Styttan af séra Friðriki Frikrikssyni sem staðið hefur á lóð Knattspyrnufélagsins Vals, hefur verið fjarlægð. Þetta kemur fram í yfirlýsingu frá Herði Gunnarssyni, formanni félagsins.
„Þó séra Friðrik hafi ekki starfað innan félagsins og við höfum engin dæmi þess að brot hafi átt sér stað er tengjast félaginu þá er saga Vals og séra Friðriks samofin og umræðan upp á síðkastið hefur skaðað félagið okkar,“ segir í yfirlýsingunni.
Hörður segir að með ákvörðun aðalstjórnarinnar, sé Valur að senda skýr skilaboð út í samfélagið um að hegðun sem þessi sé fordæmd með öllu og að Valur vilji ekki tengjast henni á nokkurn hátt.
Í haust samþykkti Reykjavíkurborg að fjarlægja styttu af Friðriki sem stendur við Lækjargötu en safnstjóri Listasafns Reykjavíkur, Ólöf K. Sigurðardóttir, segir að styttan verði fjarlægð einhvern tíma á fyrstu tveimur vikum nýs árs. Verktakarnir sem ætluðu að fjarlægja styttuna í ár, hafa verið of uppteknir við að byggja varnargarða við Grindarvík.