakkana upp andlega jafnt sem líkamlega. Æfingarnar byggjast að miklu leyti á leikrænni tjáningu, þar sem krakkarnir bregða sér í hlutverk ýmissa dýra, til dæmis apa, fugla og tígrisdýra. Krökkunum er skipt niður eftir aldri, en yngstu krakkarnir eru fjögurra ára.

Heilsudrekinn er í samstarfi við kínverskan íþróttaháskóla og þaðan koma kennararnir sem kenna í Drekanum.

Ferðaðist ein til Íslands

Qing fæddist í Norður-Kína, en fluttist síðar meir til Peking til að fara í háskóla. Hún stundaði nám við China Academy of Chinese Medical Sciences og Capital University of Physical Education And Sports og að loknu námi langaði hana að setja upp sína eigin heilslulind. Á þessum tíma var ekki eins mikið frelsi í Kína og er í dag og ákvað hún því að leita á önnur mið og varð Ísland fyrir valinu. Að vera kona og vilja vera kennari í Kína á þessum tíma var ekki auðvelt. Hún vildi eitthvað allt öðruvísi, kynnast annarri menningu og varð það til þess að hún ferðaðist ein til Íslands og kom sér fyrir.

Nota tæknina í daglegu lífi

Qing leggur mikið upp úr því að spjalla við nemendur sína í byrjun hvers tíma og sjá hvar hópurinn er staddur andlega og finna hver orkan sé, út frá því sem hún vill leggja áherslu á.

Það sem hún leggur áherslu á er að nota tai chi ekki bara inni í tímanum heldur nota tæknina úti í daglegu lífi og anda, slaka á, koma sér í ró og taka sér tíma, því það koma alltaf lausnir. Takast á við lífið í friði og ró, án þess að stjórna.

Í dag finnst Qing gott að geta notað það sem henni finnst best við kínverska menningu og það sem henni finnst best við íslenska menningu og blanda því saman.

Hún endar samtalið á gömlu kínversku orðatiltæki: „You will never cease to learn as long as you live.“

Við mælum með að skoðuð sé síða Heilsudrekans og samband haft ef einhverjar spurningar vakna.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -