Sunnudagur 5. maí, 2024
8.8 C
Reykjavik

Kristján í Greifunum ævareiður RÚV fyrir sögufölsun: „Var mig bara að dreyma þetta 80’s tímabil“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -
„Þetta er eins og gera heimildarmynd um íslenskt bakkelsi og sleppa því að fjalla um kleinur, flatkökur og ástarpunga,“ segir Kristján Viðar Haraldsson, einn meðlima og stofnandi hljómsveitarinnar Greifanna, um heimildarþátt Ríkisútvarpsins, Popp- og rokksaga Íslands, sem fjallar um íslenska dægurtónlist frá níunda áratugnum þar sem Greifarnir eru ekki taldir með.
Kristján Viðar rekur það í reiðipistli á Facebook að á þessu árabili, 1986-1992, sem var til umfjöllunar í þættinum hafi Greifarnir farið með himinskautum í vinsældum og iðulega borið höfuð og herðar yfir aðrar hljómsveitir eins og vinsældalistar frá þeim tíma sýni glöggt.
„Er ég í einhverju egó trippi eða er þetta bara eðlilegt? Gerðist þetta aldrei? Var mig bara að dreyma þetta 80’s tímabil sem ég tel mig hafa upplifað?“ spyr hann í pistli sínum sem ber yfirskriftina Slaufun í boði RÚV.
Öll lögin okkar af plötunni Blátt blóð fóru á topp 20
„Á þessum árum sem þátturinn um helgina fjallaði um, sérstaklega árin 1986 til ársins 1989 vorum við alls staðar. Án vafa ein allra vinsælasta hljómsveit landsins. Það er mjög auðvelt að sjá ef þeir sem gerðu þættinu hefðu haft metnað til þess að fara í einhverja heimildavinnu. Við spiluðum stanslaust frá því við byrjuðum um mitt ár 1986 til 1988-89 fyrir fullu húsi. ALLTAF,“ skrifar Kristján.
Greifarnir fóru með himinskautum í vinsældum.
Hann rekur í pistli sínum að lögin af plötu Greifanna, Blátt blóð, hafi öll náð inn á lista Rásar 2 yfir 20 vinsælustu lögin.
„Eins vorum við fastagestir á þeim vinsældarlistum sem voru í boði. Öll lögin okkar af plötunni Blátt blóð fóru á topp 20 á vinsældarlista rásar 2 haustið 1986. Það hefur aldrei verið leikið eftir eftir því sem ég best veit. Bara þetta ætti að vera nóg til þess að fjalla um okkur og okkar framlag þegar gerðir eru heimildarþættir um popp- og rokksögu Íslands. Auk þess var greinilegt að koma okkar inn í íslenska tónlistarsögu hafði mikil áhrif. Það sést best á sigurvegurum Músíktilrauna árin á eftir. Í kjölfarið komu nefnilega aðrar hljómsveitir sem voru að spila svipaða tónlist,“ skrifar Kristján Viðar.
Pistill Kristjáns í heild sinni:
Slaufun í boði RÚV
Ég er ekki vanur að tjá mig mikið á Facebook en finn mig nú knúinn til að leggja orð í belg. Ég verð að vera sammála Bjössa gítarleikara vini mínum í Greifunum þegar hann spyr á sama miðli eftir að hafa horft á þáttinn um árin 1986 til 1992 í Popp- og rokksögu Íslands á RÚV um helgina. Er ég í einhverju egó trippi eða er þetta bara eðlilegt? Gerðist þetta aldrei? Var mig bara að dreyma þetta 80’s tímabil sem ég tel mig hafa upplifað?
Fyrst vil ég segja. Jú Bjössi þetta gerðist. Ég var þarna líka. Ég hef sjálfur stundum velt þessu sama fyrir mér þegar ég hef lesið umfjöllun sjálfskipaðra sérfræðinga með sjálfskipaðar doktorsgráður sem hafa fjallað um þetta tímabil. Ég hef meira að segja leitað mér upplýsinga hjá raunverulegum sérfræðingum um tónlist þessa tímabils og talað við ýmsa samferðamenn sem eru enn á lífi og hafa engu gleymt. Ég hef sem sagt staðfestingu á því að allt það sem við upplifðum og tókum okkur fyrir hendur á þessum tíma, það gerðist í raun. Og það sem er kannski undarlegast af öllu er að í öllum þeim umfjöllunum sem ákveðnir aðilar hafa fjallað um okkur. Hvort sem það voru þáttargerðarmenn á Rás 2 eða einhverjir sem þóttust vera skrifa sögu íslenskrar popptónlistar hefur aldrei, ég endurtek ALDREI, verið talað við okkur um hvernig þetta var fyrr en núna. Ég fór í tveggja klukkutíma viðtal í tengslum við þessa þáttagerð. Mig grunar að ég sjáist einhverntímann í nokkrar sekúndur í einhverjum öðrum þætti en ekkert er fjallað um okkur í þessum þætti sem þó fjallaði um þau ár sem við komum stormandi inn í íslenska tónlistarsenu.
Á þessum árum sem þátturinn um helgina fjallaði um, sérstaklega árin 1986 til ársins 1989 vorum við alls staðar. Án vafa ein allra vinsælasta hljómsveit landsins. Það er mjög auðvelt að sjá ef þeir sem gerðu þættinu hefðu haft metnað til þess að fara í einhverja heimildavinnu. Við spiluðum stanslaust frá því við byrjuðum um mitt ár 1986 til 1988-89 fyrir fullu húsi. ALLTAF. Svona um það bil 350-400 tónleikar/böll bæði í Reykjavík og um allt land. Eins vorum við fastagestir á þeim vinsældarlistum sem voru í boði. Öll lögin okkar af plötunni Blátt blóð fóru á topp 20 á vinsældarlista rásar 2 haustið 1986. Það hefur aldrei verið leikið eftir eftir því sem ég best veit. Bara þetta ætti að vera nóg til þess að fjalla um okkur og okkar framlag þegar gerðir eru heimildarþættir um popp- og rokksögu Íslands. Auk þess var greinilegt að koma okkar inn í íslenska tónlistarsögu hafði mikil áhrif. Það sést best á sigurvegurum Músíktilrauna árin á eftir. Í kjölfarið komu nefnilega aðrar hljómsveitir sem voru að spila svipaða tónlist. Við höfðum meira að segja svo mikil áhrif að talað var um að hljómsveitir spiluðu Greifapopp. Eins og ágætur maður sem er sérfróður um íslenska dægurtónlist orðaði þetta: „Að minni hyggju voru Greifarnir svona undanfari poppbylgjunnar sem kom með Sálinni og Nýdönsk. Sem sagt, það er hægt að gera alvöru gleði- og stuðtónlist og það þarf ekkert að afsaka það. Á undan Greifunum voru svona pönk/rokkþyngsli en svo er öllu snúið á haus með gleðipoppinu (sem harmoneraði ágætlega við svipaða late 80s þróun í U.K. og U.S.A.). Það komu svona post-Greifabönd eins og Stuðkompaníið, Stertimenni, Fjörkallar og Herramenn en ég las alltaf Greifana sem Bítla þessarar senu.“
Þetta er eins og gera heimildarmynd um íslenskt bakkelsi og sleppa því að fjalla um kleinur, flatkökur og ástarpunga.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -