Handboltakappinn Logi Geirsson vill nýjan þjálfara í brúna fyrir íslenska karlalandsliðið í handbolta; Logi var mjög ósáttur við hvernig Guðmundur Þórður Guðmundsson stýrði Íslandi á HM, þar sem liðið olli miklum vonbrigðum eftir miklar væntingar.
Kemur þetta fram í Handkastinu þar sem Logi var gestur og farið var yfir frammistöðu Íslands á HM í Svíþjóð og Póllandi.
„Ég væri til í að sjá breytingar. Miðað við þetta mót höndlar hann ekki pressuna. Hann er ekki gæinn sem er tilbúinn að fara með þetta lið og vinna. Hann talaði um of miklar væntingar og kröfur. Hvernig kemst þetta inn í liðið?“ sagði Logi og bætti við:
„Ég veit ekkert hvað þarf að gerast. Ég er að hugsa um liðið og það þarf að breyta því. Það þarf strúktúr og taka til í þessu. Ég held að það eigi að skipta um mann í brúnni.“
Logi er ósáttur við framkomu Guðmundar í viðtölum og segist vera kominn með nóg af þeirri tilhneigingu Guðmundar að tala andstæðinga Íslands upp í þeim tilgangi að ýta pressunni af íslenska liðinu.
„Ég þoli ekki þessi viðtöl við Guðmund og alla þessa minnimáttarkennd; hvaða fokking aumingjaskapur er þetta? Ég trúi ekki að ég sé að hlusta á þetta. Ég nenni þessu ekki. Ég nenni ekki að hlusta á þessi viðtöl annað stórmót,“ sagði Logi.
„Ég veit ekkert hvað er að fara að gerast, en hvernig þessu var stýrt núna, er ég ekki sáttur við. Þetta eru mesti vonbrigðin í keppninni hingað til. Við verðum að fá breytingar og mig langar í nýjan þjálfara. Ekki meira svona.“