Miðvikudagur 27. mars, 2024
4.8 C
Reykjavik

Sigurgeir Sindri, fyrrv. formaður Bændasamtakanna: „Nú getur þú unnið eiginlega alls staðar“

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

„Nú um stundir er umræða í tengslum við bæði „eftir Covid“ og þetta stríð í Úkraínu og þá rennur mikilvægi matvælaframleiðslu mjög upp fyrir fóki og það er á svona tímum sem menn fara virkilega að hugsa hvernig við eigum að haga okkur í matvælaframleiðslu,“ segir Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, fyrrverandi formaður Bændasamtakanna og svæðisstjóri Arion banka á Vesturlandi, í viðtali við Guðna Ágústsson þegar hann er spurður hvernig hann sjái sveitirnar fyrir sér. „Þannig að ég sé þetta svolítið þannig fyrir mér núna að við séum kannski á svipuðum stað og var eftir hrun þegar menn sáu það að það var mikilvægt að vera sjálfbær um sína matvælaframleiðslu. Að sjálfsögðu eigum við fiskinn í sjónum en við sáum það þegar svona kemur upp að það er eins og allir framleiðslu- og flutningaferlar hafi einhvern veginn raskast mjög mikið við Covid. Það er erfitt að fá vörur, það er erfitt að fá ýmislegt. Allir ferlar hafa riðlast með einum eða öðrum hætti. Þannig að eins og oft áður er landbúnaðurinn gríðarlega mikilvægur og mér finnst núna að menn séu að tala á þannig nótum að við þyrftum að líta okkur aðeins nær hvað það varðar.“

Covid. „Það hefur einhvern veginn opnað sýn okkar fyrir því að það er hægt að gera ýmislegt án þess að fara að keyra. Okkur hefur gengið vel í Covidinu að aðlaga okkur að því að við getum unnið mikið heima og störf geti verið án staðsetningar. Þetta hefur opnað augu stjórnsýslunnar og fyrirtækjanna almennt og vill gefa fólki sem vill setjast að í sveit og búa úti á landsbyggðinni tækifæri til þess að gera það þó það sé í krefjandi og viðamiklum störfum.“

Það er þessi hobbíbúskapur; að vera kannski með nokkur hross og hænsni og starfa þess vegna fyrir fyrirtæki úti í heimi í gegnum netið. Er þetta ekki eitthvað sem við þurfum að mæta af fullum þunga?

Nú getur þú unnið eiginlega alls staðar.

„Jú, það sem hefur gerst með ljósleiðaratengingu um allt land hefur gerbreytt þessari stöðu. Nú getur þú unnið eiginlega alls staðar.“

Sigurgeir Sindri segir að það skipti máli að afkoman sé í lagi en að hún hafi ekki verið það í sauðfjárræktinni. „Það hefur gengið mjög vel í kúabúskap og það hefur gengið sæmilega í öðrum búgreinum en það hefur orðið mikil fækkun í sauðfjárræktinni og þar kemur brestur í þetta sem við vorum að ræða; það verður ákveðin byggðaröskun.“

Lágt afurðaverð tengist því.

- Auglýsing -

„Já, allt of lágt. Það sem mér finnst skipta mestu máli í þessu er að menn horfi á afurðaverðið.“

Besta lambakjöt heims og besta villibráð heimsins verður að vera á sanngjörnu verði.

Þannig að ég hefði talið að verðmunurinn ætti alveg að vera meiri.

„Já, hún á kannski ekki að vera að keppa við aðrar kjöttegundir. Hún er bara skörinni ofar í gæðum. Og það er það sem við höfum kannski flaskað á að ætla þessu að vera í samkeppni við kjöttegundir sem eru framleiddar með allt öðrum hætti og ættu ekki að kosta það sama. Þannig að ég hefði talið að verðmunurinn ætti alveg að vera meiri. Það er þá kannski öðruvísi markaður og ekki eins stór en við ættum að horfa á þetta þannig.“

- Auglýsing -

Vöruþróunin í lambinu hefur nú verið góð síðustu ár.

„Já, mikil ósköp. Það er búið að gera frábæra hluti.“

Svo horfa menn á hestinn og það hefur gengið mjög vel að gera hann að búgrein.

„Það er alveg frábær staða í því núna og gengur mjög vel í útflutningi þeirra sem eru að flytja út hross.

Það eru margir glæsilegir búgarðar í dag og heilmikið um að vera í útflutningi á íslenska reiðhestinum.“

Lambakjötið hefur verið sú afurð af kjöti sem hefur gengið helst að selja úti í heimi.

Við höfum ekki sinnt þessum mörkuðum og auðvitað er verð rokkandi.

„Já, mér finnst það synd. Mér finnst hafa tapast fókus í því. Við höfum ekki sinnt þessum mörkuðum og auðvitað er verð rokkandi.

Við þurfum að hafa markaði erlendis; miðað við mismunandi hlutfall af bitum og annað – við þurfum að flytja eitthvað út. Þannig að erlendir markaðir eru mikilvægir líka.“

Hafa menn ekki verið of daufir í nautakjötsframleiðslu?

„Það er það sem við gerðum í þessum búvörusamningi,“ segir Sigurgeir Sindri og á við þann tíma þegar hann gegndi starfi formanns Bændasamtakanna. „Þar lögðum við sérstaka áherslu á þetta; með innflutningi á þessu erfðaefni og það er að rísa núna stofn sem getur keppt í þessu og framleitt úrvals nautakjöt. Það tekur að sjálfsögðu tíma að byggja það upp en það er mjög jákvætt að sjá hvað er að gerast í því.“

Svo þurfa menn að rækta korn og aðföngin sem mest hér.

„Einmitt. Það er mjög mikilvægt líka.“

Hótel Saga

Sigurgeir Sindri stóð frammi fyrir mörgum verkefnum sem formaður Bændasamtakanna. Hann var til dæmis kominn fast að því að selja Hótel Sögu í nafni samtakanna og skilja eftir nokkra milljarða hjá bændunum.

„Árið 2014 var farið í þá vegferð að Selja Hótel Sögu. Þegar ég kom 2013 þá átti eftir að gera upp allt eftir hrun þar. Það var búinn að vera svokallaður kyrrstöðusamningur í gangi í þrjú ár milli Arion banka, sem var lánastofnun hótelsins, og Bændasamtakanna og þetta kyrrstöðusamkomulag var búið að vera í gildi frá 2010 og það var bara eins með Sögu eins og með öll önnur hótel á Íslandi og mörg fyrirtæki að það var alger forsendubrestur eftir efnahagshrunið. Við fórum strax í það 2013 að ég yrði stjórnarformaður hótelsins um leið og ég varð formaður Bændasamtakanna að gera samkomulag við Arion banka um þessi skuldamál. Og það greiddist nokkuð vel úr því og kannski stærsti punkturinn í því var að Hótel Ísland sem var líka undir þá fór til bankans og svo tókst þeim að selja það og það kom þá inn í þetta uppgjör og niðurstaðan varð að það var nánast ekkert afskrifað.

Við náðum þarna góðu samkomulagi við bankann og ég átti heilmikil samskipti við Höskuld Ólafsson, þáverandi bankastjóra, í þessu og mér fannst hann reynast okkur heill og vel í þessu ferli öllu.

Vandinn í þessu öllu var einhvern veginn að við höfðum eiginlega aldrei umboð til þess að selja.

Svo var tekin ákvörðun að auglýsa hótelið til sölu 2014. Vandinn í þessu öllu var einhvern veginn að við höfðum eiginlega aldrei umboð til þess að selja af því að við þurftum alltaf að bera þetta undir Búnaðarþing.

Málefni hótelsins og ákvörðun um að selja var alltaf lögð fyrri Búnaðarþing. Þannig að í viðræðum við kaupendur og annað getur maður aldrei sagt 100% hvort tilboði verði tekið. Þegar var búið að fara í gegnum þetta söluferli 2014 þá sátum við uppi með eitt tilboð sem var hvað hæst og þá þurftum við að leggja mat á það. Við stóðum þá frammi fyrir því að taka ákvörðun hvort því skyldi tekið með fyrirvara um samþykki Búnaðarþings. Það var okkar mat á þeim tímapunkti að þetta væri ekki líklegt til þess að verða samþykkt af Búnaðarþingi. Við vorum á fremsta hlunn með að selja en eftir nánari íhugun og yfirferð á málinu þá var niðurstaðan að gera það ekki. Svo hófum við umræðu um þetta fyrir Búnaðarþing og það var alveg ljóst á umræðu þar að það var rétt mat að það var ekki vilji fyrir að selja á þessum tímapunkti. En við tókum þá ákvörðun að skipta þessu upp annars vegar í fasteignafélag sem hét svo Bændahöllin ehf og svo áfram rekstrarfélag sem var Hótel Saga og undirbúa einnig kannski betur með það að ef það yrði ákveðið að selja þetta síðar þá myndum við vera búin að undirbúa það betur. Af því að þetta var allt í einni púllíu þá höfðu fasteignafélög ekki áhuga. Þau kærðu sig ekkert um að fara að reka hótel. Þau vildu bara eiga fasteignir. Þá var þessu skipt svona upp og ákveðið að fara í nauðsynlegar framkvæmdir sem höfðu legið niðri á meðan þetta kyrrstöðusamkomulag var og þar fram eftir götunum. Þannig að það var niðurstaðan að við fórum í þessa vegferð. Það gekk mjög vel fyrst á eftir að við gerðum samkomulag við Arion banka. Það var mikið um að vera í ferðaþjónustunni og við fórum síðan í framkvæmdir á Hótel Sögu; endurnýjuðum herbergi, byggðum ný herbergi og þar fram eftir götunum.

Annars vegar fór það fram úr áætlun og varð kostnaðarsamara heldur en gert var ráð fyrir og á sama tíma þurfti að loka meira.

Til að rekja söguna hvað gerðist, en menn eru oft að velta því fyrir sér hvernig þetta fór svona, þá voru mjög veigamiklar framkvæmdir á árunum 2017 og 2018 og þá var farið að byggja upp í veitingadeildinni líka; það var nýr veitingastaður á fyrstu hæðinni, Súlnasalurinn á annarri hæð var endurnýjaður og einfaldlega var niðurstaðan sú að þetta tók of langan tíma. Þetta dróst of mikið og framkvæmdir fóru fram úr áætlun þannig að það skeði tvennt. Annars vegar fór það fram úr áætlun og varð kostnaðarsamara heldur en gert var ráð fyrir og á sama tíma þurfti að loka meira. Það varð að loka veitingadeildinni sjálfri og þó nokkuð mikið af herbergjum sem ekki skapaði þá tekjur á meðan.

Í árslok 2018 var farið að síga á ógæfuhliðina í rekstri. Þetta voru seinustu mánuðir mínir þarna og þá tók ég upp umræðu að við þetta yrði ekki unað og að það þyrfti að taka á í rekstri og varðandi þessar framkvæmdir. Við fórum í þá vegferð að láta skoða möguleika á samrekstri með öðrum og KPMG vann fyrir okkur skýrslu um að sameina rekstrarfélagið með tveimur öðrum hótelum hér innanlands sem hefði getað orðið sterk eining sem hefði getað rekið hótelrekstur á þremur stöðum. Þetta var talið spara 200 milljónir strax á fyrsta ári. Það var nokkurn veginn það sem við vorum farin að sjá að yrði tapið á þessu ári, 2018. Við kölluðum svo líka til Deloitte, ráðgjafarfyrirtækið, sem kom með starfsmann inn í stjórnendateymi hótelsins til að velta við hverjum steini. Þannig að það var heilmikill þungi í því að snúa ofan af þessu. En svo hagaði nú þannig til í byrjun árs 2019 að ég fór í annað; ég fór að vinna hjá Arion banka. Þá lá þetta fyrir að fara í þetta samstarf með þessum tveimur öðrum hótelum en niðurstaðan var að það var ekki gert. Þeir sem tóku við keflinu ákváðu að gera það ekki. Og í staðinn fyrir að velta þá áfram hverjum steini og taka strax á í þessum rekstri þá var niðurstaðan þannig að það hélt áfram að vera gríðarlegt tap.

Svo kom fall WOW Air sem var mjög erfitt og í framhaldinu Covid sem varð til þess að þetta raðaðist upp með þessum hætti.

Mér finnst það mjög miður að menn skyldu ekki hafa farið í þessa vegferð því það hefði getað hjálpað rekstrinum strax. Það þurfti einfaldlega að taka á þessu strax.

Vissulega urðu þessar framkvæmdir dýrari en ætlað var.“

Féð í Arion banka

Sigurgeir Sindri fæddist í Reykjavík.

„Ég segi stundum að ég sé fæddur í Reykjavík, alinn upp þar á virkum dögum og á veturna en þegar ég var orðinn unglingur þá fór ég flestar helgar út á land.“

Hann fór ungur í sveit.

„Ég fór fyrst á Efri Brúnavelli á Skeiðum. Þar búa tvíburabræður, Jón og Þorgeir, og var hjá þeim fyrstu tvö sumurin sem ég fór í sveit. Ég fór 1985 þarna fyrst og var tvö sumur hjá þeim á Skeiðum og svo fór ég í Borgarfjörðinn. Og fór í Arnarholt. Það var virkilega gaman að vera hjá þeim í sveit og þeir voru uppátækjasamir. Það er mjög margt sem maður rifjar upp eftir að hafa verið þarna; margt kúnstugt sem þeir gerðu og virkilega gott að vera þarna hjá þeim.“

Fór svo að vinna í Borgarfirðinum og hef verið þar meira og minna síðan.

Arnarholt í Stafholtstungu í Borgarfirði 1987. „Ég var hjá þeim Sævari og Sólveigu í fimm sumur og fór svo að vinna í Borgarfirðinum og hef verið þar meira og minna síðan.“

Sigurgeir Sindri kynntist Kristínu í Bakkakoti í Stafholtstungum sem er konan hans í dag.

„Hún er dóttir Kristjáns Axelssonar og Katrínar Hjartar Júlíusdóttur sem þar voru bændur en á undan þeim voru það afi hennar og afi, Kristín og Axel, og hófu búskap í kringum 1945. Þannig að sama fjölskyldan er búin að vera þar síðan þá.“

Sigurgeir Sindri og Kristín gerðu upp hús ömmu hennar og afa, gamla húsið í Bakkakoti, 1994 og fluttu inn í það. Þau tóku síðan við búskapnum af Kristjáni og Katrínu 1997. Sigurgeir Sindri hafði útskrifast árið 1995 sem búfræðingur frá Bændaskólanum frá Hvanneyri.

Hann hóf svo árið 2004 nám við frumgreinadeildina á Bifröst og fór svo í framhaldi af því í viðskiptadeild skólans og lagði stund á viðskiptafræði. Hann valdi skiptinám og dvaldi fjölskyldan, þau Kristín og börnin þeirra, í eina önn í Kanada. „Það var mjög skemmtilegur tími. Við vorum náttúrlega búin að ala börnin okkar upp í sveit og þarna voru þau allt í einu komin í erlenda stórborg og farin að búa í blokk með lyftu.“ Dóttirin er Lilja Rannveig, alþingismaður Norðvesturkjördæmis síðan 2021. Framsóknarflokkur.“

Sigurgeir og Kristín fóru af fullum krafti í búskapinn. „Við erum mest með 750 ær á fóðrum þegar er hvað mest hjá okkur.“

Þau eru líka hestafólk.

„Við erum með þó nokkuð af hrossum. Meginþunginn í hestamennskunni hefur verið á sumrin. Við höfum járnað mjög mikið á sumrin. Ferðast mjög mikið, riðið mjög mikið út og farið í ferðir. Svo höfum við notað hesta mikið til smalamennsku.“

Hann er bóndi af lífi og sál. „Þetta hefur alltaf verið í mér. Og þau sögðu það skólasystkini mín í Árbænum í gamla daga að það kom engum þeirra á óvart að ég skyldi gerast bóndi.“

við ákváðum að hafa þetta rúmt bæði í húsum og haga og vinnuframlagið er aðeins léttara.

Hann segir að það hafi verið heilmikil vistaskipti þegar hann hætti að vinna sem formaður Bændasamtakanna og fór að vinna hjá Arion banka. „Við veltum því fyrir okkur hvað við ætluðum að gera með búskapinn en við höfum ákveðið að búa þarna og ætlum að vera þarna og nýta þessa jörð.

Við erum með 400 ær í dag þannig að þetta hefur fækkað verulega og við ákváðum að hafa þetta rúmt bæði í húsum og haga og vinnuframlagið er aðeins léttara.“

Hvernig líkar sauðfjárbóndanum í Bakkakoti að sjá um féð í Arion banka?

„Bara ljómandi vel. Ég er mjög ánægður þarna. Ég er með einstaklega gott fólk með mér á Vesturlandi; ég starfa í mjög fínu teymi inni á viðskiptasviði bankans sem heyrir undir Vestmanneyinginn Iðu Brá Benediktsdóttur sem nú er orðin einnig aðstoðarbanakstjóri. Þetta er lifandi og skemmtilegt teymi. Þetta er mjög gefandi starf. Ég hitti mikið af fólki og það kemur mikið af fólki sem er með skemmtilegar hugmyndir og nýsköpun og ýmislegt sem það vill gera. Ég ferðast mikið og heimsæki bændur og ýmis fyrirtæki á landsbyggðinni.“

Hægt er að sjá allt viðtalið hér.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -