Laugardagur 18. maí, 2024
3.8 C
Reykjavik

Brottreknir starfsmenn í máli við Þjóðkirkjuna – Agnes er sökuð um óráðssíu og einelti

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Aðalmeðferð í máli Magnhildar Sigurbjörnsdóttur gegn Þjóðkirkjunni fer fram þann 27. október næstkomandi í Héraðsdómi Reykjavíkur.

Magnhildur er fyrrverandi starfsmaður Þjóðkirkjunnar, sem vann náið með Agnesi M. Sigurðardóttur biskupi. Hún var í kirkjuráði og starfaði á Biskupsstofu sem verkefnisstjóri fjármáladeildar. Hún var einnig framkvæmdastjóri leikmannastefnunnar.

Magnhildur er ekki fyrsti fyrrverandi starfsmaður Þjóðkirkjunnar sem leggur til atlögu við stofnunina.

Áður hafði séra Skírnir Garðarsson höfðað mál, þó ekki gegn Þjóðkirkjunni heldur Agnesi biskupi. Málið höfðaði hann vegna meintra brota í hans garð, en Skírni var vikið úr starfi í apríl árið 2020 fyrir brot á trúnaðarskyldu presta og starfs- og siðareglum þeirra.

Skírnir taldi að brottrekstur hans hefði verið ólögmætur.

Mál hans á sér þann aðdraganda að í lok árs 2015 var honum vikið frá störfum í Lágafellssókn, þar sem hann var sóknarprestur, vegna máls sem rekja má til samskipta hans og konu sem seinna var sökuð um skjalafals í bakvarðarsveit á hjúkrunarheimilinu Bergi í Bolungarvík.

- Auglýsing -

Konan hafði þegið fjárhagsaðstoð úr líknarsjóði Lágafellskirkju árið 2013 þegar Skírnir var prestur í sókninni. Hann grunaði að konan hefði falsað pappíra í umsókn sinni og ræddi við félagsmálastjóra Mosfellsbæjar um að sjá gögn sem sneru að henni.

Konan kærði Skírni ásamt starfsmanni Mosfellsbæjar fyrir brot á persónuverndarlögum, eftir að Skírnir lét kanna hvort konan hefði sagt satt og rétt frá.

Skírnir var í kjölfar þessa gerður að héraðspresti á Suðurlandi.

- Auglýsing -

Eftir að mál „bakvarðarins“ komst í hámæli í upphafi Covid-faraldursins, sagði Skírnir frá samskiptum sínum við konuna og greindi frá málinu sem olli brottrekstri hans úr Lágafellssókn í viðtali við Vísi.

Skírnir hafði þá séð konuna í sjónvarpinu og sakaði hana í viðtalinu um að hafa beitt svikum til þess að fá fjárhagsaðstoð úr líknarsjóði Lágafellskirkju árið 2013. Hann sagðist hafa séð hana í bakvarðarsveitinni eftir að sýnt var frá þyrlu Landhelgisgæslunnar flytja bakverði til Bolungarvíkur.

Skírnir hringdi í kjölfarið í forstjóra Heilbrigðisstofnunar Vestfjarða og varaði við konunni.

Eftir það var séra Skírni sagt upp hjá Þjóðkirkjunni.

Biskupsstofa gaf frá sér yfirlýsingu í lok apríl 2020 og vísaði því algjörlega á bug að brotið hefði verið á Skírni með uppsögn hans.

Skírnir hefur síðar sakað Agnesi biskup um einelti. Í samtali við Mannlíf í vor vildi Skírnir ekki tjá sig efnislega um málið, en sagðist þó undrast að biskup skyldi ekki víkja úr starfi meðan á málarekstrinum stæði. „Það hefði verið heiðarlegast,“ sagði hann í mars.

Samkvæmt heimildum Mannlífs er nokkur titringur innan Þjóðkirkjunnar vegna beggja málaferlanna.

Magnhildur Sigurbjörndóttir er sögð hafa verið vel liðinn starfsmaður innan Þjóðkirkjunnar og uppsögn hennar kom mörgum í opna skjöldu. Því er nú meðal annars velt upp hvort mál hennar snúi að einelti á vinnustaðnum og erfiðu starfsumhverfi, auk þess að snerta sviplega uppsögn hennar.

Innan Þjóðkirkjunnar standa spjót á Agnesi vegna meintrar óráðsíu í fjármálum og eyðslu hennar. Ljóst er að kostnaðurinn við málaferlin ein og sér verður umtalsverður fyrir stofnunina. Eins og áður sagði starfaði Magnhildur í fjármáladeild Biskupsstofu.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -