Sunnudagur 16. júní, 2024
9.8 C
Reykjavik

Kom aldrei til greina að segja strax frá

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eftir að núverandi Bandaríkjaforseti spurði hvers vegna Christine Blasey Ford hefði ekki kært kynferðisofbeldið sem hún varð fyrir af hendi Brett Kavanaugh á háskólaárunum stigu fjölmargir fram henni til stuðnings undir myllumerkinu #whyididntreport og útskýrðu hvers vegna þau sögðu ekki frá né kærðu ekki. Sigrún Bragadóttir deilir hér sínum ástæðum.

Sigrún Bragadóttir er ein þeirra sem veit hversu erfitt getur verið að segja frá. Hún lenti í kynferðisofbeldi fyrst þegar hún var barn þegar maður sem tengdist henni í gegnum fjölskylduna misnotaði hana. Sigrún varð einnig fyrir kynferðislegu ofbeldi af hendi frænda síns, henni var byrlað ólyfjan í menntaskóla og hún áreitt kynferðislega á skólaballi þegar hún var í 8. bekk. Aldrei fannst henni hún geta sagt frá.

Spurð út í af hverju hún sagði ekki frá ofbeldinu strax segir Sigrún: „Fyrir það fyrsta, vegna þess að ég var bara krakki þegar maður í fjölskyldunni byrjar svokallað „grooming“-ferli. Hann byrjaði að undirbúa hinn fullkomna glæp. Hann hegðaði sé alltaf á ofboðslega óviðeigandi hátt og meðvirknin með þessum manni var mikil í fjölskyldunni. Afsökunin var sú að hann átti svo bágt þegar hann var lítill, að uppvöxtur hans hafi verið erfiður. Með þessum manni lærði ég meðvirkni. En það voru alltaf tvær manneskjur, afi minn og frænka, sem var illa við hann. Og að sjá það hjálpaði mér við að falla ekki í alveg blinda meðvirkni með honum,“ segir Sigrún. Hún lýsir því hvernig manninum hafi tekist að gera hana varnarlausa þannig að henni fannst hún ekki geta tilkynnt um að eitthvað óeðlilegt væri að eiga sér stað.

„Hann hegðaði sé alltaf á ofboðslega óviðeigandi hátt og meðvirknin með þessum manni var mikil í fjölskyldunni.“

Sigrún tekur líka fram að það séu algeng viðbrögð hjá börnum að segja ekki frá kynferðislegu ofbeldi vegna þess að þau vilja hlífa fólki í kringum sig. „Börn eru svo klár, þau vilja oft spara sínum nánustu áföllin. Krakkar sem eru með þessa reynslu þróa með sér ofurnæmni, meðal annars á tilfinningar. Þau læra að lesa í umhverfið sitt og sjá hvernig aðrir bregðast við áföllum og vilja því hlífa fólki. Svo þarf líka að taka til greina að fólk sem beitir ofbeldi, það hótar líka oft.“

Minningarnar koma smátt og smátt upp á yfirborðið

Sigrún var orðin fertug þegar hún viðurkenndi þetta. „Ég viðurkenni fyrir sjálfri mér að það sem kom fyrir mig var ekki eðlilegt. Þessi maður dó þegar ég var tvítug þannig að frá því að ég man eftir mér og þangað til ég var orðin tvítug misnotaði hann mig. Og það ágerðist bara með tímanum,“ útskýrir Sigrún.

Sigrún Bragadóttir, Brynhildur Yrsa og Hrönn Ólöf segja sögur sínar í nýjasta tölublaði Mannlífs.

Spurð út í hvernig það kom til að hún áttaði sig á hvað hafði í raun og veru komið fyrir hana segir Sigrún: „Þetta gerist þannig að ég var á fyrirlestri hjá konu sem heitir Gail Dines. Hún var að útskýra hvernig barnaníðingar vinna og hvernig þeir geta tekið mörg ár í að fullkomna verknaðinn. Þá fékk ég svakalegt „flash back“. Það var eins og ég hefði verið kýld í magann. Ég missti andann og tárin byrjuðu að bara að gusast niður kinnarnar. Ég stóð upp og grét inni á klósetti. Þá pantaði ég mér tíma hjá Stígamótum.“

- Auglýsing -

Sigrún taldi sér í upphafi trú um að kannski væri ekki um alvarlegt mál að ræða. Að kannski hefði þetta ekki verið neitt. En hún áttaði sig fljótt á að hún hefði svo sannarlega orðið fyrir alvarlegu ofbeldi í æsku. Sigrún sagði frá ofbeldinu í janúar árið 2013 í viðtali hjá Stígamótum. Síðan þá hefur hún kafað dýpra og fleiri minningar hafa komið til hennar. „Þegar það gerist er oft talað um að brotaþolinn sé bara að búa eitthvað til, að ímynda sér. En maður getur bara unnið úr ákveðið miklum tilfinningum í einu og þess vegna eru margir sem þurfa að vinna í þessum málum út ævina.“

„Það var eins og ég hefði verið kýld í magann. Ég missti andann og tárin byrjuðu að bara að gusast niður kinnarnar.“

Hún tekur fram að í dag sé hún farin að skilja viðbrögð sín við ofbeldinu út frá líffræðinni, minningunum var ýtt til hliðar. „Heilinn er svo magnaður. Hann tekur við og býr til einhvern annan raunveruleika. Maður gleymir þessu, grefur þetta djúpt niður í undirmeðvitundina og þannig kemst maður af. En svo kemur alltaf að skuldadögum.“

Spurð út í hvernig henni hafi liðið eftir að hafa sagt frá segir Sigrún: „Það var misjafnt. Þetta var mikill léttir en líka mikil sorg. Sorg meðal annars vegna þess að viðbrögð fólks hafa verið alls konar. Sumir hafa sýnt alveg fullkomin viðbrögð og sagt: „Mér þykir ofboðslega leitt að þetta hafi komið fyrir þig“. En svo eru aðrir sem reyna að draga úr hlutunum en það eru bara varnarviðbrögð fólks því það er erfitt að heyra svona lagað.“

- Auglýsing -

Erfitt að sætta sig við að svona geti gerst

Sigrún kveðst skilja upp að vissu marki af hverju fólk dregur frásagnir af kynferðislegu ofbeldi í efa og spyr af hverju brotaþoli hafi þá ekki tilkynnt strax. „Þetta geta verið ósjálfráð viðbrögð frá fólki, bæði fólki sem hefur aldrei lent í kynferðislegu ofbeldi og líka fólki sem hefur sjálft lent í einhverju en er ekki tilbúið til að takast á við það. Þeirra bjargarráð, þótt það sé í raun óhjálplegt bjargarráð, er að trúa ekki vegna þess að þegar fólk viðurkennir að svona geti gerst þá getur heimurinn þeirra hrunið. Hver sem er getur nefnilega lent í kynferðislegu ofbeldi því það snýst um vald en ekki kynlíf. Þannig að þegar fólk viðurkennir fyrir sjálfu sér að svona hlutir geti gerst þá er það ósjálfrátt að viðurkenna að þetta gæti komið fyrir það, þess nánasta fólk og fjölskyldumeðlimi. Þannig að það er kannski auðveldara að afneita þessu í staðinn fyrir að líta á þetta sem ógn sem hver sem er getur lent í,“ útskýrir Sigrún. „Algengt er að brotaþolar fái ekki stuðning frá sínum nánustu sem er mjög alvarlegt. En þetta eru varnarviðbrögð því fólk vill ekki hugsa til þess að heimurinn geti verið svona ógeðslegur.“

Fólk reynir að finna skýringu á ofbeldinu

Sigrún segir vissulega erfitt að sjá fólk í forréttindastöðu dæma þá sem hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi. Hún tekur Donald Trump Bandaríkjaforseta sem dæmi en hann dró frásögn Dr. Christine Blasey Ford í efa, þegar hún greindi frá ofbeldi sem hún varð fyrir af hendi Brett Kavanaugh. Trump efaðist um frásögn Ford og hæddist að henni, meðal annars vegna þess að hún sagði ekki frá á sínum tíma. „Menn eins og Trump, menn sem búa við svo mikil forréttindi í lífinu, munu aldrei trúa öðrum sannleika en sínum eigin.

Og það fólk sem aldrei hefur upplifað þessa tegund af ofbeldi getur aldrei sett sig í þessi spor. Það er algengt að það trúi ekki eða reyni að koma með skýringar á af hverju þetta gerðist. Við þekkjum þetta, fólk spyr hvernig brotaþolinn hafi verið klæddur, hvort að viðkomandi hafi verið að drekka, af hverju brotaþoli hafi ekki kært strax og svo framvegis. Fólk reynir að útskýra ofbeldið og dæma brotaþola fyrir að gera ekki neitt, t.d. flýja undan ofbeldismanninum. Svo þegar fólk fer að dæma mann fyrir að bregðast ekki „rétt“ við þá hellist yfir mann skömm og maður spyr sig af hverju maður gerði ekki neitt. En varðandi það af hverju fólk gerir ekki neitt, af hverju sá sem verður fyrir ofbeldinu bregst ekki „rétt“ við, er í raun og veru mjög einfalt. Það er líffræðileg ástæða fyrir því að fólk frýs hreinlega. Þegar við lendum í hættu eða verðum fyrir áfalli þá bregst líkaminn með því að annaðhvort berjast, flýja eða frjósa sem lýsir sér einnig sem einskonar lömunarástand. Heilinn tekur bara við stjórninni svo að við fáum ekki taugaáfall samstundis, förum ekki yfir um. Sjokkið getur verið svo mikið að við myndum ekki ráða við það,“ segir Sigrún sem mælir með að áhugasamir kynni sér rannsóknir dr. Nina Burrowes. „Hún er sálfræðingur og lærði að teikna teiknimyndir til m.a. að útskýra áhrif áfalla af völdum kynferðisofbeldis í æsku á heilann.“

„Fólk reynir að útskýra ofbeldið og dæma brotaþola fyrir að gera ekki neitt, t.d. flýja undan ofbeldismanninum. Svo þegar fólk fer að dæma mann fyrir að bregðast ekki „rétt“ við þá hellist yfir mann skömm.“

Að lokum minnir Sigrún á að það geta legið margar ástæður að baki þess að brotaþoli er ekki tilbúinn að segja frá kynferðislegu ofbeldi sem hann verður fyrir. Hún tekur skömm og afneitun sem dæmi. „Þegar mér var byrlað ólyfjan þá datt mér ekki í hug að tilkynna það. Mér fannst þetta vera mér að kenna vegna þess að ég hafði drukkið. Skömmin var mikil og áhrifin þau að ég taldi mér trú um að þetta hefði verið mér að kenna.“

Mynd / Hákon Davíð Björnsson

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -