Laugardagur 20. apríl, 2024
7.1 C
Reykjavik

„Lífið alltaf að rétta mér skemmtileg verkefni“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Söngkonan Guðrún Óla Jónsdóttir, alltaf kölluð Gógó, heldur tónleika í Lindakirkju í Kópavogi, í kvöld, 6. september klukkan 20. Hún elskar stórar ballöður, segir að ekki skemmi fyrir ef þær séu svolítið dramatískar í ofanálag og textinn um tilfinningalausa óþokka.

 

„Þetta eru tónleikar með lögum úr ýmsum áttum en fólk má búast við stórum ballöðum sem til dæmis Barbra Streisand, Whitney Houston, Haukur Morthens og fleiri hafa gert frægar,“ segir Gógó. „Ég reyni kannski að lauma inn smástuði en þetta verður nú engin upphitun fyrir djamm í miðbænum heldur meira notaleg kvöldstund þar sem alls konar dægurperlur verða fluttar. Óskar Einarsson verður með mér og spilar á flygilinn. Hann er á við heila hljómsveit og ég er endalaust þakklát fyrir að hafa hann mér við hlið í þessu tónleikabrölti mínu, þriðja árið í röð. Svo verður Eyjólfur Kristjánsson, Eyfi, sérstakur gestur. Það er mjög gaman að Eyfi ætli að vera með, því hann var tónlistarstjóri í fyrstu nemendasýningunni sem ég tók þátt í og er frábær tónlistarmaður.“

Þetta er þriðja árið í röð sem Gógó heldur einsöngstónleika í Lindakirkju. „Fyrsta árið hélt ég í raun bara tónleikana fyrir sjálfa mig, þeir voru svona á bucket-listanum en þeir heppnuðust svo vel að ég ákvað að endurtaka leikinn í fyrra og það sama er uppi á teningnum í ár.“

Gógó byrjaði að syngja þegar hún var í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti þar sem hún byrjaði í kór og tók þátt í árshátíðarsýningunum sem voru settar upp á hverju ári, fór til dæmis með aðalhlutverkið í Litlu hryllingsbúðinni sem var sett upp í Íslensku óperunni 1995 og sigraði hæfileikakeppnina Stjarna morgundagsins sem Gunnar Þórðarson stóð fyrir á Hótel Íslandi 1996. Að auki söng hún aðeins inn á plötur og í bakröddum. „Ég tók mér síðan langt hlé frá söngnum þar til ég byrjaði í Kór Lindakirkju árið 2011 þar sem ég hef sungið síðan, bæði með kórnum og sem einsöngvari. Við syngjum mikið gospel og það er geggjað; mikil útrás og ótrúlega gefandi, enda er gospel endalaus uppspretta fyrir næringu andans. Ég er nýkomin frá Akureyri þar sem ég var gestasöngvari hjá Gospelröddum Akureyrar ásamt drottningunni Andreu Gylfadóttur sem var alveg meiriháttar. Lífið er alltaf að rétta mér einhver skemmtileg verkefni.“

„Við syngjum mikið gospel og það er geggjað; mikil útrás og ótrúlega gefandi, enda er gospel endalaus uppspretta fyrir næringu andans.“

Gógó sendi nýlega frá sér lag sem ekki er ólíklegt að verði flutt á tónleikunum. „Við Óskar hittumst um daginn til að æfa fyrir tónleikana og okkur datt í hug að taka upp eitt lag. Það heppnaðist svo vel að það þurfti bara eina töku til. Þetta er lagið Goodbye Yellow Brick Road eftir Elton John en í töluvert öðruvísi útgáfu en fólk á að venjast,“ segir hún ánægð og heldur áfram: „Þótt ég hafi verið að syngja hádramatískar ballöður á tónleikunum mínum hef ég líka reynt að koma fólki til að hlæja á milli laga. Ég vil hafa andrúmsloftið svolítið heimilislegt og afslappað og ég held að fólk fari út úr Lindakirkju með bros á vör og hlýju í hjartanu. Hingað til hefur alla vega bæði verið hlegið og grátið og allt þar á milli.“

Mynd / Unnur Magna

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -