Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Ragnar segist krafinn um afsögn úr formannssæti VR vegna ummæla um þriðja orkupakkann

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Ég hef verið úthrópaður kvenhatari, krafinn um afsögn úr embætti formanns VR og þaðan af verra fyrir vikið,“ skrifar Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, á Facebook, um viðbrögðin vegna opinberrar andstöðu hans við Þriðja orkupakkann.

Ragnar furðar sig á harkalegum viðbrögðum vegna þess að hann hafi leyft sér að þakka þingmönnum Miðflokksins fyrir baráttuna gegn orkupakkanum. Hann gefur lítið fyrir fullyrðingar um að hann sé genginn í Miðflokkinn.

Formaður VR skýrir andstöðu sína gegn þriðja orkupakkanum sem andstöðu gegn markaðsvæðingu grunnstoða samfélagsins. „Af hverju er ég á móti því og hvaða reynslu höfum við á viðlíka pökkum í nafni frjálsrar samkeppni og markaðsvæðingar, neytendum til góða? Nærtækasta dæmið er einkavæðing bankanna sem átti að lækka kostnað, auka samkeppni og síðast en ekki síst vera samfélaginu og neytendum til góðs.“ skrifar hann og bætir við að hann telji ljóst að annað hafi komið á daginn.

Braskað með orku og heilbrigði

Einka- og markaðsvæðing grunnstoða eins og í heilbrigðiskerfinu hefur heldur ekki reynst neytendum og samfélögum vel og er nærtækast að líta til Bandaríkjanna í þeim efnum. Hvernig hefur braskið með HS orku verið og hvað er búið að slíta marga milljarða út úr því og er einhver svo barnalegur að halda því fram að við neytendur munum ekki borga brúsan í gegnum arðsemiskröfu nýjustu eigenda?“

Ekki andstæðingur ESB

Ragnar segist sjá marga kosti og ókosti við Evrópusambandið. Andstaða hans við þriðja orkupakkann sé ekki andstaða við ESB. „Þetta þýðir samt ekki að ég sé á móti ESB, sé andstæðingur Evrópusambandsins. Þvert á móti sé ég marga kosti, en líka galla. Einhverjir gætu túlkað þá skoðun, að ég sé ekki ESB andstæðingur, að ég sé genginn til liðs við Samfylkinguna eða Viðreisn þar sem ég er hrifin af hugmyndum um fastgengisstefnu. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að við eigum að byggja upp og hlúa að landbúnaði og þá sérstaklega ylrækt. Nota orkuna okkar í að auka sjálfbærni sem bæði skilur eftir sig minna kolefnisspor, fjölgar störfum og hefur jákvæð áhrif á viðskiptajöfnuð.“

- Auglýsing -

Óánægður en líka ánægður með íslensk stjórnmál

Formaður VR rekur stuðning sinn við einstaka flokka. „Þau ykkar sem hafið lesið þetta langt og eru þess fullviss um að ég sé orðin framsóknarmaður, haldið ykkur fast! Ég er nefnilega líka þeirrar skoðunar að við þurfum að endurskoða verndartolla á matvöru og lækka launatengd gjöld og jaðarskatta á einstaklinga og fyrirtækin sem gerir mig að einhverskonar Sjálfstæðismanni en ég hef verið skráður í flokkinn frá unga aldri sem og alla aðra flokka sem hægt er að skrá sig í.

Ég er umhverfissinni og í orði gæti ég talist Vinstri grænn. Mér finnst Katrín standa sig vel en stundum illa.

- Auglýsing -

Mér finnst Sólveig Anna í Eflingu alveg frábær. Þar fer glerhörð og sönn baráttukona fyrir réttlátar samfélagi. Ég er sammála henni í mörgu, ekki alveg öllu en mjög mörgu og mér finnst Gunnar Smári frábær penni og flottur gaur sem hlýtur þá að gera mig að forhertum sósíalista, sem borgar ekki fólki launin sín. Svo er það baráttukonan, fyrirmyndin og Píratinn Birgitta Jónsdóttir sem ég lýt á sem eina af mikilvægustu stjórnmálakonum samtímans. Sem er svolítið sérstakt, í ljósi þess að vera bendlaður við kvenhatur, að flestar mínar fyrirmyndir eru konur.

Eina hatrið sem ég ber í hjarta eru Hatarar sem mér finnst hrikalega kraftmikið, hárbeitt og flott band.

Barátta Flokks Fólksins gegn skerðingum í almannatryggingakerfinu gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegum er mér svo hugleikin að það jaðrar við þráhyggju og mér finnst þau standa sig feikilega vel í þeim efnum.

Ég er þakklátur ríkisstjórninni fyrir góða og lausnamiðaða vinnu og að mörgu leiti frábært samstarf við verkalýðshreyfinguna í nýafstöðnum kjarasamningum. Á móti lýsi ég miklum vonbrigðum með sömu ríkisstjórn yfir því að hafa ekki náð lengra í mörgum málaflokkum. Ég læt lesendum eftir hvort ég sé skilyrðislaus stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar eða ekki“

Pólitísk rétttrúnaðarstefna að sundra samfélögum

„Það er vandlifað í heimi málfrelsis og frjálsra skoðanaskipta svo lengi sem skoðanir þínar eru „réttar“. Ég tel að pólitísk rétttrúnaðarstefna, og pólitískur rétttrúnaður almennt, sé það sem sundrar samfélögum. Alveg eins og hver önnur trúarbrögð. Við vitum hverju var bjargað eftir hrun og hverju ekki. Ekki bara hér heldur útum allan heim.

Evrópusambandið er ekki fullkomið og ekki heldur alslæmt. ESB gefur grænt ljós á tilveru skattaskjóla og er ekkert öðruvísi en hvert annað stjórnvald þegar kemur að hagsmunagæslu fyrir valdamikla forréttindahópa, ESB veitir fyrirtækjum sem selja aðgang að vinnuafli (Mansal) lagalegt skjól. Afregluvæddi og markaðsvæddi fjármálakerfið og vill gera það sama með aðra innviði eins og orkuna,“ skrifar Ragnar en bendir á að þrátt fyrir þetta telji hann sig ekki andstæðing frjálsra viðskipta.

„En samt er ég ekki á móti frelsi í viðskiptum. Ég er einfaldlega á móti því að markaðssvæða grunnþarfir og nauðsynjar samfélaga. Það er ekkert athugavert við að markaðssvæða hluti sem þú hefur val um að nota eða neyta. En þar með er ekki sagt að ESB sé eitthvað hræðilegt bákn sem með öllu móti á að forðast. Hefur okkur gengið eitthvað betur við að halda utan um eigin auðlindir frá ágangi þeirra sem vilja ásælast auðlindir þjóðarinnar og halda uppi fjárstuðningi við flokkakerfið? Eða draga úr misskiptingu og tvöfeldni í skatt og réttarkerfi? Þess vegna er mikilvægt að séum hluti af Evrópusamstarfinu og beitum okkur á alþjóðavettvangi fyrir réttlátari heimi og í okkar eigin garði þegar breyta á leikreglum sem algjör óþarfi er að breyta.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -