Laugardagur 27. júlí, 2024
10.8 C
Reykjavik

Páll á Húsafelli: „Þetta hús er stórkostlegt listaverk og niðurstaðan veldur mér sorg og vanlíðan.“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Líf mitt og starf er að skapa list í sátt við náttúruna á Húsafelli. Það er skylda mín og okkar Húsfellinga að varðveita náttúru, menningu og sögu forfeðra okkar og skila til komandi kynslóða,“ segir Páll á Húsafelli og bætir við:

„Þetta vissi langafi minn Kristleifur Þorsteinsson á Stóra- Kroppi, en hann ásamt Jakobi vinnumanni á Húsafelli sóttu um styrk til Alþingis árið 1929 til að varðveita legsteinana sem unnir voru úr námu í Bæjargilinu, sem forfeður mínir unnu af miklu listfengi.

Ég tók á sínum tíma fagnandi þeirri hugmynd að byggt yrði safn til varðveislu þeirrar þjóðargersemar sem legsteinarnir eru.“

Páll segir að í samvinnu við Biskupsstofu hafi verið fengnir fengir einir færustu arkitektar þjóðarinnar til hönnunar safnsins, þeir Stefán Örn Stefánsson og Grétar Markússon.

„Húsið fellur afar vel í landinu og er að mínu mati listaverk í sjálfu sér,“ en því miður er húsið

- Auglýsing -

„mikill þyrnir í augum nágranna míns, Sæmundar Ásgeirssonar, en hann höfðaði einkamál gegn mér og krafðist niðurrifs hússins og reyndar líka steinhörpuskálans, þar sem ég geymi mörg af mínum dýrmætustu listaverkum. Dómur féll Sæmundi í vil og mér var gert að fjarlægja húsið nánast fullbyggt. Ég ætla ekki að tíunda niðurstöðu dómarans en ef menn vilja þá er hægt að fletta upp dómnum, mál nr. E-6/2019.“

Eins og gefur að skilja er sorg og depurð í hjarta Páls eftir þessa niðurstöðu.

„Í öllu skipulags- og byggingarferlinu var ég í góðri trú og treysti að þau leyfi sem Borgarbyggð veitti mér fyrir byggingunni væru í fullu gildi. Því olli þessi niðurstaða, sem ég vil kalla refsidóm, mér mikilli sorg og vanlíðan. Frá uppkvaðningu dómsins voru mér gefnir 30 dagar til að rífa og fjarlægja öll ummerki um legsteinahúsið, sem í mínum huga er ekki einungis hús heldur stórkostlegt listaverk sem sómi er að og mikil staðarprýði.“

- Auglýsing -

Páll segir að Sæmundur hafi gefið sér von um að hægt væri að leysa málið með samkomulagi.

„Því miður er nú ljóst að kröfur Sæmundar, til að felldar verði niður dagsektir að upphæð kr. 40.000 á dag, eru með öllu óaðgengilegar fyrir mig og er mér því nauðugur einn kostur að rífa húsið. Niðurrif hófst þann 6.ágúst og verður að fullu lokið 31. ágúst 2021.

Stattu hjá mér sterki drottinn

Styddu mig að báðum hliðum

Drottinn náðar vörn mér veittu

Verjan mín, þá vér nú berjumst

Höfundur: Séra Snorri Björnsson, Húsafelli

Ég vil þakka öllum vinum mínum sem hafa dyggilega stutt mig í þeirri trú um að legsteinunum verði bjargað undan veðrum og náttúrulegri eyðingu.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -