Fimmtudagur 18. apríl, 2024
1.1 C
Reykjavik

Sláandi verðmunur á íslenskum náttúrulaugum: Bláa lónið er langdýrast og Fontana ódýrast

VefTv

- Auglýsing -

Hlaðvörp

- Auglýsing -

Eitt af því sem við Íslendingar erum rík af er vatnið, heitt og kalt. Það heillar jafnt landsmenn sem erlenda ferðamenn sem hingað koma.  Á síðustu árum hefur aukist mjög framboð á ýmsum, manngerðum, náttúrulaugum. Umfjöllun um þessi mál eru í nýjasta hefti Mannlífs.

En það er ekki ókeypis að heimsækja þessa staði og verðmunur er sláandi. Ódýrast er að heimsækja Laugarvatn Fontana eða 4500 krónur á mann. Dýrast er að heimsækja Bláa lónið eða 11990* krónur á mann.

En það er ekki á allra færi að njóta þessara náttúrulauga.  Mannlíf tók sem dæmi fimm manna fjölskyldu sem saman stóð af tveimur fullorðnum, þremur börnum fimm, tíu og fjórtán ára.  Ef fjölskyldan heimsækir Giljaböðin þá kostar það 24090 krónur. En ef þau heimsækja Kraumu kostar það 14300 krónur. En ef fjölskyldan vill gera vel við sig og fara í Bláa lónið þá kostar það fjölskylduna 35970 krónur.

Nokkrir staðir bjóða sérverð fyrir aldraða og öryrkja, til dæmis Sjóböðin GeoSea, Jarðböðin Mývatni og Laugarvatn Fontana. Einnig er í boði á sumum stöðum vetrarkort og 10 skipti. Vert er að skoða þann möguleika ef þú býrð nálægt og vilt njóta hagstæðustu kjara. Einnig er misjafnt verð fyrir börn og aldursbil á skilgreiningu barna.

- Auglýsing -

Þess ber þó að geta að erfitt er að bera saman verð þar sem munur er á því hvað innifalið er í verði. Til dæmis er gönguferð með leiðsögn innifalið í heimsókn í Giljaböðin. Virka daga er ódýrara að heimsækja Sjóböðin í Hvammsvík en þá kostar það 6900 krónur en 7900 krónur um helgar.

 

Nýjasti baðstaðurinn eru Sjóböðin í Hvammsvík. Þar fær náttúran að njóta sín í öllu sínu veldi og Hvalfjörðurinn rammar staðinn fullkomnlega inn. Sjóböðin í Hvammsvík samanstanda af átta misstórum og heitum laugum í fjöruborðinu, gufu og útisvæðum til slökunar. Neðstu laugarnar birtast og hverfa til skiptis á flóði og fjöru og er upplifunin því síbreytileg eftir tíma dags. Rekaviður er áberandi í hönnun staðarins.

- Auglýsing -

Á höfuðborgarsvæðinu er Sky lagoon í Kópavogi sem opnaði 2021 er annað upp á teningnum. Þar er tilbúinn draumaheimur og heillandi heilsulón sem sem er smekklega hannað inn í náttúrulegt umhverfi á Kársnesinu. Þar fer saman slökun og endurnæring þar sem himinn og haf renna saman.

Úr Kópavoginum höldum við á Laugarvatn. Þar er að finna Fontana við Laugarvatn og þú upplifir einstaka fjallasýn á meðan þú endurnærist. Einnig er í boði einstök gufa sem er beint yfir náttúrulegum gufuhverum.

Frá Laugarvatni er tilvalið að skreppa upp í Borgarfjörð. Þar er að finna Kraumu og Giljaböðin. Skammt norðan við Deildartunguhver stendur Krauma náttúrulaug. Náttúrulaugarnar innihalda hreint og tært vatn beint úr Deildartunguhver sem kælt er með vatni undan öxlum Oks. Laugarnar eru sjö talsins, sex heitar og ein köld.

Giljaböðin við Húsafell bjóða upp á einstaka upplifun í manngerðum laugum með náttúrusteinum úr nágrenninu. Þar eru í boði tvær heitar laugar auk kaldrar uppsprettu. Húsafell Giljaböð bjóða upp á ferðir með leiðsögn í fullkomna hálendisslökun í einstökum giljaböðum.

Næst höldum við norður yfir heiðar og er stefnan tekin á Skógarböðin sem eru staðsett í Vaðlaheiði gegnt Akureyri.  Skógarböðin eru náttúrulaugar  sem njóta sín einstaklega vel inn í þéttvöxnum skóginum með útsýni yfir Eyjafjörðinn. Auk heitu lauganna er hægt að baða sig í kaldri laug og fara í þurrsána.  Einstök upplifun sem hægt er að mæla með.

Áfram höldum við og nú tökum við krók að Mývatni en þar eru Jarðböðin staðsett. Böðin er staðsett í Jarðbaðshólum en þar hafa verið stundið heit jarðböð til heilsubótar allt frá landnámsöld. Jarðböðin eru fyrir alla sem vilja njóta þess að vera í beinni snertingu við náttúruna, slaka á og endurnæra líkama og sál. Boðið er upp á náttúruleg gufuböð, baðlón með heitu hveravatni og heitan pott.

Næst er það Húsavík. Þar er að finna Sjóböðin GeoSea. Í sjóböðunum nýtur þú náttúrunnar á einstakan hátt. Hitinn í iðrum jarðar sér um að sjórinn í böðunum sé hlýr og góður og steinefnaríkt vatnið gælir við hörundið. Á meðan hlýr sjórinn vinnur sín kraftaverk nýtur þú útsýnis yfir fjallgarðinn í vestri, Skjálfandaflóann fyrir neðan klettana og sjálfan Norður-heimskautsbauginn handan við sjóndeildarhring.

Frá Húsavík höldum við til Egilsstaða. Við Urriðavatn sem er fimm kílómetra frá Egilsstöðum er að finna Vök Baths sem eru heitar náttúrulaugar. Laugarnar eru fullkominn áningastaður fyrir þá sem vilja upplifa beina snertingu við náttúruna og næra um leið líkama og sál.  Fyrir þá sem það vilja og treysta sér til er einnig hægt að taka nokkur sundtök í ísköldu Urriðavatni.

Nú förum við þvert yfir landið og endum þessa umfjöllun okkar við Grindavík. Bláa lónið þarf varla að kynna fyrir nokkrum manni en þar hefur verið rekið baðlón frá 1987. Bláa lónið er nú einhver fjölsóttasti ferðamannastaður á Íslandi bæði af innlendum og erlendum ferðamönnum og er talið eitt af 25 undrum veraldar. Fyrir utan einstaka upplifun af því að baða sig í lóninu þá hefur böðun jákvæð áhrif á húðsjúkdóminn psorisasis. Einnig er boðið upp á hreinsandi og nærandi kísilmaska í lóninu sem er innfalið í verði.

*Ódýrasti aðgangur í Bláa lónið er svokallaður Comfort aðgangur en þar er innifalið kísilmaski, handklæði og drykkur að eigin vali. Einnig getur verð verið mismunandi eftir því hvað þú pantar með löngum fyrirvara en þetta er það verð sem oftast kom upp ef þú ætlaði að panta á næstu vikum. Aldraðir og öryrkjar greiða það verð sem er ódýrast hverju sinni en þar er ekki hægt að gefa upp neina ákveðna krónutölu. Börn fjórtán ára og eldri greiða sama gjald og fullorðnir en börn tveggja til þrettán ára greiða ekkert gjald.

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. Mannlíf áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.
 

Lestu meira

- Auglýsing -

Veistu meira um málið?

Endilega láttu heyra frá þér!
Frjálst er að senda nafnlausa ábendingu en netfang þarf að vera útfyllt.

Fullum trúnaði er heitið.

Deila

Nýtt í dag

Mest lesið í vikunni

Raddir

Í fréttum er þetta helst...

- Auglýsing -