Laugardagur 15. júní, 2024
11.8 C
Reykjavik

Neytandi vikunnar varar við eyðslupúkanum á öxlinni: Sparar allt árið fyrir jólagjöfunum

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Neytandi vikunnar að þessu sinni er Dagbjört Jónsdóttir. Dagbjört er 39 ára lögfræðingur, eiginkona og móðir og er búsett í Mosfellsbænum.  

Dagbjört heldur úti miðlinum Fundið fé (https://www.instagram.com/fundid_fe/) á Instagram þar sem hún setur inn ýmsan fróðleik og hvatningu varðandi  sparnað, útgjöld og peninga. Dagbjört gaf sér tíma til að svara nokkrum spurningum um neysluvenjur sínar. 

Leggur þú fyrir og ef svo er hvaða leiðir notar þú ?  

Mér finnst skipta miklu máli að leggja fyrir mánaðarlega, alveg sama hversu lítil sú upphæð kann að vera. Ég legg fyrir í sparnað í hverjum mánuði. Ég legg líka til hliðar pening í útgjaldaflokka sem ég veit að ég þarf að eiga fyrir, t.d. jólagjafir, tómstundir barna o.s.frv. Þannig hefur það ekki áhrif á útgjöld mánaðarins þegar þessi kostnaður bætist við. 

Inn á heimabankanum er hægt að koma á sjálfvirkum millifærslum. Ég mæli heils hugar með að nýta sér þessa þjónustu því annars getur eyðslupúkinn á öxlinni sannfært þig að eyða peningnum í eitthvað skemmtilegt núna frekar en að geyma hann fyrir eitthvað skynsamlegt seinna.   

Hvar kaupir þú helst í matinn og hvað hefur þú í huga í matarinnkaupum, sem neytandi?  

- Auglýsing -

Fyrir mitt leyti hentar mér best að gera vikuinnkaupin á netinu, sérstaklega þegar mikið er að gera og ég hef ekki tíma til þess að fara í búð. Með því að kaupa í matinn á netinu get ég keypt í matinn út frá stöðunni í skápunum heima og ákveð kvöldverði vikunnar út frá því sem er til. Yfirleitt kaupi ég minna en ég hefði gert í hefðbundinni matvöruverslun og ég er miklu meðvitaðri um hvað ég kaupi. 

Þegar ég fer í búðina þá vel ég oftast að nota „Skannað og skundað” frá Krónunni. Þannig sé ég nákvæmlega hvað karfan mín mun kosta og er síður líkleg til að setja eitthvað í körfuna sem mig vantar ekki. Svo þarf ég aldrei að bíða í röð á kassa til að borga! Gott trix til að gera búðarferðina bærilegri er að hlusta á uppáhalds hlaðvarpsþáttinn þinn á meðan þú ert í búðinni. Það hefur margsinnis hjálpað mér að koma mér af stað í búðarinnkaupin þegar ég nenni engan vegin af stað. 

Ég nýti mér stundum matarpakka með tilbúnum kvöldverðum þó það sé vissulega munaður en ekki sparnaður. Ég finn hins vegar að ég fer miklu sjaldnar í búðina þegar ég panta  þessa þjónustu. Ég hef líka oft pantað kvöldverði fyrir tvo þó við séum fjögur í heimili og bæti þá einfaldlega við auka meðlæti. Þannig helminga ég kostnaðinn en einfalda mér lífið með því að þurfa ekki að taka ákvörðun um hvað eigi að vera í matinn.  

- Auglýsing -


Hvert er þitt helsta sparnaðarráð?  

Mitt helsta sparnaðarráð er að skrifa niður öll þín útgjöld og fara vikulega yfir þau. Með því að hafa þessa yfirsýn og skoða það sem þú eyðir áttar þú þig betur á hvað má betur fara. Þannig ertu ólíklegri til að endurtaka innkaup sem þig langar að forðast. Vertu með fjárhagsleg markmið að hverju þú stefnir og mátaðu þín innkaup við þessi markmið. Þú skalt alltaf spyrja þig: eru þessi innkaup að draga mig nær eða fjær mínum markmiðum?  

Umhverfisvernd, skiptir hún þig máli? 

Umhverfisvernd á erindi við alla og ég reyni að leggja mig fram hvað það varðar. Á okkar heimili er einn bíll þó það getur vissulega verið púsluspil í úthverfalífinu en hefur gengið upp fyrir okkur. Ég kaupi iðulega notuð húsgögn og það sama á við um föt. Ég er mikill aðdáandi Barna- og Extraloppunnar og kaupi flest mín föt þar. Ég kaupi líka notuð föt þegar ég fer erlendis. Sem betur fer telst það varla fréttnæmt í dag að kaupa sér hluti sem ekki eru nýir, en ég held að við þurfum öll að taka höndum saman sem neytendur að huga að hvaða áhrif okkar innkaup hafa á umhverfið, hvort sem það eru föt, bílar eða matur.  


Mælir þú með skemmtilegu lesefni eða hlaðvörpum? 

Ég elska að hlusta á skemmtileg hlaðvörp sem fjalla um sparnað og fjármál og hefur “Leitin að peningunum” verið í sérstöku uppáhaldi hjá mér. Eins þykir mér gaman að hlusta á The Minimalists Podcast. Það eru einnig til margar góðar bækur en ég mæli sérstaklega með bókinni “Atomic habits” fyrir þá sem vilja taka skrefið í átt að betri venjum, til dæmis í fjármálum. 

Dagbjört hefur síðastliðin ár verið að þróa og hanna bók fyrir fólk til að halda utan um útgjöldin sín með skipulögðum hætti og ná yfirsýn yfir fjármálin. Bókin er væntanleg í verslanir í næsta mánuði og  ber heitið „ Fundið fé, njóttu ferðalagsins“  Í bókina skráir fólk niður útgjöld sín viku fyrir viku og skoðar samhliða hvort eyðsla þeirra endurspegli sínar áherslur og fjárhagsleg markmið.  Hugsunin er að fá þá sem nota bókina með í fjárhagslegt ferðalag þar sem að það lærir inn á hvað skiptir það mestu máli, hvernig er best að forgangsraða í hvað það vill eyða peningunum sínum með því að setjast niður með útgjöldum sínum í einungis fimm mínútur á dag.    

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -