Miðvikudagur 24. apríl, 2024
9.1 C
Reykjavik

Lækninum Erlu Gerði finnst vandræðalega gaman í Góða hirðinum – „Sjaldan til skór í mínu númeri“

Höfundur

Neytandi vikunnar, Erla Gerður Sveinsdóttir, starfar sem sérfræðilæknir við offitumeðferð og einnig sem yfirlæknir hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Kvenheilsu og Heilsubrú. Hún er uppalin í sveit fyrir norðan. Býr í Garðabæ í dag ásamt eiginmanni, þau eiga tvo drengi á háskólaaldri sem búa heima og kunna enn að meta mömmumat. Til viðbótar er 13 ára gamall hundur sem er enn duglegur við að draga hana út í gönguferðir. Erla Gerður er með stóran garð og elskar að rækta grænmeti og reita arfa sem er líka hennar hugleiðsla og slökun. Þau eiga hús í heimahögunum fyrir norðan með systur hennar og hennar fjölskyldu. Hún fer þangað til að hlaða batteríin þegar tækifæri gefst og þrífst vel úti í náttúrunni. Vinnan er nú reyndar aðaláhugamál hennar þannig að flestar vökustundir fara í vinnu eða undirbúning fyrir hana.

Gerir þú verðsamanburð á vörum og þjónustu ?

Stundum en mætti vera duglegri við það. Reyni meira að vanda mig við að kaupa bara það sem þarf. Versla á útsölum eða tilboðum þegar ég mögulega get.

Hvernig sparar þú í matarinnkaupum?

Ég elda flest kvöld heima og með því að skipuleggja máltíðirnar er hægt að nýta mat mjög vel og bæði hindra matarsóun og spara í innkaupum og tíma. Ég er líklega dálítið gamaldags búkona. Hráefni er oft notað í fleiri en eina máltíð en ég reyni að passa að hafa það fjölbreytt. Elda til dæmis heila kjúklinga sem er fyrstu máltíðin í röðinni og svo eru afgangar af kjúkling í ýmsum útgáfum, til dæmis með mexikönsku eða indversku ívafi. Ég nota frystinn mjög mikið og set ýmiskonar afganga þangað inn og nýti í súpur og mismunandi rétti. Frysti til dæmis allskonar grænmeti ef það er orðið þreytt, papriku, grænkál, kryddjurtir, tómata, afskurð af blómkáli, brokkoli og þess háttar. Grænmetið er svo soðið vel og töfrasprotinn notaður til að mauka í góðan og hollan grunn fyrir súpur og pottrétti fyrir hversdagsmatinn, bara krydda vel, fullt af hvítlauk og tómötum og allir eru sáttir. Í þetta fara svo allskyns kjötafgangar og þessháttar sem er til í ísskápnum eða hefur safnast upp í fyrstinum. Ef vantar upp á próteininnihaldið í þessum blöndum má alltaf bjarga sér með allskonar linsum og baunum. Ég frysti alltaf rest af ostum og það er hægt að gera geggjaða rétti úr þeim. Held að ég sé orðin nokkuð góð í svona afgangamatreiðslu. Frysti meira að segja afgang af páskaeggjum til að nota í súkkulaðisósur og súkkulaðikökur sumarsins.

Endurnýtir þú? Ertu með ráð til annarra? 

Já, ég reyni auðvitað að flokka það rusl sem fer af heimilinu og koma því til endurnýtingar ef hægt. Ég er líka alveg duglega að mála og spreyja húsbúnað til að breyta til og nota gamalt, ekki síst gersemar sem finnast í Góða hirðinum. Systir mín er annars meistari í þessum málum hringrásarhagkerfisins og ég fæ oft hugljómun frá henni. Við systur fáum stundum að heyra frá eiginmönnum að við geymum helst til of mikið af dóti, það er nefnilega aldrei að vita hvenær þetta breytist í gersemi en líklega væri skynsamlegra að koma hlutum oftar áfram til nota annarstaðar.

Hvað hefur þú í huga þegar þú kaupir mat, fatnað og gjafir?

Ég leyfi mér að kaupa fersk hráefni í mat og lítið unnar vörur og sem mest úr nærumhverfi. Þar spara ég ekki við mig en reyni að fara vel með. Varðandi fatnað þá verða oftast vandaðar tímalausar flíkur fyrir valinu en kaupi núorðið sjaldan skynditískuvörur. Ég var einu sinni dugleg að sauma og breyta fötum en er eiginlega hætt að nenna því. Þegar ég gef gjafir, reyni ég að gefa eitthvað sem hægt er að nota eða upplifa. Reyni að lágmarka líkur á að gjafir lendi ónotaðar í geymslu hjá viðkomandi. Tækifærisgjafir geta verið eitthvað til að borða svo sem krydd, kryddjurtir, olíur, vínflaska, ávaxtakarfa eða eitthvað þessháttar. Leikhús, dekurstund eða einfaldlega peningagjöf við viss tækifæri.

Hverju átt þú erfiðast með að draga úr kaupum á?

Skóm og bókum. Sem betur fer nota ég númer 35 í skóm þannig að það eru sjaldan til skór í mínu númeri. Annars held ég að ég væri í verri málum.
Að fara inn í bókabúð, sérstaklega fræðibókabúð getur verið mjög erfitt. Svo margt sem ég bara verð að lesa og svo stend ég uppi með fleiri bækur en ég kemst yfir að lesa, er alltaf að bíða eftir rólega tímanum. Er samt að færa mig meira yfir í raf – og hljóðbækur til að vera skynsöm. Svo finnst mér vandræðalega gaman að fara í Góða hirðinn og nytjamarkaði til að finna gersemar. Þar leyfi ég mér að kaupa eitthvað þó það sé ekki bráðnauðsynlegt.

Skiptir umhverfisvernd þig máli?

Já miklu máli. Fjarlægðin frá náttúrinni sem einkennir samtímann er mikið áhyggjuefni. Vísindaheimurinn er sífellt að koma fram með betri þekkingu á því hvernig þetta náttúruleysi ( e. Nature Deficit Disorder) er truflandi fyrir heilsuna okkar og daglega líðan. Við verðum að bera virðingu fyrir náttúrinni og umhverfinu. Við getum gert svo miklu betur á mörgum sviðum. Eitt þeirra er að vera meira sjálfbær í matvælaframleiðslu og draga úr innflutningi.
Með jarðhitanum okkar höfum við svo mörg tækifæri. Ég veit samt upp á mig skömmina í ýmsum málum hvað varðar umhverfið. Til dæmis ferðast ég frekar mikið bæði innanlands og utan, oft vinnutengdar ferðir en friða samviskuna með því að gróðursetja mikið af trjám fyrir norðan með föður mínum. Ég er líka með nagladekk á veturna, hef of oft lent í erfiðum aðstæðum á ferð um landið til að þora að hætta því.

Annað sem þú vilt taka fram?

Vaxandi áhugi á endurnýtingu og að draga úr matarsóun finnst mér frábær og hef mikla trú á komandi kynslóðum. Ein hugmynd sem mig langar að sjá einhvern gera að veruleika er að búa til stað þar sem hægt er að koma og kaupa afganga af allskyns smíða- og föndurvörum og jafnvel aðstöðu til að búa til eitthvað nytamlegt og skemmtilegt úr því. Býð fram heilmikinn lager af nöglum, skrúfum, verkfærum, málningarafgöngum, glerkrukkum, myndarömmum, fatnaði, efnis- og garnafgöngum úr mínum bílskúr til nota í verkefnið. Held að margir fleiri bílskúar og geymslur lumi á verðmætum sem hægt væri að vinna úr og nýta á skemmtilegan hátt.

- Advertisement -spot_img
- Advertisement -spot_img

Latest Recipes

- Advertisement -spot_img

More Recipes Like This

- Advertisement -spot_img