Fimmtudagur 25. apríl, 2024
8.1 C
Reykjavik

Orkudrykkjum er markvisst haldið að grunnskólabörnum: Neysla á orkudrykkjum með því mesta í Evrópu

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Áhættumatsnefnd hefur að beiðni Matvælastofnunar rannsakað hvort neysla orkudrykkja, sem innihalda koffín, hafi neikvæð áhrif á heilsu ungmenna í framhaldsskólum. Til að meta hvort neysla íslenskra ungmenna geti verið skaðleg fyrir heilsu er stuðst við viðmiðunarmörk, sem Matvælaöryggisstofnun Evrópu (EFSA) hefur sett, fyrir annars vegar svefn og hins vegar hjarta- og æðakerfið. Mörkin fyrir hjarta-og æðakerfið eru mishá eftir því hvort um ræðir einstaklinga undir 18 ára aldri eða 18 ára og eldri.

Niðurstaða nefndarinnar er að neysla íslenskra ungmenna sé töluvert meiri en sést hefur í erlendum rannsóknum. Framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja hérlendis virðist skila sér í því að neysla íslenskra framhaldsskólanema sé meiri en æskilegt er. Niðurstöður nefndarinnar gefa til kynna að takmarka þurfi aðgengi ungmenna að orkudrykkjum t.d. innan veggja skólanna og á vegum íþróttahreyfinganna og minnka þannig neikvæð áhrif koffíns á heilsu þeirra.

Niðurstöðurnar eru hreinlega sláandi, en hér að neðan má sjá þær helstu.

  • Neysla íslenskra ungmenna á orkudrykkjum, sem innihalda koffín, er með því mesta sem þekkist í Evrópu og er vægi orkudrykkja í heildarkoffínneyslu íslenskra ungmenna mun meira en sést í sambærilegum  erlendum rannsóknum.
  • Meira en helmingur framhaldsskólanema neytir orkudrykkja einu sinni í viku eða oftar. Tíundi hver framhaldsskólanemi undir átján ára og einn af hverjum fimm yfir átján ára aldri, neytir orkudrykkja daglega.
  • Koffínneysla hjá um þriðjungi nemenda á aldrinum 16-17 ára, sem drekka orkudrykki, er yfir viðmiðunarmörkum sem eru talin hafa neikvæð áhrif á svefn. Hátt í helmingur 18-20 ára ungmenna, sem drekka orkudrykki, innbyrða koffín daglega yfir þeim mörkum. Til samanburðar innbyrða aðeins 5-7% yngri ungmenna (<18 ára) og 10% eldri ungmenna(>18 ára), sem ekki drekka orkudrykki, koffín yfir þessum mörkum.
  • Það er sterk neikvæð fylgni milli neyslu framhaldsskólanema á orkudrykkjum og svefns, sem lýsir sér í því að þau sem neyta mikils magns orkudrykkja eiga erfiðara með að sofna. Mjög hátt hlutfall þeirra segist sofa lítið (minna en 6 tíma á sólarhring).
  • Áhættumat sýnir að a.m.k. 10-12% yngri ungmenna (<18 ára), sem neyta orkudrykkja, innbyrða koffín yfir þeim öryggismörkum fyrir hjarta- og æðakerfið sem EFSA ráðleggur að séu örugg fyrir börn, eða 3 mg/kg líkamsþyngdar á dag. Til samanburðar innbyrða 1-2% ungmenna, sem ekki neyta orkudrykkja, koffín yfir þessum mörkum.
  • Þau ungmenni (<18 ára) sem innbyrða mest koffín, innbyrða tvöfalt til fjórfalt það magn sem EFSA leggur til sem öryggismörk fyrir koffíninntöku fullorðinna, eða 3 mg/kg líkamsþyngdar á dag.
  • Langtíma neysla á miklu magni (yfir 3 mg/kg líkamsþyngdar á dag) af koffíni getur valdið miklu álagi á hjarta- og æðakerfið.
  • Samanburður við skýrslu áhættumatsnefndar frá 2020 um koffínneyslu grunnskólanema  (8.-10. bekk) leiðir í ljós að neysla orkudrykkja (2x í viku eða oftar) eykst línulega eftir aldri, úr 10% fyrir 13 ára í 46% fyrir 18-20 ára. Um 40-70% ungmenna í 8.-10. bekk hafa fengið orkudrykki gefins í tengslum við íþróttir eða hópastarf samanborið við 10% framhaldsskólanema. Svo virðist sem orkudrykkjum sé markvisst haldið að grunnskólabörnum og þar sem koffín er vanabindandi efni veldur þetta áhyggjum m.t.t. mögulegra neikvæðra heilsuáhrifa til langs tíma.
  • Óheft aðgengi ungmenna (<18 ára) að orkudrykkjum í skólum, í hópastarfi og við íþróttaiðkun er ekki til þess fallið að draga úr neyslu þessara drykkja. Áhættumatið sýnir að framboð, aðgengi og markaðssetning orkudrykkja hérlendis virðist skila sér í því að neysla íslenskra framhaldsskólanema sé meiri en æskilegt er. Neyslan hafi neikvæð áhrif á svefn, óháð andlegri líðan þeirra. Hún sé yfir því magni sem getur valdið hækkun á blóðþrýstingi og þar með auknu álagi á hjarta- og æðakerfið.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -