Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

Kristján Kristjánsson er æðrulausi trúbadorinn: „Við áttum ekkert en áttum nóg“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Æðruleysið er trilla sem er um eitt og hálft tonn og sjö metrar og með 20 hestafla búkkvél; lítil vél sem fer ekkert hratt. Hún fer svona sex mílur þægilega. Topphraðinn sex mílur. Það er svona 10 – 12 kílómetra hraði,“ segir Kristján Kristjánsson tónlistarmaður, betur þekktur sem KK, í viðtali við Reyni Traustason. KK segir að það sé gott að komast út á sjó á Æðruleysinu. Róa út á Æðruleysinu sem er plastbátur.

Ertu þá að veiða?

„Stundum er ég að fara út til að bara vera.“

Bara núvitundin?

„Já, ætli það ekki.“

Skoða bátana. Þetta var eins og segull.

KK bjó erlendis í 13 ár; í Svíþjóð.

- Auglýsing -

„Fljótlega eftir að ég kom heim fór ég að túra um landið; það var nýtt fyrir mér. Ég var 35 ára. Ég hafði farið einn hring í gamla daga. Á puttanum. Svo fór ég að þvælast um allt út af músíkinni og sá allt landið og það fyrsta sem ég gerði alltaf þegar ég kom á alla staði var að fara niður á höfn. Skoða bátana. Þetta var eins og segull. Svo tók ég myndir og svo var ég kominn með mynd af alveg eins bát og ég á í dag inni í bíl, uppi á vegg og alls staðar. Svo kom þetta í hendurnar á mér. Fyrst vorum við fjórir sem keyptum saman bát og svo endaði ég bara einn með hann.“

Ertu að fara eitthvað á vetrum út?

„Nei.“

- Auglýsing -

Það er bara þegar er best og blíðast?

„Já.“

Hann segir að hann hafi langað svo í þetta líf.

„Þetta dró mig til sín. Síðan komu strandveiðarnar þannig að þú gast farið að veiða eitthvað smávegis fjóra mánuði á árinu og landað og selt aflann. Ég fór í það og það var alveg meiriháttar. Meiriháttar líf.“

Þannig að þú hefur verið atvinnusjómaður?

„Já, í þrjú sumur.“ Hann reri tvö sumur frá Reykjavík og eitt sumar frá Akranesi.

Maður var að reyna að ná fisk líka. Stundum gekk það vel. Stundum ekki.

Fiskaðir þú vel?

„Það fer eftir því hvernig maður lítur á það.“

Þú mátt fiska um 800 kíló á dag.

„Ef maður lítur á það þannig þá held ég að ég hafi ekki fiskað vel; ef maður lítur á það þannig í kílóum og krónum.“

Varstu nokkuð að hugsa um þetta í kílóum og krónum? Varstu ekki að höndla hamingjuna?

„Maður var að reyna að ná fisk líka. Stundum gekk það vel. Stundum ekki. Eins og þetta er.“

Kristján Kristjánsson

Algert ævintýri

KK bjó um tíma í húsbíl með fjölskyldunni á Svíþjóðarárunum en á þeim tíma var hann götuspilari.

„Það var bara draumur. Ímyndaðu þér það besta; það var þannig. Þá varstu tengdur öðrum sem voru að lifa sams konar lífi og svo að koma sér fyrir fyrir utan bæinn í fallegum skógarjaðri eða þar sem var vatn. Svo voru bílarnir í hring og eldur í miðjunni. Og börn að leika sér. Og krakkarnir að læra um galdra. Þetta voru alls konar listamenn sem voru þarna. Við gerðum þetta þegar krakkarnir voru búnir með skólann á árunum 1986-1990. Krakkarnir kláruðu skólann í maí og svo pökkuðum við inn í bíl og fórum. Við vorum mikið uppi í Noregi.“

Við áttum ekkert en áttum nóg.

Það þarf ekkert 150 fermetra til að vera hamingjusamur.

„Nei, ég held þetta hafi verið eitt hamingjusamasta tímabil lífs okkar. Við áttum ekkert en áttum nóg.“

Er aldrei pirringur í svona návígi? Var þetta bara ljúft?

„Þetta var algert ævintýri öll sumrin.“

KK er spurður hvernig tilfinning það hafi verið að vera götuspilari.

„Það er dásamlegt.“

Og var hægt að lifa af því?

„Já.“

Voru menn örlátir?

„Já. Í dag er það svolítið erfitt. Það eru voða fáir með peninga á sér. Menn hafa verið að deila miðum með bankaupplýsingum og kennitölum.“

Lentir þú aldrei í neinu klandri?

„Nei. Við vorum á götunni og við sáum allt götuliðið sem annað fólk sá ekki. Við vorum allan daginn á götunni og þá færðu nýja sjón.“

Við vorum bara trúbadúrar.

Þetta er ósýnilegt samfélag.

„Þetta er ósýnilegt samfélag. Við sáum ýmislegt. Við vorum ekkert á þeim stað að við værum að bögga neinn sem hefði getað haft slæm áhrif á okkur. Við vorum bara trúbadúrar. Við vorum bara að spila þarna. Það var enginn að fokka í okkur.“

Hvar varstu mest?

„Ég var mikið í Osló og svo var ég í Kaupmannahöfn; ég skrapp stundum yfir um helgar þegar var gott veður og spilaði á Strikinu til þess að ná í pening. Ég fór um Evrópu og var svolítið í Hamborg og svo var ég ráðinn í hljómsveit og túraði með Red Archibald and the Internationals um allt Þýskaland einn vetur.“

Kristján Kristjánsson

Rímnasöngur og hiphop

Svo flutti fjölskyldan heim til Íslands árið 1990.

„Við söknuðum fjallanna og hafsins. Maður sá það þegar maður kom heim. Það vantaði. Við bjuggum í Suður-Svíþjóð, á Skáni, og þar eru engin fjöll. Eina hafið er Eyrarsundið þarna á milli Danmerkur og Svíþjóðar. Øresund.“

Þá byrjaði KK-ævintýrið og þú slóst í gegn. Platan ykkar seldist í bílförmum.

„Hún seldist mjög vel. Það gekk vel og það var gaman.“

Hver smellurinn á fætur öðrum og þú varðst poppstjarna hér.

„Já.“

Það er svolítil breyting frá því að spila á götunni.

„Já, þetta bara skeði. Bara óvart.“

Svo er ég að spila með hinum og þessum.

KK segist vera að spila mikið.

„Margir hafa samband við mig og biðja mig um að spila. Svo er ég að spila með hinum og þessum. Ég spilaði í mörg ár með Magga Eiríks og svo bættist Pálmi við og við vorum þrír að spila. Pálmi, Maggi og ég höfum tekið nokkra tónleika og svo höfum við Mugison spilað saman smávegis líka.“

Ertu sáttur við lífið?

„Ég var aldrei með neitt plan.“

Þú berst bara með sunnangolunni eða hvað sem það er?

„Ég veit það ekki. Ég held það sé þannig hjá mörgum listamönnum.“

Það finnst mörgum öðrum þetta líka vera skemmtilegt.

KK sér nokkrum sinnum í viku um útvarpsþáttinn Á reki.

„Þetta eru tæplega klukkutíma þættir. Á laugardögum er mest tekin fyrir íslensk tónlist; þá eru kórar, rímnasöngur, einsöngur og gömul popptónlist. Og kvartettarnir. Það eru dásamlegir kvartettar sem við eigum upptökur af. Svo á þriðudögum og miðvikudögum er ég að taka alls konar tónlist. Það er gömul tónlist, gamalt rokk og stundum hiphop-lög þess vegna sem eru bara lög sem mér finnst vera skemmtileg. Svo að ég fæ að velja það sem mér finnst vera skemmtilegt. Ég er svo heppinn að ég er ekkert einn um þetta. Það finnst mörgum öðrum þetta líka vera skemmtilegt. Sem betur fer.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -