Miðvikudagur 19. júní, 2024
8.8 C
Reykjavik

Ráðherrann Lilja féll í stafi við Grænavatn – Toppurinn á Trölladyngju og vötnin þrjú

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eitt magnaðasta útivistarsvæði landsins er að finna í bakgarði höfuðborgarinnar, á Keilissvæðinu og í kringum Sogin. Þar er að finna öll helstu og fegurstu tilbrigði íslenskrar náttúru. Hin undurfögru Sog svíkja engan. Þar er háhitasvæði og litadýrðin líkist helst því sem sést í grennd við Landmannalaugar.

Hin undurfögru Sog.
Mynd: Árni Tryggvason.

Hópar Ferðafélags Íslands hafa lengi ferðast um svæðið og notið alls þess fjölbreytileika sem þar er að finna. Þannig hafa Skrefin undanfarin átta ár gengið um flesta þá markverðu staði sem þar er að finna. Og það er af nógu að taka.

Hið augljósa er að ganga á Keili, fjallið sem flestir útlendingar veita eftirtekt þegar komið er akandi frá Keflavíkurflugvelli til Reykjavíkur. Keilir er einkar formfagurt fjall, strýtulaga og fólk þarf að hafa fyrir því að brölta upp malarskriðurnar til að ná toppnum. Einhverjir kunna að halda að Keilir sé hæsta fjall á Suðurnesjum en það er ekki svo. Hann er 379 metrar að hæð. Grænadyngja (398 m.y.s.) er hæsta fjall Suðurnesja. Hún og Fagradalsfjall (390 m.y.s.) skáka bæði þessum ókrýnda konungi Suðurnesjafjalla. Trölladyngja er jafnhá Keili. Í þessu samhengi má minna á orð Napóleons Bónaparte um að eitt er að vera hár en annað að vera stór.

Vegurinn frá Reykjanesbraut á Keilissvæðið er torfarinn og alls ekki fyrir kviðsíða bíla. Til að komast þangað er beygt af Reykjanesbraut þar sem vegvísir bendir á Keili. Aka þarf rúmlega 10 kílómetra leið um grófan malarveg sem á köflum er á mörkum þess að vera fær bílum.

Keilir

Gangan á Keili hefst á Höskuldarvöllum. Bílastæði er við enda Oddafells þaðan sem haldið er í gönguna sem er alls 7 kílómetrar fram og til baka. Þeir sem ætla að ganga á Keili þurfa að reikna með 4-5 klukkustundum í verkefnið. Fyrsta kastið er gengið með fram Oddafelli en síðan er þverbeygt og haldið inn í Höskuldarvallahraun og gengið um hlykkjóttan stíg í gegnum hraunbreiðuna. Í fjarlægð blasir fyrirheitna fjallið við.

Gangan er létt, en nauðsynlegt er að varast hraunnibbur á göngunni. Eftir að hafa stiklað um hraun og móa sleppir hraunbreiðunni og við tekur slétta, alla leiðina að Keili. Við hlið fjallsins kúra hólar sem nefnast Keilisbörn. Eftir að hafa gengið allt að þremur kílómetrum um jafnsléttu er komið því að ganga á sjálft fjallið. Glöggur stígur sker bratta hlíðina. Þetta er á fótinn og erfitt þeim sem ekki eru í góðu formi. Á efsta hluta leiðarinnar er nokkuð bratt og þeir lofthræddustu hika við og þurfa jafnvel handleiðslu. Á toppnum blasir við frábært útsýni um Reykjaneskaga og höfuðborgarsvæðið. Þar uppsker göngufólkið verðlaun sín eftir erfiðið. Þeir metnaðarfyllstu geta útfært gönguna þannig að þeir fara áfram suðvestur eftir og skoða Litla-Hrút, Kistufell og sjálfan Stóra-Hrút. En það er að sjálfsögðu löng ganga sem kallar á skipulagningu varðandi heimferð.

- Auglýsing -

Sogin og Spákonuvatn

Annar áfangastaður á Keilissvæðinu er háhitasvæðið Sogin og vötnin þar í kring. Til að komast á uppgöngustaðinn er ekið um Keilisveg áfram eftir malarvegi sem sker Höskuldarvelli. Beygt er til hægri undir hlíðum Trölladyngju og haldið áfram þar til komið er að plani þar sem er að finna borholu. Með fram veginum rennur Sogslækur, eina vatnsfallið á Reykjanesi. Göngumaður getur ákveðið að halda upp í skarðið um Sogin. Sú ganga getur á köflum verið slarksöm, en eflaust þess virði þegar litbrigði háhitasvæðisins blasa við. Þegar kemur upp í skarðið blasir Djúpavatn við í allri sinni dýrð. Handan þess eru Vigdísarvellir og síðan kemur að Sveifluhálsi.

Djúpavatn.

Þeir sem vilja komast í návígi við vatnið klöngrast niður hlíðina og halda svo með fram vatninu að sumarhúsi sem þar stendur. Þaðan liggur leiðin aftur upp á Grænavatnseggjar. Gengið er upp skarð og þar blasir við sjálft Grænavatn sem ber nafn með rentu. Göngufólk Ferðafélagsins heldur með fram vatninu og nýtur allrar þeirrar fegurðar sem er í boði. Með í för er Lilja Alfreðsdóttir, ferðamálaráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins. Hún slær á létta strengi og er þess viss að nafn vatnsins vísi til einkennislitar Framsóknarflokksins.

Þegar kemur að vatninu er gengið norður, með fram því. Ekki er laust við að ferðafólk taki andköf af hrifningu vegna umhverfisins, áfram er haldið og gengið upp skarð, þaðan sem Spákonuvatn blasir við. Eftir að hafa gengið með fram vatninu kemur að því að loka hringnum með því að ganga með fram Sogunum og að bílunum fyrir neðan. Stórkostleg ferð að baki og fyrirheit um endurkomu heyrast.

- Auglýsing -

Lambafellsklofi og Trölladyngja

Trölladyngja kúrir rétt norðan við Grænudyngju. Til að ganga á fjallið er sniðugt að aka sem leið liggur að Keili, fram hjá Oddafelli og yfir Höskuldarvelli. Beygja skal til vinstri á gatnamótum undir Trölladyngju. Við Eldborg er sæmilegt bílastæði. Þar hefst gangan. Haldið er beint upp hlíðina, með fram gili sem göngumaður hefur á hægri hönd. Þegar komið er upp á brún er stefnt á strýtulaga Trölladyngju. Gengið er upp brattan hrygg. Gangan er talsvert á fótinn. Á hæsta tindi skilar puðið sér. Á sólbjörtum degi blasir Reykjanes og höfuðborgarsvæðið við. Gott útsýni er yfir gossvæðið undir Fagradalsfjalli.

Trölladyngja. Mynd Guðrún Gunnsteinsdóttir.

Á bakaleiðinni er stefnt á Lambafellsklofa, einstaklega fallegt náttúrufyrirbrigði sem sumpart minnir á gjána sem klýfur fjallið Þorbjörn. Rúmlega tveir kílómetrar eru af toppi Trölladyngju og norður fyrir Lambafell. Þegar komið er norður fyrir fellið blasir við opin gjáin sem klýfur fjallið bókstaflega. Þegar fólk fikrar sig inn í gjána gengur það bókstaflega í björg. Það er yfirþyrmandi að standa í þröngri gjánni, undir allt að 50 metra háum hamraveggjum. Skrefahópar Ferðafélags Íslands hafa haft þann sið að syngja í gjánni. Hljómburðurinn er einstakur. 

Lambafellsgjá.
Mynd: Reynir Traustason


Leiðin um gjána liggur í suður í gegnum fjallið. Hún grynnist hratt og það er á brattann að sækja. Göngumaðurinn stendur fyrr en varir á toppi Lambafells. Eftir dulúðina í fjallinu blasir við blár himinn og frábært útsýni. Þeir sem hafa til þess úthald og vilja, geta svo gengið á Eldborg á bakaleiðinni áður en haldið er heimleiðis eftir ferð sem hefur yfir sér sannkallaðan ævintýrablæ.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -