Þriðjudagur 16. apríl, 2024
0.1 C
Reykjavik

Ragnar læknaprófessor varar við faraldri: „Áhættan er meiri hjá konum“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Ragnar Danielsen er klínískur prófessor við læknadeild Háskóla Íslands, hjartasérfæðingur og forstöðulæknir hjartaómunareiningar hjartadeild Landspítala.

Hann segir að „tegund 2 sykursýki (T2SS) er margslunginn efnaskiptasjúkdómur sem getur leitt til alvarlegra fylgikvilla í mörgum líffærakerfum. Langvinn sykursýki skerðir verulega lífslíkur og hefur víðtæk lýðheilsuáhrif um heim allan. Í Evrópu eru nú um sextíu milljón fullorðinna með sykursýki og af þeim er um helmingurinn með sjúkdóminn ógreindan,“ segir hann og bætir við:

„T2SS er um 90 pósent af allri sykursýki í heiminum og þættir sem stuðla að þróun sykursýki eru að verulegu leyti lýðheilsulegir: Offita, óheilbrigt mataræði, lítil líkamshreyfing og vandamál tengd efnahag ýmissa þjóðfélagshópa. Algengi sykursýki fer vaxandi í Evrópu, og er um 10 til 20 prósent hjá ýmsum þjóðum í Evrópusambandinu, og er einnig hækkandi í austurlöndum.“

Ragnar nefnir að algengi sykursýki hafi aukist verulega á Íslandi á undanförnum áratugum og fjölgaði einstaklingum með T2SS 2,5-falt áárunum 2005 til 2018:

„Nýgengi jókst einnig á sama tíma hjá báðum kynjum, einkum konum. Samkvæmt framtíðarspá mun einstaklingum með T2SS fjölga verulega hér á landi á næstu áratugum og það er því ljóst að verulegt lýðheilsulegt vandamál blasir við íslensku heilbrigðiskerfi.“

Hann segir að „æskilegast væri að stemma stigu við þessari þróun með forvörnum, skipta þar mestu lýðheilsuleg verkefni eins og greining áhættuhópa og að stemma stigu við vaxandi ofþyngd þjóðarinnar. Slíkt hefur þó borið takmarkaðan árangur hér á landi enda ekki framkvæmt á fullnægjandi hátt. Ein algengasta dánarorsök einstaklinga með T2SS er hjartasjúkdómur. Hann er fjölþættur og leiðir meðal annars til hjartabilunar, einkum í samspili við háþrýsting. Almennt er áhætta fyrir hjarta- og æðasjúkdómum hjá T2SS tvöföld í samanburði við einstaklinga án sykursýki, hún er meiri hjá konum og þær fá þessa sjúkdóma yngri en karlar.

- Auglýsing -

Þá nefnir hann að „kransæðasjúkdómur þróast hraðar hjá sykursjúkum, óháð öðrum áhættuþáttum, en áhættan eykst verulega ef viðkomandi einstaklingur glímir auk þess við of háan blóðþrýsting, blóðfitubrenglun, brenglun á storkuþáttum, reykingar og offitu. Langtímahorfur sykursjúkra eftir hjartaáföll eru verri en hjá einstaklingum án sykursýki og þeir fá frekar hjartabilun.“

Einnig segir Ragnar að nú sé gerð sú krafa til nýrra sykursýkislyfja að þau hafi ekki óhagstæð áhrif á þróun hjarta- og æðasjúkdóma.

„Í kjölfar þess hafa komið fram ný lyf sem hafa verndandi áhrif gegn hjarta- og æðasjúkdómum hjá einstaklingum með T2SS. Lyf í flokki SGLT2-hemla hafa sýnt lægri heildardánartíðni hjá sykursjúkum, lækkaða dánartíðni vegna hjarta- og æðasjúkdóma, lægri tíðni kransæðastíflu, en ekki afgerandi áhrif á heilaáföll. Þessi lyf hafa þvagræsiáhrif auk annarra flóknari áhrifa á hjarta- og æðakerfið sem í heild minnka þróun á hjartabilun hjá fólki með T2SS. SGLT2-hemlar hafa þó ekki eingöngu letjandi áhrif á þróun hjartabilunar hjá sykursjúkum heldur er nú einnig verið að reyna þessi lyf sem meðferð við hjartabilun hjá einstaklingum án sykursýki.“

- Auglýsing -

Hann bendir á að „í lyfjaflokknum GLP-1-hliðstæður hafa sum lyf – semaglútíð, líraglútíð – einnig sýnt sig að hafa hagstæð áhrif til að letja þróun hjarta- og æðasjúkdóma hjá fólki með T2SS. Svonefndir DPP-4-hemlar hafa hins vegar ekki sýnt hagstæð hjarta- og æðaáhrif, að sítagliptíni undanskildu hafa þau flest aukið líkur á hjartabilun. Í nýlegum evrópskum klínískum leiðbeiningum er nú mælt með því að hjá einstaklingi með T2SS og án klínískra fylgikvilla sé metformín fyrsta lyf en síðan sé bætt inn nýrri sykursýkislyfjum með hagstæð áhrif á hjarta- og æðakerfi, ýmist SGLT2-hemli eða GLP-1-hliðstæðu. Hjá sykursjúkum sem þegar eru komnir með merki um hjarta- og æðasjúkdóma ættu lyf í þessum flokkum að vera í fyrsta sæti og síðan bæta við metformíni. Hvaða lyfjum er síðan bætt við fer eftir því hversu vel gengur að ná sykursýkinni undir stjórn.“

Að mati Ragnars er mjög mikilvægt að læknar hafi greiðan aðgang að þessum nýju lyfjum:

„Þannig sýndi nýleg samnorræn rannsókn sem bar saman SGLT2- og DPP-4-hemla, um 34 prósent lækkun á hættu á hjartabilun hjá þeim sem fengu SGLT2-hemla og þessi lyf lækkuðu heildardánartíðni um 20 prósent. Vanmeðhöndlaður einstaklingur með T2SS og fylgikvilla er heilbrigðiskerfinu þungbær og dýr fyrir þjóðarbúskapinn. Það er því mikilvægt að auk virkra forvarna sé meðferð T2SS á Íslandi í samræmi við nútímalegar klínískar rannsóknir og leiðbeiningar.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -