Laugardagur 27. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Umboðsmaður barna segir að börn eigi að njóti réttar síns til menntunar: „Foreldrar beri ábyrgð“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Salvör Nordal, umboðsmaður barna, segir það grundvallaratriði að njóti réttar síns til menntunar en mikil umræða hefur skapast undanfarna mánuði vegna leyfa barna frá skóla. Algengasta ástæða leyfanna eru ferðalög barna til útlanda með foreldrum eða forráðamönnum sínum og eru dæmi um að börn hafi farið erlendis í fimm vikur í senn á skólatíma. Þá kemur það reglulega fyrir að börnin sinni ekki námi sínu, sem kennarar setja þeim fyrir, meðan þau eru í leyfi.

Telja sumir kennarar og skólastjórnendur að vinna þurfi markvisst að því koma foreldrum í skilning um að löng óþarfa fjarvera frá skóla geti haft mjög neikvæð áhrif á nám og andlega heilsu barna en engar reglur eru í lögum um grunnskóla um leyfi barna annað en að það sé mat skólastjóra hvers skóla að veita slíkt. Því getur verið mikill munur á leyfisveitingum milli skóla.

Stjórnendur og kennarar vilja aukna virðingu fyrir námi

Magnús Þór Jónsson, formaður Kennarasambands Íslands, sagði í samtali við Mannlíf að best væri að sem minnst rof væri á námi barna og þá sagði rektor Menntaskólans við Hamrahlíð að auka þurfi virðingu foreldra og nemanda fyrir námi.

„Hætt er við því að nemandi sem er fjarverandi vegna tíðra ferðalaga tileinki sér þá skoðun að fjarvera úr skóla sé í lagi,“ skrifaði Steinn Jóhannsson, rektor MH, í pistli um málið.

Í könnun sem Mannlíf gerði um málið vilja 75% lesenda Mannlífs banna margra vikna leyfi barna á skólatíma.

- Auglýsing -

Foreldrar beri ábyrgð á því þegar börn missi úr námi

„Það er grundvallaratriði að börn njóti réttar síns til menntunar,“ sagði Salvör í samtali við Mannlíf um málið. „Stjórnendur grunnskóla og foreldrar gegna þar mikilvægu hlutverki. Varðandi frí vegna utanlandsferða á skólatíma er í 15. gr. laga um grunnskóla nr. 91/2008 fjallað um skólaskyldu og kemur þar m.a. fram að skólastjóra sé heimilt að veita tímabundna undanþágu frá skólasókn sækist foreldrar eftir því svo lengi sem gildar ástæður liggi þar að baki. Í greinargerð með lögunum kemur fram að gildar ástæður geti t.d. verið ferðalög fjölskyldu. Þá kemur jafnframt fram í lögunum að foreldrar beri ábyrgð á því að nemandi vinni upp það sem hann kann að missa úr námi meðan á undanþágu stendur. Það er því á ábyrgð skólastjóra að leggja einstaklingsbundið mat á það hvort forsvaranlegt sé að veita umrædda undanþágu með hliðsjón af því sem er barninu fyrir bestu og síðan foreldra að sinna námi barnsins sé slík undanþága veitt. Ef ekki næst samkomulag milli foreldra og skólastjóra um slíka undanþágu geta foreldrar kært synjun skólastjóra til mennta- og barnamálaráðherra samkvæmt fyrirmælum 47. gr. laga um grunnskóla. Að öðru leiti vísar umboðsmaður barna til mennta- og barnamálaráðherra sem fer með almenna yfirstjórn og eftirlit með starfsemi grunnskóla,“ en Ásmundur Einar Daðason, mennta- og barnamálaráðherra, hefur ekki svarað ítrekuðum fyrirspurnum Mannlífs um málið.

Salvör segir þó að frí vegna utanlandsferða hafi ekki verið í forgangi hjá embætti umboðsmanns barna hingað til.

- Auglýsing -

„Frí barna í skólum hefur ekki verið á forgangslista hjá umboðsmanni barna. Embættið hefur frekar beint sjónum sínum að skólaforðun af öðrum ástæðum og lagt áherslu á að litið sé á frávik frá skólasókn barna með heildstæðum hætt. Sérstaklega hefur embættið bent á að setja þurfi fram og hrinda í framkvæmd aðgerðum sem stuðla að því að börn fái stuðning við hæfi, líkt og skólum er skylt að gera samkvæmt grunnskólalögum og reglugerð um nemendur með sérþarfir í grunnskóla nr. 585/2010. Út frá þeim málum sem umboðsmaður barna hefur fengið ábendingar um má leiða að því líkur að ástæða endurtekinna fjarvista hjá mörgum börnum sé sú að þau fái ekki viðunandi stuðning innan skólans. Þá má bæta við að börn sem einhverra hluta vegna ekki fá viðunandi þjónustu eða stuðning í leik- og grunnskóla, eru líklegri til að hverfa frá framhaldsskólanámi en önnur börn. Því er mikilvægt að tryggja samfelldan stuðning og eftirfylgni fyrir sérhvert barn eftir þörfum hvers og eins.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -