Miðvikudagur 28. febrúar, 2024
-2.2 C
Reykjavik

Nýr formaður Samfylkingarinnar: „Ég hef ekki staðið á stalli heldur leitast við að berskjalda mig“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eins og allir áttu von á þá er Kristrún Frostadóttir nýr formaður Samfylkingarinnar. Var sjálfkjörin því enginn þorði að taka slaginn við hana; enda er hún vonarstjarna jafnaðarmanna – skín skært.

Eftir að ljóst varð að enginn myndi bjóða sig fram gegn henni og að nýja hlutverkið væri hennar, þá flutti hún ræðu á ársþingi flokksins núna rétt áðan.

Kristrún sagði meðal annars að eitt af stóru verkefnum Samfylkingarinnar væri að opna flokkinn upp á gátt fyrir almenningi; eiga samtal við flokksmenn á jafnréttisgrundvelli:

„Ég lýsi því yfir hér að þetta verður meginverkefni Samfylkingarinnar næsta árið; að opna flokkinn: Að halda áfram að eiga samtal við fólk um allt Ísland. Við munum boða til efnislegrar umræðu um þá málaflokka sem við setjum í forgang fyrir næstu ár, halda opna fundi og málþing. Kalla til sérfræðinga; fólkið á gólfinu – fólk sem er hokið af reynslu og ungt fólk sem vill móta framtíð sína hér á landi.“

Bætti við:

„Þetta er ákall til ykkar kæru félagar, um að koma með í þetta verkefni; ákall til þeirra sem þetta land byggja um að virkja samstöðu. Við getum öll lagt okkar af mörkum; virkjum jafnaðartaugina og gerum þetta skipulega; tökum samtalið; öflum upplýsinga og vinnum úr þeim með áttavitann rétt stilltan.“

- Auglýsing -

Hún vill að Samfylkingin sýni ábyrgð í orði sem á borði:

„Það gerum við með því að vera ábyrg; ekki með því að skora ódýrt; ekki með því að eltast við læk, eða lúta þeim sem hafa hæst á samfélagsmiðlum; þeim sem eru reiðastir í þjóðmálaumræðunni og nota stærstu orðin. Við verðum að brjótast úr bergmálshellinum.“

Kristrún vill bæta stöðu Samfylkingarinnar og sagði í ræðu sinni að staða flokksins væri ekki nægilega góð; það væri hellings verk að vinna:

- Auglýsing -

„Staðan í landsmálunum er ekki ásættanleg. Síðustu Alþingiskosningar voru talsverð vonbrigði, þar sem stóru línurnar eru lagðar. Fráfarandi formaður axlaði sína ábyrgð. En við vitum öll í hjarta okkar að það er ekki nóg að skipta bara um forystusveit. Enda kallaði Logi (Einarsson fráfarandi formaður Samfylkingarinnar) sjálfur eftir breyttu skipulagi og öðruvísi forystu.“

Kristrún sagðist hafa ákveðið „að svara því kalli – eftir að hafa ferðast vítt og breitt um landið; haldið mikinn fjölda opinna funda með fólki í heimabyggð þess. Ég hef ekki staðið á stalli, heldur leitast við að berskjalda mig og standa með báða fætur á gólfinu; til að hlusta á fólk í augnhæð. Fátt hefur gefið mér eins mikla pólitíska innsýn og innblástur.

Þessi samtöl hafa mótað mig og hér stend ég í dag: Með skýrar og sterkar áherslur sem og hugmyndir í farteskinu sem ég hef kynnt ítarlega á undanförnum vikum.“

Kristrún segir að „velferðarmálin kalla á alla okkar athygli; mál sem snerta allt daglegt líf fólks hér á landi; hvernig það kemst á milli staða. En trúverðugleiki okkar þar byggir líka á trúverðugri efnahagsstefnu; valkosti við efnahagspólitík núverandi ríkisstjórnar sem yfirgnæfir allar þeirra aðgerðir: Öllu heldur aðgerðaleysi. Okkar efnahagsstefna tekur mið af hagsmunum heildarinnar; heildarmynd, skilningi á því hvernig velferðarkerfið verður best rekið sem og fjármagnað.“

Hinn nýbakaði formaður Samfylkingarinnar telur að „skammtímalausnir skila sér í meiri kostnaði síðar; skuldir finnast víðar en í bókhaldi ríkissjóðs. Stórtækar framfarir á Íslandi velta á því að hér komist til valda stjórnmálaflokkur sem sér þessa stóru mynd og getur veitt Íslandi forystu með fast land undir fótum, og samfellu í hugsun; ekki tilviljunarkenndum fjárútlátum og stefnulausu aðhaldi sem engum árangri skilar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -