Fimmtudagur 10. október, 2024
2.6 C
Reykjavik

Leitin að nýjum forseta hefst – Guðni Th. ekki í framboði

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, hyggst ekki gefa kost á sér til áframhaldandi setu á Bessastöðum. Þetta upplýsti hann í nýársávarpi sínu, rétt í þessu.

Guðni hefur notið fádæma vinsælda í embætti sínu. Hann þykir hafa sinnt embætti sínu af alúð og verið sannur og alþýðlegur. Þessi ákvörðun Guðna kemur nokkuð á óvart en margir töldu að í ljósi mikilla vinsælda myndi hann gefa kost á sér áfram.

Nú hefst baráttan um það hver verður arftaki hans á Bessastöðum í sumar.

Ávarp Guðna í heild sinni:

Kæru landsmenn.
Fyrir hönd okkar Elizu óska ég ykkur öllum gleðilegs nýs árs. Megi það færa
ykkur farsæld og fagnaðarstundir. Sem betur fer bjuggu mörg okkar við þannig
blessun á því ári sem nú er liðið. Um leið vitum við að sums staðar knúði sorgin
dyra, sums staðar erfiði og þrautir. Hugsum hlýtt til þeirra sem syrgja og sakna,
til þeirra sem eiga um sárt að binda í dagsins önn.
Árið var um margt sögulegt. Í byrjun þess var hálf öld liðin frá upphafi
eldgoss í Vestmannaeyjum og snemma vetrar þurfti að rýma Grindavík, aðra
blómlega byggð, eftir hrikalega skjálftahrinu og hættu á jarðeldum. Síðan gaus
og við verðum víst að búa okkur undir óróa á Reykjanesskaga um árabil.
Ég færi Grindvíkingum hlýjar kveðjur og þakka öllum sem hafa sýnt þeim
samhug í verki. Í jólakveðju til síns heimafólks kvaðst Fannar Jónasson
bæjarstjóri dást að þeirri þrautseigju sem sá samheldni hópur hefur sýnt síðustu
vikur. Undir þau góðu orð hljótum við öll að taka.
Frá undanförnum árum má minnast fleiri hamfara; veðurofsa sem olli
rafmagnsleysi og öðrum vanda norðanlands, skriðufalla og snjóflóða fyrir vestan
og austan, og er þá aðeins það helsta talið. Við hemjum ekki ægimátt
náttúruaflanna en við ráðum eigin viðbrögðum. Þegar í nauðir rekur getum við
reitt okkur á öflugar björgunarsveitir og aðra sem sinna hjálp á vettvangi. Í því
liggur mikil gæfa.
Svo eru það mannanna verk. Um víða veröld hækkar meðalhiti og öfgar í
veðurfari aukast. Þessum vanda getur mannkyn mætt með breyttum
lifnaðarháttum, minni notkun jarðefnaeldsneytis og minni mengun. Á
alþjóðavettvangi virðist einhugur um aðgerðir í þá veru og þótt okkar framlag
muni aldrei ráða úrslitum þurfum við Íslendingar að leggja okkar af mörkum.

2

- Auglýsing -

Enn geisa líka stríð úti í heimi. Í hittifyrra réðst Rússlandsher með offorsi
inn í Úkraínu og fyrir skömmu var hryðjuverkaárás í Ísrael svarað með innrás á
Gasa. Þar liggja nú tugþúsundir manna í valnum, þeirra á meðal þúsundir
blásaklausra barna.
Því miður eru þær veikar, vonir um varanlegan frið á þessum slóðum en
hann verður að komast á. Slíka kröfu hljótum við að styðja en samhliða því
megum við muna hversu dýrmætt það er að búa í landi án átaka eða hatrammra
illinda frá degi til dags; að búa í landi þar sem við njótum frelsis, öryggis og
annarra mannréttinda.
Og nú bíður nýtt ár, með öllum sínum tækifærum og þrautum ef svo ber
undir. Auðvitað vitum við aldrei til fulls hvað framtíðin ber í skauti sér en í því
felst einmitt hin fagra óvissa lífsins. Þannig komst ég að orði vorið 2016, þegar
ég bauð mig fyrst fram til forseta. Þá sagði ég að næði ég kjöri og svo endurkjöri
vildi ég ekki sitja lengur á Bessastöðum en átta til tólf ár. Hafði ég þá til
hliðsjónar eigin sjónarmið og ýmissa annarra í tímans rás.
Hvern einasta dag hef ég fundið hversu einstakur sá heiður er að gegna
þessari stöðu. Þess vegna neita ég því ekki að ég íhugaði vandlega að sækjast
eftir stuðningi til frekari setu eitt kjörtímabil enn. Aftur á móti komst ég ætíð að
þeirri niðurstöðu að betra væri að láta hjartað ráða en fylgja öðrum rökum sem
hljóta að teljast veikari þegar allt kemur til alls.
Í samfélagi liggja skyldur sérhvers víða en höfum þó ætíð í huga að vilji
fólk styðja aðra þarf það einnig að gæta að eigin líðan. Þetta nefndi skáldið
Gerður Kristný í hugvekju á nýliðinni aðventu og bætti við þeim sannindum að
þær stundir sem við eigum ein með sjálfum okkur eða þeim sem okkur þykir
vænst um eru jafnvel mikilvægari en okkur grunar.
Í öflugu lýðræðissamfélagi kemur maður líka í manns stað. Engum er
hollt að telja sig ómissandi og skyldurækni á misskildum forsendum má ekki
ráða för, því síður eigin hégómi eða sérhagsmunir.
Kæru landar, kæru vinir: Af öllum þessum sökum hyggst ég ekki vera í
framboði í því forsetakjöri sem verður í sumar, kýs frekar að halda sáttur á braut
innan tíðar og er þess fullviss ‒ ef ég má nefna það sjálfur ‒ að Íslendingum
muni eins og fyrri daginn auðnast að kjósa sér forseta sem þeir una við.
Eftir sem áður hlakka ég til að fylgjast með íslensku samfélagi vaxa og
dafna. Þekktu sjálfan þig og þekktu þína þjóð. Þannig hef ég viljað mæta
hverjum degi hér og segi hiklaust að við Íslendingar megum svo sannarlega
horfa björtum augum fram á veg. Ég þarf þó að nefna sitthvað sem getur valdið
áhyggjum eða ama: sífelldur ys og þys sem ýtir jafnvel undir sýndarmennsku
eða kvíða nema hvort tveggja sé, harka og heift í dómum á líðandi stundu,
gáleysi um mál okkar og menntun, fátækt sumra í samfélagi allsnægta.

3

En allt þetta getum við samt lagað. Grunnstoðirnar eru traustar og
heimurinn er ekki á heljarþröm. Þrátt fyrir allt sem betur má fara er það svo
margt sem getur fyllt okkur stolti og gleði, bjartsýni og von.
Eflum það sem sameinar okkur, ekki síst þann grundvöll framfara að hver
manneskja fái að sýna hvað í henni býr, sjálfri sér og öðrum til heilla, en
sömuleiðis að öll þau sem þurfa á aðstoð að halda fái notið hennar í krafti
samvinnu og samkenndar. Virðum gömul og góð gildi en fögnum líka ferskum
straumum – þannig treystum við þann þráð sem þarf að liggja milli þess sem
var, er og verður.
Og látum okkur þykja vænt um landið okkar. Næstu kynslóðir eiga það
skilið. Þetta land á það skilið. ‒ Land, það er heiti ljóðs eftir Ingibjörgu
Haraldsdóttur sem lýsir svo vel heilbrigðri ættjarðarást, á tímum þegar víðsýni
og væntumþykja verða að einkenna alla okkar þjóðerniskennd, ekki illska eða
dramb, ekki tortryggni eða ótti við nýmæli og fjölbreytni. Ljóðið er svona:

- Auglýsing -

Ég segi þér ekkert um landið
ég syng engin ættjarðarljóð
um hellana, fossana, hverina
ærnar og kýrnar
um baráttu fólksins
og barning í válegum veðrum
nei. En stattu við hlið mér
í myrkrinu. Andaðu djúpt
og finndu það streyma
segðu svo:
Hér á ég heima.

Kæru samlandar: Þetta er ekki kveðjustund en ég leyfi mér samt að þakka
ykkur öllum við þetta tækifæri, þakka þeim fjölda fólks sem ég hef kynnst á
forsetastóli, hér á Bessastöðum, úti um allt land og erlendis, oftast við ljúf tilefni
en einnig á erfiðum stundum. Við vitum að þær verða aldrei með öllu umflúnar.
„Það er tálsýn og eftirsókn eftir vindi að halda að lífið geti orðið eða eigi að vera
einn dans á rósum, samfelld hlátrabuna.“ Þannig mæltist Vigdísi Finnbogadóttur
í einu sinna ávarpa við áramót og eru það orð að sönnu.
Já, ég færi fram þakkir. Ég þakka vinum og fjölskyldu stuðning í hvívetna
og ég þakka ykkur eldri í hópi landsmanna, ykkur sem með viti og striti lögðuð
grunn að velferðarríki okkar daga. Saman verðum við að tryggja að þið megið
njóta notalegs ævikvölds.

4

Ég þakka kynni við þau ykkar sem standið höllum fæti í samfélaginu af
einhverjum völdum, viljið sanngirni og réttlæti en eruð æðrulaus í andbyr lífsins.
Af því má margan lærdóm draga.
Ég þakka þeim sem hafa helgað því krafta sína að sinna öðrum; starfsliði
heilbrigðis- og menntastofnana og þeim sem stuðla á ýmsa vegu að bættri líðan
okkar á líkama og sál. Öðrum vinnandi stéttum eigum við líka skuld að gjalda;
bændum, sjómönnum og fiskvinnslufólki, fjölbreyttri sveit á sviði iðnaðar og
viðskipta, nýsköpunar, verslunar og ferðaþjónustu, og er þá ekki allra getið sem
færa björg í bú.
Ég þakka gott samstarf við embættismenn og kjörna fulltrúa. Hér hef ég
einkum í huga forsætisráðherra og aðra í ríkisstjórnum minnar tíðar, auk þeirra
sem sitja og setið hafa á Alþingi Íslendinga þau ár. Jafnframt hugsa ég hlýtt til
þeirra kirkjunnar þjóna og fulltrúa trú- og lífsskoðunarfélaga sem ég hef rætt við
og kynnst. Trú getur verið svo traust haldreipi þótt þar verði hver og einn að
finna sína þörf án boðs eða banna. Við skulum hafa ein lög en megum hafa fleiri
siði.
Sömuleiðis þakka ég forverum mínum góða viðkynningu, Ólafi Ragnari
Grímssyni og Vigdísi Finnbogadóttur. Eins hef ég notið arfleifðar fyrri forseta,
þeirra Sveins Björnssonar, Ásgeirs Ásgeirssonar og Kristjáns Eldjárns.
Þá lýsi ég aðdáun minni á þeim sem skara fram úr í þjóðlífinu og bera
hróður Íslands víða, frumkvöðlum í heimi vísinda og tækni, snillingum á sviði
menningar og lista, íþróttafólki og öllum öðrum sem fylla okkur stolti og gleði
yfir því að vera smáþjóð sem getur unnið stóra sigra.
Svo met ég þau mikils sem flytja hingað að utan, hafa jafnvel flúið stríð
og hungur, þurfa að fóta sig á framandi velli en eru staðráðin í að vinna
samfélaginu gagn, skipa sér verðugan sess hér, læra tungumálið ef því er að
skipta; og hjálpum þeim þá til þess.
Loks þakka ég öllum þeim börnum og ungmennum sem ég hef kynnst
undanfarin ár, í skólum, á samkomum og víðar. Krakkar, þið eruð frábær! Þið
fyllið okkur bjartsýni sem eldri erum. Ef það er eitthvað sem á bjátar í ykkar
umhverfi og uppeldi er það okkur að kenna, ekki ykkur. En bætum það þá
saman. Ég vona að þið berið gæfu til að vera ætíð trú ykkar sannfæringu, að þið
eignist drauma og setjið ykkur markmið, fyllist metnaði og sjálfstrausti og finnið
hvernig ykkur líður best í sál og sinni. Veljið samt ekki alltaf léttustu leiðina.
„Eitt er að finna til þreytu og annað að gefast upp,“ sagði Kristján Eldjárn á sinni
tíð hér á Bessastöðum. Sýnið seiglu og þrjósku ef þarf.
Ágætu landsmenn. „Nú er ég glaður á góðri stund,“ kvað séra Hallgrímur
Pétursson á sínum tíma og svo færði hið merka sálmaskáld djúpa speki í falleg

5

orð, íslensk orð sem lifa vel þótt aldir líði: „Gott er að hætta hverjum leik, þá
hæst fram fer.“
Fyrir hönd okkar hjóna þakka ég enn þá velvild og hlýju sem við höfum
notið. Ég óska ykkur öllum heilla, hamingju og velfarnaðar. Gleðilegt nýtt ár!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -