Óskar Steinn Ómarsson lýsir furðu yfir vegna vinnubragða hjá Hafnarfjarðarbæ.
„Það mun taka mig langan tíma að vinna almennilega úr öllu því sem átti sér stað á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar í dag,“ segir Óskar og bætir við:
„Þar fékk meirihluti bæjarstjórnar tækifæri til að draga til baka þá óskiljanlegu og órökstuddu ákvörðun fræðsluráðs og fjölskylduráðs að leggja niður ungmennahúsið Hamarinn og segja upp öllu starfsfólki. Fyrir fundinn höfðu bæjarfulltrúar fengið í hendurnar áköll frá bæði fagfólki og hafnfirskum ungmennum um að falla frá ákvörðuninni, auk mjög persónulegra frásagna um mikilvægi þess starfs sem unnið hefur verið í Hamrinum.“
Allt kom fyrir ekki.
„Það dugði ekki til að afstýra þeim stórkostlegu skemmdarverkum á ungmennastarfi sem meirihluti bæjarstjórnar var ákveðinn í að hrinda í framkvæmd. Eftir fundinn í dag sit ég uppi með fleiri spurningar en svör og spyr eins og Guðmundur Árni Stefánsson, var tilgangurinn með þessari vegferð allri sá að losna við ákveðið fólk?“