Lögregla stöðvaði bifreið í Árbæjarhverfi í nótt eftir að ökumaður hafði ekið upp á hringtorg og yfir gróður sem þar óx. Þegar bifreiðin nam staðar reyndi ökumaður og farþegar að flýja og hlupu á brott. Lögregla hljóp fólkið uppi, handtók og gisti það bak við lás og slá. Ökumaðurinn er grunaður um akstur undir áhrifum vímuefna og réttindalaus.
Þá handtók lögregla mann sem gekk berserksgang í Hafnarfirði í gærkvöldi. Maðurinn er grunaður um eignaspjöll og líkamsárás og gisti hann því í fangaklefa.
Tilkynning um eld í Öskuhlíð barst lögreglu í gærkvöldi. Þegar lögregla mætti á vettvang kom í ljós að logaði í eldstæð á lokuðu svæði og engin hætta var talin stafa af því. Karlmaður í annarlegu ástandi réðst á tvo öryggisverði í gærkvöldi. Atvikið átti sér stað í bílakjallara í miðbæ Reykjavíkur og handtók lögregla manninn.
Kemur fram í dagbók lögreglu að sex ökumenn hafi verið stöðvaðir í gærkvöldi og í nótt vegna gruns um akstur undir áhrifum vímuefna.