Blaðamaðurinn Jakob Bjarnar Grétarsson tjáir sig um kulnun í starfi á Facebook-síðu sinni.
„Ég hef stundum furðað mig á gríðarlegri aukningu þess sem kallast kulnun í starfi. Svo rammt hefur kveðið að umræðu um þessa til þess að gera nýju uppgötvun að undanförnu að ég hef sjálfur látið mér detta í hug að ég sé að glíma við kulnun. Enda mjög áhrifagjarn.“
Hann bætir því við að „nú voru þrjár konur í sjónvarpinu að kynna niðurstöðu nýrrar könnunar sem leiðir í ljós að afar lítill hluti sem telur sig botnfrosinn er raunverulega með hina svokölluðu kulnun. Þær ræddu þetta fram og til baka, eitt spurningarmerki í framan og svolítið eins og köttur í kringum heitan graut.“
Jakob segir að „þær forðuðust samviskusamlega að nefna leiða og leti sem hugsanlega ástæðu heldur ræddu undrandi að andlegir kvillar óútskýrðir gætu hugsanlega skýrt að svo margir teldu sig ranglega þjakaða af kulnun. Og tæptu ekki svo mikið sem á helstu breytingunni sem er stóraukin þáttaka kvenna á vinnumarkaði.“
Hann nefnir að endingu að „þetta er kannski ekki alveg eins skemmtilegt og eftirsóknarvert að vera launaþræll og látið hefur verið í veðri vaka samhliða þeirri miklu þjóðfélagsbreytingu?
Bara svo það sé sagt þá hef ég gegnt fjölda starfa á mínum ferli og mér hefur oft leiðst í vinnunni, alveg óbærilega. Ég hélt bara að það fylgdi með í kaupunum — sammannleg reynsla launaþrælsins og þetta væri nokkuð sem óþarft væri að hafa orð á sérstaklega. Hvað þá að það atriði þyrfti að kanna sérstaklega og halda um námskeið?“