Miðvikudagur 11. september, 2024
5.8 C
Reykjavik

Jakob valdi tónlistina fram yfir nautgripina: „Horfi nú á landbúnað og andbúnað hlið við hlið“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Stuðmaðurinn orðfimi, Jakob Frímann Magnússon fagnar í dag 69 ára afmæli sínu. Jakob Frímann, sem nú starfar sem þingmaður Flokks fólksins, deilir deginum með konu sinni, Birnu Rún Gísladóttur sem er 49 ára í dag.

Afmælisbarn dagsins þarf vart að kynna en hann er einn af stofnendum Stuðmanna en einnig hefur hann gert garðinn frægan sem Jack Magnet. Þá var hann á tímabili miðborgarstjóri Reykjavíkur en hefur nú söðlað um og er hann nú kominn á þing fyrir Flokk fólksins.

Mannlíf heyrði í Jakobi Frímanni og spurði hann út í afmælisdaginn. Eins og fyrri daginn vafðist Jakobi ekki tunga um tönn heldur lét hann gamminn geysa og gladdi þannig blaðamanninn mikið því fátt er bagalegra en viðmælandi sem ekkert segir.

„Afmælisfagnaðurinn hófst klukkan 8 í morgun við morgunverðarborðið með fjölskyldunni. Dásamlegt stund áður en börnin fóru í skólann. Svo gengum við til okkar starfa, hjónin en við deilum einmitt deginum, ég og konan mín. Við hittumst einmitt á þessum drottins degi árið 2001. Við eigum 21 árs sambandsafmæli í dag og níu ára brúðkaupsafmæli. Við fetuðum saman námsbraut í Háskólanum í Reykjavík 2004 til 2006. Svo eignuðumst við okkar fyrsta barn 2007 og seinna barnið árið 2012. Ári seinna, 2013, gengum við í heillagt hjónaband. Þá fögnuðum við stórafmælum okkar beggja auk þess að ganga í hjónaband. Það var skrifað í skýjin fjórða maí, 2013 á laugardagskvöldi og þarna var komin fjögurra manna vísitölufjölskylda, sem gaf tilefni til þess að fagna í víðusta samhengi. Þannig að þetta er mikill hátíðisdagur í okkar fjölskyldu eins og gefur að skilja. Svo er eldri dóttir okkar, hún Jarún Júlía í sama stjörnumerki og við en hún verður 15 ára 19. maí. Og það eru ótrúlega margir vinir og kunningjar sem deila með okkur þessu stjörnumerki, nautinu. ÉG tengi það ekki saman en hugur minn hneigðist ungur til búskapar og ég tók að kynna mér búskaparhætti, sérstaklega nautgriparækt, á Hvítárbakka, á ættaróðalinu í Borgarfirði. Fór ég síðan að kynna mér búskaparhætti í Danmörku, Þýskalandi og Skotlandi og ákvað að endingu að gerast ekki nautgripabóndi heldur geisladiskabóndi.“

Aðspurður hvort hann sjái nokkuð eftir þeirri ákvörðun kvaðst hann ekki gera það.
„Nei alls ekki, þó að geisladiskaútgáfa teldist seint ábótasamur atvinnuvegur í dag. En ég horfi nú á landbúnað og andbúnað hlið við hlið. Landbúnaðarstörfin einkenndu æsku mína og afmælisdaga en andbúnaðurinn varð þarna ofan á en það er víðtækari búgrein að ýmsu leyti. Þar eru afurðirnar ekki eins áþreifanlegar endilega enda huglægar frekar en hlutlægar. En fyrst og fremst verður þetta afmælisbarn að teljast ákaflega hamingjusamt í lífi og starfi og fagnar þessum degi sem öðrum af heilum hug.“

- Auglýsing -

Blaðamaður Mannlífs spurði Jakob þvínæst hvað sé framundan hjá honum á næstunni.
„Ég var nú með tónleika í Reykholti um helgina, Stuðmenn eru með nokkra tónleika bókaða núna í sumar og Jack Magnet, vinur minn sömuleiðis. Maður þarf að rækta garðinn og treysta samband sitt við tónlistagyðjuna, svo það rofni ekki því hennar föruneyti er afar dýrmætt. Og hefur verið mér ómetanlegt í lífi og starfi. Og nú er ég á leið til Akureyrar að hitta kjósendur mína og styðja við Brynjólf Ingvarsson og aðra frambjóðendur í Flokki fólksins í komandi sveitastjórnarkosningum.“

Mannlíf óskar Jakobi og frú til hamingju með afmælið!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -