Föstudagur 6. desember, 2024
-3.2 C
Reykjavik

Plastpokabann gæti skapað nýjan vanda

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Plastið er orðið tákn þeirrar umhverfisvár sem íbúar jarðarinnar glíma við og hefur gríðarleg vitundarvakning átt sér stað á síðustu misserum og árum. Með miklu upplýsingaflæði geta ákvarðanir þeirra sem vilja vera meðvitaðir neytendur flækst fyrir þeim; hvað skal versla og í hverju á að bera það heim. Svo er spurning hvort þetta skipti yfirhöfuð einhverju máli í stóra samhenginu?

Þegar við færum okkur yfir í stóru spurningarnar varðandi reglur, neyslu og val neytenda þá spyrja margir sig hvort aðgerðir á borð við plastpokabannið skipti máli í stóra samhenginu við loftslagsmál. Guðni Elísson, prófessor í bókmenntafræði við Háskóla Íslands, hefur rannsakað loftslagsmál til fjölda ára og segir hann í samtali við Kjarnann að stutta svarið við þeirri spurningu sé nei.

Lífræna baðmullin verst

„Það mætti hugsanlega flækja þetta frekar og segja að ef plastpokabann yrði að almennri reglu um allan heim þá værum við í raun að skapa nýjan vanda vegna þess að heildarumhverfisáhrifin af plastpokaframleiðslu eru miklu minni en til dæmis af pappírspokum, svo við tölum ekki um fjölnota burðarpoka úr baðmull. Samkvæmt skýrslu sem danska umhverfis- og matvælaráðuneytið lét vinna eru pappírspokar 40 sinnum frekari á náttúrulegar auðlindir en plastpokar og taupokarnir 7000 til 20000 sinnum verri. Verst er lífræna baðmullin, því hún kallar einfaldlega á orkufrekari framleiðslu, meira pláss, o.s.frv.,“ segir hann.

„Íslensk umhverfisverndarstefna hefur fókuserað allt of mikið á það að breyta Íslandi úr framleiðslusvæði yfir í stað þar sem neysla og upplifun fer fram.“

Guðni bætir því við að hér sé hann að sjálfsögðu að tala um framleiðsluendann, en vandinn við plastið liggi ekki síst í því hvað við gerum við það þegar það hefur gegnt hlutverki sínu. „Ef við tryggðum það að öllu plasti væri fargað eftir kúnstarinnar reglum ættu allir fremur að nota plastpoka en til dæmis fjölnota burðarpoka úr baðmull.“

Reglan ætti að vera að nota hvern einnota poka þrisvar, fjórum sinnum. „Ef við notuðum alla plastpoka nokkrum sinnum og förguðum þeim rétt væri hægt að tvö- til þrefalda tölurnar frá danska umhverfisráðuneytinu. Og það má árétta að í dönsku skýrslunni er gert ráð fyrir að plastið sé brennt í lokin sem er ekkert endilega besta leiðin,“ segir hann.

Guðni bendir á að kosturinn við plastpokabannið geti verið sá að það veki fólk til vitundar um umhverfismálin en ef eina niðurstaðan sé sú að við fyllum taupokana okkar af sama ákafanum og áður sé þetta sýndargjörningur, sem skapi falska umhverfisvitund. Aðalatriðið sé að minnka neyslu, draga úr lönguninni til að fylla alla poka af dóti sem vel hægt er að lifa án. „En auðvitað er þetta flóknara en svo að hægt sé að svara þessu í svona stuttu máli og þarf að slá alls kyns varnagla.“

- Auglýsing -

Þegar Guðni er spurður út í þá togstreitu sem myndast getur milli umhverfissjónarmiða og loftslagsmála þá segir hann að loftslagsmálin séu auðvitað umhverfisverndarmál og plastnotkun sé hnattrænn vandi.

„En auðvitað breytast áherslurnar eftir því sem við víkkum sjóndeildarhringinn, frá til dæmis staðbundinni landvernd yfir í spurningar um almennar aðgerðir í loftslagsmálum. Þannig eru margir landverndarsinnar umhverfissóðar og um leið brjóta þeir gegn því landi sem þeir segjast ætla að vernda. Margir sem láta sig vernd hálendisins varða eru til dæmis með risavaxin sótspor og taka þannig beinan þátt í eyðingu landsins sem þeir hafa svarið að verja.“

Hann telur að ekki sé hægt að kalla sig umhverfisverndarsinna og taka á engan hátt ábyrgð á sótsporum sínum eins og þurfi að gera með því að takmarka flug og kjötneyslu. „Mér hefur sýnst áherslan vera sú að tryggja að landinu sé ekki breytt í einhvers konar framleiðsluland og leggja til dæmis fremur áherslu á þjónustu. Fara frá stóriðju yfir í túrisma.“ Engu sé breytt með því að horfa á þetta gamla viðhorf sem sé því miður allt of ráðandi.

„Ef við tryggðum það að öllu plasti væri fargað eftir kúnstarinnar reglum ættu allir fremur að nota plastpoka en til dæmis fjölnota burðarpoka úr baðmull.“

- Auglýsing -

„En ef rúmur milljarður flýgur á hverju ári heimshorna á milli til þess að „njóta“ breytir hann jörðinni á stórtækari hátt en nokkur uppistöðulón myndu t.d. gera, þótt vissulega auðgi menn líf sitt líka með ferðalögum. Túrismi er stóriðja skynfæranna og hann er varinn af djúpstæðri þörf fyrir neyslu, upplifanir og auðvitað af skiljanlegri þörf fyrir að komast út úr nærumhverfinu. Íslensk umhverfisverndarstefna hefur fókuserað allt of mikið á það að breyta Íslandi úr framleiðslusvæði yfir í stað þar sem neysla og upplifun fer fram. Landvernd var t.d. styrkt af flugfélaginu Wow air sem er í raun erfitt að skilja ef við skilgreinum Landvernd sem umhverfisverndarsamtök,“ segir Guðni.

Hægt er að lesa ítarlega fréttaskýringu um málið í nýjasta tölublaði Mannlífs og á vef Kjarnans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -