Tvær líkamsárásir áttu sér stað í gærkvöldi. Fyrri árásin átti sér stað í Kópavogi um níu leytið þegar karlmaður réðst á konu. Lögreglan handtók manninn en konan var flutt til aðhlynningar á slysadeild. Stuttu síðar, í Hafnarfirði, réðst karlmaður á nágranna sinn. Árásaraðilinn er einnig grunaður um fíkniefnarækt og var hann handtekinn.
Skömmu fyrir miðnætti gekk karlmaður í annarlegu ástandi út úr verslun í hverfi 108. Meðferðis hafði hann tvö lambalæri án þess að greiða fyrir. Þegar öryggisvörður hafði afskipti af honum, hrækti hann í andlitið á honum. Tók öryggisvörðurinn þá til sinna ráða og hélt manninum þar til lögregla mætti á vettvang.
Maður sparkaði niður hurð á veitingastað í Hlíðahverfi í gærkvöldi. Maðurinn róaði sig niður eftir skemmdarverkið og beið eftir lögreglunni.
Karlmaður fór niður á lögreglustöðina við Hverfisgötu skömmu eftir miðnætti og tilkynnti rán. Sagðist hann hafa mætt mönnum í miðbænum sem kröfðu hann um jakkann sinn en í honum voru bæði lyklar og farsími.