Miðvikudagur 17. apríl, 2024
1.8 C
Reykjavik

Sigríður er með endómetríósu: „Kynntist ekki einni konu með góða reynslu af heilbrigðiskerfinu hér“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Á Íslandi í dag er á bilinu  12 til 15 þúsund með sjúkdóminn endómetríósu en aðeins þrjú þúsund eru formlega greindir. Endómetríósa er sjúkdómur sem orsakast af því að endómetríósu-frumur finnast á ýmsum stöðum í líkamanum. Frumurnar bregðast við mánaðarlegum hormónabreytingum líkamans. Óeðlileg starfsemi frumanna getur valdið bólgum, innvortis blæðingum, blöðrum á eggja-stokkum og samgróningum á milli líffæra. Allt þetta getur valdið miklum sársauka.

Sigríður Halla Magnúsdóttir er varaformaður Samtaka um endómetríósu, og hún hefur sitt að segja um heilbrigðiskerfið hér á landi í skoðanapistli á Vísi:

„Ég var 38 ára gömul þegar ég greindist með endómetríósu og í byrjun árs 2021 fór ég til erlends sérfræðings í sjúkdómnum. Ég fékk ekki þá hjálp sem ég þurfti á Íslandi. Aðeins annar eggjastokkurinn var eftir af kvenlíffærum mínum og það skortir þekkingu á endómetríósu utan þeirra innan heilbrigðisgeirans á Íslandi.“

Sigríður segir að í ferli sínu í leit að lækni „sem var tilbúinn til að hjálpa mér kynntist ég mörgum konum í sömu sporum, eini munurinn á okkur var þó að þær höfðu vitað af sínum sjúkdómi í töluverðan tíma. Þær voru, líkt og ég, í leit að erlendum sérfræðingum sem voru tilbúnir að hjálpa þeim að endurheimta líf sitt og heilsu.“

Og bætir við:

„Það myndast ákveðin systrabönd í baráttu við heilsu og heilbrigðiskerfið og stuðningurinn er ómetanlegur. Ég kynntist ekki einni einustu konu sem hafði góða reynslu af heilbrigðiskerfinu hér heima og ákvað því að hér á landi væru eingöngu vanhæfir læknar þegar um endómetríósu ræðir. Mín skoðun var óhaggandi; það þurfa allir með endómetríósu að komast til erlendra sérfræðinga til þess að ná bata.“

- Auglýsing -

Hún nefnir einnig að „með brennandi eldmóð fyrir því að aðstoða endósystur mínar bauð ég mig fram í stjórn Samtaka um endómetrísósu og fékk þar ljómandi fínt sæti. Það fóru þó fljótt að renna á mig tvær grímur; mín óhaggandi skoðun á læknum hér heima var ekki eins einföld og ég hélt. Ég stóð auðvitað í þeirri trú að við værum öll eins og að það fengi enginn aðstoð hér, aðra en að fá uppáskrifuð hormónalyf sem gera mann veikan.“

Sigríður segir að „sannleikurinn er sá að sjúkdómurinn leggst ekki eins á okkur, og við erum öll mjög ólík, þrátt fyrir að eiga mjög svipaðar sögur.

Margar konur ná ótrúlegum bata eftir aðgerðir hjá endómetríósu-teymi Landspítalans, aðrar fá heilsuna aftur með því að vera á hormónabælandi lyfjum og á getnaðarvörnum. Eins eru ekki allir tilbúnir til að fara í aðgerð og hvað þá að ferðast til útlanda til þess. En, fyrir mörg okkar eru þrautþjálfaðir erlendir sérfræðingar í sjúkdómnum okkar, eina von um bata sem getur talist ásættanlegur,“ og bætir við að „þetta er nefnilega ekki eins einfalt og ég hélt, það er ekki „one size fits all“ þegar kemur að endómetríósu.“

- Auglýsing -

Hún færir í tal að „staðreyndin er sú að þjónustan sem er í boði hér á landi er góð fyrir sum okkar en hún þarf að vera betri. Við þurfum öll að geta leitað til lækna hér heima, þrátt fyrir að endastöð sumra komi til með að vera í öðru landi hjá reyndari læknum.

Heppnin er aldeilis með komandi heilbrigðisráðherra því Samtök um endómetríósu skiluðu inn níu blaðsíðna greinagerð til heilbrigðisráðuneytisins um hvernig þarf að bæta þjónustu við okkur svo að hún verði ásættanleg fyrir öll okkar sem glímum við þennan sjúkdóm.“

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -