Laugardagur 20. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Tómas hjartalæknir komst á toppinn: „Í gær létust tveir á fjallinu“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Fyrir lækni með áhuga á hæðarveiki var þetta eins og tilraunastofa á áhrifum þunns lofts á mannslíkamann- því miður,“ skrifar Tómas Guðbjartsson, hjartalæknir og göngugarpur, sem náði sjö kílómetra háum tindi fjallsins Aconcagua í Argentínu á föstudag. Hann greinir frá þessu á Facebook síðu sinni. Gangan var ekki auðveld, vegna mikillar snjókomu voru aðstæður óvenju erfiðar. Með Tómasi í för voru níu amerískir fjallgöngumenn, í farabroddi voru þeir Ed Viesturs og Garret Madison sem báðir hafa toppað fjallið Everest tólf sinnum. Tveir úr hópnum þurftu að verða eftir í þriðju búðum, annar þeirra fékk niðurgang og hinn háfjallalungnabjúg en Tómas greindi hann sjálfur. Læknirinn glímdi sjálfur við heiftuga magakveisu í grunnbúðum fjallsins en var að öðru leiti heilll heilsu alla gönguna. Úr gönguhópi sem var degi á eftir hópi Tómasar, létust tveir menn. Færslu Tómasar má sjá í heild sinni hér fyrir neðan.

 

Í fyrradag rættist gamall draumur þegar ég náði 7 km háum tindi Aconcagua í Argentínu, hæsta fjalli utan Himalajafjalla. Mér bauðst að slást í för 9 ameríkra fjallgöngumanna sem Íslandsvinurinn Ed Viesturs leiddi ásamt Garret Madison. Báðir hafa náð tindi Everest 12 sinnum, ásamt K2 og öllum helstu fjöllum heims, Ed iðulega án viðbótarsúrefnis. Þetta var heljarinnar puð, enda aðstæður óvenju erfiðar vegna mikilla snjóa. Því var gengið úr búðum 1 í búðir 2 & 3 á mannbroddum með ísöxi og svo áfram upp á snævi þaktan tindinn – og notast við línu í bröttustu brekkunum. Mestur tími fór í hæðaraðlögun og bera byrgðir upp og niður fjallið. Veður var kalt en frábært útsýni og illvígir sviptivindar, sem þekktir eru á Aconcagua, létu okkur að mestu í friði. Fyrir utan Ed og Garret þá var með okkur reynsluboltinn Cutsio, heimamaður sem var í sinni 54. ferð á tindinn) og við síðan 8 í hópnum, allt þaulvant fjallafólk sem í mörgum tilvikum er reyna sig við Seven Summits og ætlar sér á Everest á næstu misserum. Tveir helltust úr lestinni í búðum 3, sem heita Camp Cholera, og það með réttu. Annar þeirra fékk einmitt heiftugan niðurgang þar, og hinn háfjallalungnabjúg sem ég gat greint á staðnumn – því við deildum tjaldi! Af hinum 6 þurftu þrír steraskot í vöðva á leiðinni niður – vegna háfjallaveiki (AMS), og þá til að geta klárað 13 klst. toppadaginn. Sjálfur var ég í miklu stuði, enda búinn að taka út heiftarlega magakveisu í grunnbúðum. Ekki spillti fyrir að sl. vikur hef getað æft mig heima í fimbulkulda og brodda kann ég vel við eftir áratuga reynslu af íslenskum jöklum. Tölfræðin er erfið á Aconcagua og tæplega 30% ná tindinum. Nú er ég kominn heilu og höldnu niður til vínborgarinnar Mendoza í 37 stiga hita, degi á undan áætlun vegna veðurglugga sem okkur bauðst- sæll og glaður – en um leið hugsi yfir þeim hættum sem svona há fjöll bjóða upp á. Í gær létust 2 á fjallinu, en þeir voru úr hópi sem var degi á eftir okkur, og öðrum tveimur varð fótaskortur neðan hátindsins í sl. viku og er vart hugað líf á gjörgæslu. Aconcagua er því heljarinnar áskorun og maður lærir að þekkja sjálfan sig, undirbúa sig vel og taka réttar ákvarðanir við erfiðustu aðstæður. Fyrir lækni með áhuga á hæðarveiki var þetta síðan eins og tilraunastofa á áhrifum þunns lofts á mannslíkamann- því miður. Samt er gefandi að geta sem læknir komið svo mörgum til hjálpar á fjallinu.. Á næstu dögum mun ég birta fleiri myndir af leiðangrinum, en það er fyrst núna sem ég er kominn í samband við alheiminn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -