Formaður svæðisfélags VG á Suðurnesjum og oddviti Suðurkjördæmis, Hólmfríður Árnadóttir, segir að ef útlendingafrumvarpið fari óbreytt í gegn, þá ógni það ekki fyrir víst ríkisstjórnarsamstarfi VG, Framsóknar og Sjálfstæðisflokks.
Segir Hólmfríður í samtali við Fréttablaðið að það sé ekki auðvelt að upplifa að unnið sé gegn grunngildum flokksins.
Ásamt hópi innan VG ritaði Hólmfríður grein í síðustu viku þar sem grasrótin í VG mótmælti útlendingafrumvarpi Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra.
Telur hópurinn að frumvarp Jóns einkennist fyrst og síðast af andúð í garð útlendinga og að það virðist hafa aðeins eitt markmið: Að neita fleirum enn hraðar um hæli.

Segir Hólmfríður að brugðist hafi verið við áðurnefndri grein með hádegisfundi um helgina þar sem grasrótin hafi átt gott samtal við forystufólk VG; vill hún ekki meina að það sé ólga innan VG vegna frumvarps Jóns:

„Við álitum svo að það sé ekkert endilega ólga eða neitt slíkt, heldur einfaldlega erum við að sinna okkar hlutverki sem grasrót. Það er að minna stöðugt á okkar stefnu og eiga alltaf í stöðugu samtali við forystuna, sem við erum vissulega að reyna efla og hvetja til góðra verka.“
Hólmfríður Vill varla hugsa um hvað gerist ef frumvarp Jóns fer óbreytt í gegn:
„Ég vona svo sannarlega að okkar fólk grípi vel inn í og að við fáum þessu frumvarpi breytt, þannig að það fari ekki svona í gegn. Af því að við verðum líka að hlusta á þessi mannréttindasamtök sem eru að koma með umsagnir og annað slíkt og okkur ber skylda til þess að sinna þessum málaflokki vel. Við erum hluti af alþjóðasamstarfi og við erum með sáttmála í gildi hérna á Íslandi sem snúa að mannréttindamálum og mannréttindum. Þannig að ég yrði mjög leið ef þetta færi svona í gegn, svo ég tali fyrir mig.“
Hún bætir við að í stjórnarsáttmálanum sé kveðið á um mannréttindi; það eigi að standa vörð um þau:
„Eins er kveðið á um málefni innflytjenda og flóttafólks. Það er mikilvægt að standa við það sem stendur í stjórnarsáttmála, við eigum að taka vel á móti flóttafólki. Við viljum vera fjölmenningarsamfélag og okkur vantar fólk til landsins, til þess að vinna og annað slíkt. Ég trúi ekki öðru en að það sé á okkur hlustað og fólkið okkar fari fram með þeim hætti sem er í takt við okkar stefnu; að það sé virkilega hlustað á þessar umsagnir og hlustað á grasrótina. Ég vona það og ég trúi því að það sé svoleiðis,“ segir Hólmfríður.
Hún er þó ekki viss um hvort ríkisstjórnarsamstarfið muni gjalda fyrir afar umdeilt útlendingafrumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra:
„Ég bara veit það ekki. Nú er ég ekki á þingi og ekkert í framlínunni hvað það varðar, þannig ég veit það ekki. En ég er ekki að sjá það endilega. Vissulega ber okkur í grasrótinni að halda málefnum á lofti, sérstaklega málefnum minnihluta og mannréttinda.“
Bætir að endingu þessu við:
„Það er alveg vissulega erfitt þegar maður upplifir að það sé verið að vinna gegn okkar grunngildum. En ég hef trú á að þetta fari ekki svona í gegn og að það verði unnið betur í þessu frumvarpi.“