Þriðjudagur 23. apríl, 2024
4.1 C
Reykjavik

Mætti á landsleik í grýlubúningi

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, hefur fylgt landsliðinu í handbolta á fjölmörg stórmót og má með sanni segja að hann sé einn af dyggustu stuðningsmönnum liðsins. Hann verður að sjálfsögðu í stúkunni núna ásamt félögum sínum og þeir eru það bjartsýnir á gengi liðsins að þeir eiga miða á milliriðilinn.

Guðni Már Harðarson, prestur í Lindakirkju, er einn dyggasti aðdáandi liðsins.

„Þetta verður besta mót Íslands í nokkurn tíma og 5.-7. sætið verður okkar,“ svarar Guðni Már hress í bragði þegar hann er beðinn um að spá fyrir um gengi Íslands á mótinu. „Geir Sveinsson gaf ungum strákum séns og lagði mikilvægan grunn fyrir Guðmund [Guðmundsson], það er uppgangur núna og gaman að sjá hversu faglega er unnið með unglingalandsliðin, en ég held að Gísli [Þorgeir Kristjánsson] og Elvar [Örn Jónsson] muni eiga gott mót.“

Teigaði lítra af bjór
Guðni Már hefur farið á HM, EM, undankeppni Ólympíuleika og Ólympíuleikanna í London. Þeir fara alltaf nokkrir vinir saman á mótin en ef Ísland kemst á Ólympíuleikana í Tókýó 2020 er draumurinn að fara fjölskylduferð. Guðni segist ekki fara árlega en eins oft og ráð og tími vinnst til. Hann hefur því orðið vitni að mörgum ævintýralegum augnablikum. „Ég hef tvisvar séð Ísland vinna Frakkland sannfærandi, í Magdeburg 2007 og á Ólympíuleikunum 2012, stemningin á þeim leikjum var engu lík. Viðbrögð frönsku stuðningsmannanna í kringum okkur þegar Björgvin Páll varði með Youtube-markvörslu á Ólympíuleikunum gleymast ekki.“

Í síðari hálfleik var næstum liðið yfir mig vegna ofþornunar og er enn er sagan sögð þegar ég, hrifsaði líters bjórkrús af vini mínum og teygaði í einum sopa. Ég drekk ekki bjór en hefði sennilega teigað lítra af smurolíu á þessum tímapunkti, slíkur var þorstinn,“

Eitt eftirminnilegasta atvikið er frá HM 2007 í Magdeburg. „Mikið var rætt um að Alfreð Gísla hefði í aðdraganda mótsins stútað Svíagrýlunni svokölluðu með því að gersigra Svía. Þar sem ég á forláta grýlubúning mönuðu vinir mínir mig til að mæta í honum á landsleik, ég sagðist til ef ákveðin upphæð safnaðist til góðgerðarmála. Þeir sáu til þess að upphæðin safnaðist fljótt og ég gat ekki skorast undan. Grýlubúningurinn og öll sú múndering er ekki ákjósanleg til að vera í mikilli mannþröng innandyra í 18.000 manna höll. Í síðari hálfleik var næstum liðið yfir mig vegna ofþornunar og er enn er sagan sögð þegar ég, hrifsaði líters bjórkrús af vini mínum og teygaði í einum sopa. Ég drekk ekki bjór en hefði sennilega teigað lítra af smurolíu á þessum tímapunkti, slíkur var þorstinn,“ segir Guðni Már hlæjandi en handboltaáhugi hans kviknaði fyrir alvöru þegar Ísland sigraði B-leikana árið 1989. „Handbolti er skemmtilegasta sjónvarpsíþróttin, hraður leikur og þótt annað liðið sé fimm mörkum yfir og 10 mínútur eftir getur enn allt gerst.“

Eftir sigurleik á Frökkum á Ólympíuleikunum 2012 í London. Frá vinstri: Kjartan Ólafsson Vídó, Ástþór Ágústsson, Guðni Már og Gústaf Kristjánsson.

Unnu bara einn leik
Spurður hvort hann hafi sjálfur æft handbolta játar hann með semingi. „Já, en ég er mun betri í að tala um handbolta en stunda. Ég æfði einn vetur með ÍA á Akranesi með stórkostlegum karakterum. Það væri hægt að gera bíómynd í anda The Mighty Ducks um þetta lið, handritshöfundur yrði þó að fjölga sigurleikjum frá raunveruleikanum, því þó að við elskuðum að spila þá unnum við bara einn leik allan veturinn. Það var þegar hitt liðið var varamannalaust og tveir hjá þeim meiddust í leiknum svo við mörðum sigur eftir að við urðum tveimur fleiri. Svo æfði ég með Fylki í um tvo vetur, var settur á línuna en fyrsti kostur á línunni þar var öðlingurinn Róbert Gunnarsson, besti sóknarlínumaður Íslands fyrr og síðar. Val þjálfarans var einfalt, viltu Súpermann eða Crusty the Clown á línuna?“

Guðna líður því betur í stúkunni og hefur í gegnum tíðina kynnst mörgum sem tengjast liðinu á einn eða annan hátt. „Ísland er lítið og því hafa margir orðið á leið manns í gegnum lífið, þeir eru þó flestir hættir nema skólabróðir úr menntaskóla, Guðjón Valur, sem er náttúruundur og valmenni. Svo hafa leiðir okkar Björgvins Páls legið saman en hann og Karen eiginkona eru mér góðar fyrirmyndir á ýmsan hátt. Að öðrum ólöstuðum er samt uppáhaldshandboltamanneskjan mín Ólafur Stefánsson. Magnaður íþróttamaður og djúpvitur lífskúnstner sem hugsar út fyrir kassann.“

Aðalmynd: Í Magdeburg 2007 þar sem Guðni fór í grýlubúninginn. Frá vinstri: Kjartan Vídó Ólafsson, Guðni Már, Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, Arnar Ragnarsson og Ólafur Jóhann Borgþórsson.

- Auglýsing -

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -